150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[20:04]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er auðvitað augljóst í samráðsferli að þegar menn fara heim í hérað og leggja fram óskalista sinn þá gengur hann ekki allur upp. Því er hægt að svara, ef menn segjast ekki vita af hverju þeirra vegur komst ekki þarna inn, að það sé vegna þess módels sem ég var að lýsa áðan þar sem öll meginmarkmið samgönguáætlunar sem er í gildi á hverjum tíma eru grundvöllur vinnu samgönguráðs auk erindisbréfs ráðherra til samgönguráðs sem það vinnur eftir. Það er sú vinna og síðan eru þar sérfræðingar Vegagerðarinnar sem hafa lagt mat á arðsemi á grundvelli byggðasjónarmiða, á grundvelli umhverfissjónarmiða og alls konar annarra hluta sem koma þar að. Að lokum verður til einhver listi sem er lagður til í tillögu samgönguráðs til ráðuneytisins sem síðan skilar sér inn í þingið. Þetta er mjög lógísk vinna. Þegar þingið er búið að fjalla um tillöguna og leggja til að ákveðnar framkvæmdir, eins og gert var, þar á meðal þessar, séu vel til þess fallnar að fara í gegnum svona samvinnuferli er fjallað um þær og og þær samþykktar á þinginu. Þá tökum við það í ráðuneytinu og búum til frumvarp um það. Þetta er mjög lógískt ferli. (BLG: Nema það vantar að fá þetta í hendurnar.)