150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[21:06]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er gott að heyra að Miðflokkurinn styður almenningssamgöngur því að ég held þær séu mjög mikilvægar. En þá er líka spurning hvernig við ætlum að reka almenningssamgöngur. Ég get fullvissað hv. þingmann um að sú leið sem við nýtum í dag með því að senda alla þessa strætisvagna inn í kássuna, eins og við köllum það, er dýr. Almenningssamgöngurnar þurfa sérrými og þá getum við rekið bæði miklu hagkvæmari og miklu betri þjónustu fyrir borgarana á höfuðborgarsvæðinu.

Hv. þingmaður kom reyndar ekki inn á hver stefna Miðflokksins væri þegar kemur að borgarskipulagi, en ég geri mér grein fyrir því að það tekur kannski aðeins lengri tíma að fara yfir þá þætti. En vegna þess að ég þekki vel til hv. þingmanns held ég að hann sé löngu búinn að átta sig á hvað borgarlína er þó að hann hafi gaman af því að koma hingað upp og kasta fram alls konar hugmyndum þar að lútandi. Ég held að hv. þingmaður hljóti að vera búinn að átta sig á því að við erum að ræða strætó í sérrými. Það er einfaldlega hagkvæmari og betri lausn. Þannig að ég vona að þegar við endum þessa umræðu alla saman verði hv. þingmaður kominn í lið með okkur því að á höfuðborgarsvæðinu þurfum við, eins og í öllum öðrum borgarsamfélögum í kringum okkur, (Forseti hringir.) að byggja upp öflugar almenningssamgöngur. Hugmyndin sem lýtur að borgarlínu og samningum við sveitarfélögin er einfaldlega hagkvæmasta og besta leiðin.