150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[20:21]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að ríkið geti ekki skotið sér undan stjórnarskrárbundnum skyldum sínum til að tryggja sér fjárheimildir fyrir öllum fjárútlátum í fjárlögum með því að gera samning eins og þann sem við erum að ræða um hér án þess að fyrirvari um aðkomu Alþingis feli það í sér að fjárveitingavaldið liggur þar. Það er í mínum huga alveg skýrt að komi ekki samþykki um fjárheimildir á fjárlögum fyrir hvert og eitt ár sem samningurinn tekur til þá fellur þar með ákveðin forsenda. Þetta endurspeglast einmitt í ákvæðinu sem hv. þingmaður vísar til sem fjallar um það að ráðherra þurfi að gera tillögu um þetta í fjármálaáætlun og í fjárlögum, þ.e. með þessu er viðurkennt að fjármálaráðherrann, sem skrifar undir þetta samkomulag, getur ekki lofað meiru en að hann geri tillögu um þetta til þingsins. Svo verður annað að ráðast af meirihlutavilja hér á þinginu.

Það verður að segjast eins og er að það er dálítið óvenjulegt að um það sé samið að menn geri tillögu um að efna samninga sem þeir hafa gert. En á sama tíma er það dálítið útgjaldalítið fyrir fjármálaráðherrann að gangast við því að hann ætli a.m.k. að gera tillögu til þingsins þannig að mér fannst það svo sem alveg sjálfsagt. En mér finnst þessar tvær greinar, þegar þær eru lesnar saman, sýna það skýrt að fjárveitingavaldið liggur á endanum hér og það ræðst af ákvörðunum Alþingis hverju sinni. Um framkvæmdaáætlunina þá er þetta hugsað þannig að samhljómur sé í því sem ákveðið er í samgönguáætlun og því sem verið er að vinna á grundvelli þess samkomulags sem hér er um að ræða.