150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[21:09]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Aftur vil ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir framsöguna við upphaf þessarar umræðu. Við ræðum frumvarp til laga um heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er frumvarp sem má segja að rammi inn samkomulag sem fjármálaráðherra, forsætisráðherra og samgönguráðherra skrifuðu undir við bæjarstjóra eða borgarstjóra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu 26. september 2019. Það ættu flestir að þekkja þá umræðu sem fór af stað í tengslum við það samkomulag. Segja má að frá því að það var gert hafi sveitarfélögin í raun alltaf, í hverju skrefi sem stigið hefur verið, styrkt stöðu sína gagnvart þessu tiltekna samkomulagi. Til að mynda virðist fyrirvarinn um samþykkt fjárlaga hverju sinni vera meira í orði en á borði. Það er skilyrði um að fjárheimildin sé lögð fram árlega en ef maður les í gegnum texta samkomulagsins eru ítrekanirnar bara það margar, sem fulltrúar ríkisstjórnarinnar skrifa undir, um að verði einhver frávik skuli málsaðilar setjast niður og ná samkomulagi á þeim nótum að framkvæmdaáætlun samkomulagsins haldi.

Það er örugglega ekki mörg dæmi um jafn ítarlega útfærslu samkomulags sem rammar inn með hvaða hætti ríkið skuli haga sér í samskiptum við sveitarfélög í tengslum við vegaframkvæmdir og í því máli sem við ræðum hér. Mér er til efs að nokkurn tímann yrði sest niður með landshlutasamtökum eða sveitarfélögum úti á landi og rammaðar inn þannig fjárfestingaráætlanir að ríkið beinlínis skuldbindi sig til þess að klára þær á tilteknum tímum eins og gert er í framkvæmdaáætlun þessa verkefnis sem er til ársins 2033, og allt samkomulagið gengur meira og minna út á að ríkið verði með öllum ráðum að klára sig af því. Með góðum vilja er hægt að lesa eitthvert hald í svona óljósum setningum í samkomulaginu, en með allt sem snýr að framúrkeyrslu í málinu öllu, verði framkvæmdirnar dýrari en reiknað er með, virðist nokkuð á huldu hvernig það verður leyst. Í raun þykir þeim sem hér stendur blasa við að það verði ekki leyst nema með viðbótarframlagi ríkisins. Eins og hæstv. fjármálaráðherra sagði áðan er eiginlegt framlag sveitarfélaganna sáralítið í þessu máli og fjármögnunin öll liggur hjá hinu opinbera, ríkissjóði. Því er haldið mjög opnu að þeir 60 milljarðar sem er horft til að geti mögulega verið fjármagnaðir með flýti- eða tafagjöldum, eða hvað sem það verður kallað á endanum, verði fjármagnaðir með beinum hætti með eignasölu eða öðrum álíka hætti. Svo að það sé rammað inn er fjármögnun á þessum heildarpakka öll í fanginu á ríkissjóði, en kröfugerðin og í raun afraksturinn af þessu verkefni öllu er að miklu leyti sveitarfélaga megin.

Varðandi kostnaðaráætlanir í þessu máli er best að orða það þannig að sporin hræði. Ég sendi fyrirspurn til hæstv. ráðherra í janúar og spurði hvort stjórn nýja Landspítalans hefði tilkynnt stjórnvöldum um uppfærðar kostnaðaráætlanir Landspítalans. Nú er kominn maí og það hafa ekki enn borist svör. Ég gef mér að það sé vegna þess að hlutirnir séu eitthvað farnir af stað þar, kostnaðarlega séð. Ég gef mér að þeir sem horfa á þær kostnaðaráætlanir sem liggja undir í þessu máli horfi á þær með töluverðum fyrirvara varðandi niðurstöðuna. Hún er áætluð 120 milljarðar. Verði niðurstaðan sú að hún verði á endanum 160 milljarðar, þetta fari 50% fram úr, sem er mjög vel sloppið miðað við borgarlínuverkefni í nokkrum borgum Skandinavíu og Evrópu, þá lendir sá kostnaður að meginþunga á ríkissjóði. Ég held að það sé eiginlega ekki boði annað en að þetta sé rammað inn með ítarlegri hætti í lögunum þannig að framtíðarþing og framtíðarríkisstjórnir séu ekki bundnar á einhvern klafa sem reynist á endanum algerlega óviðráðanlegur.

Mér sýnist ekkert í þessu máli, borgarlínuhugmyndinni allri, benda til þess að menn ætli að opna á þann möguleika að eftir nokkur ár, náist þetta allt saman fram, verði hægt að segja: Jæja, náðist raunverulega árangur með allri þessari tugmilljarða innspýtingu? Eins og kom fram í ræðu hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hér á undan þá varð árangurinn af milljarðainnspýtingu í Strætó, í tengslum við sérstakt samkomulag um að stöðva stórframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu, enginn. 4% farinna ferða við upphaf og 4% í dag. Ef í þessa borgarlínuæfingu verða settir tugir milljarða og hlutfall farinna ferða verður að 15 árum liðnum enn 4% þá verður enginn hér í þessum þingsal sem tekur ábyrgð á því nema auðvitað hæstv. forseti sem tekur slíkt til sín af mikilli herramennsku þegar tilefni er til. Því verður öllu vísað út í hafsauga þegar þar að kemur. Það eru prýðilegar líkur á því að þetta verði ofboðslega dýr æfing greidd af ríkissjóði.

Ég kom aðeins inn á það áðan að það kæmi mér mjög á óvart ef fulltrúum landsbyggðar yrði boðið upp á sams konar samkomulag við stjórnvöld sem rammaði mjög skýrt inn með hvaða hætti samgönguframkvæmdir gengju fram næstu 15 árin. Það þekkja það allir sem búa úti á landi hvers lags óskaplegt svekkelsi fylgir því þegar mikilvægar samgönguframkvæmdir frestast ár eftir ár, kjörtímabil eftir kjörtímabil, og menn yppta bara öxlum og segja: Það fæst ekki fjármagn til að gera þetta. Allt slíkt er tekið út úr myndinni gagnvart höfuðborgarsvæðinu í þessu samkomulagi og lagafrumvarpinu sem nú er lagt fram. Mér sýnist skilaboð ríkisstjórnarinnar ætla að vera þau að fyrir sveitarfélög sé best að taka ríkið í gíslingu, ég ætla nú bara að leyfa mér að lýsa því þannig. Vegagerðin og stjórnvöld hafa verið tekin í gíslingu núna um langa hríð af sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu og þá auðvitað sérstaklega af fulltrúum Reykjavíkurborgar, því að framkvæmdastoppið sem kveðið var á um í samkomulaginu þar sem settur var milljarður á ári aukalega í Strætó er hluti af orsök þess vanda sem við höfum staðið frammi fyrir með umferðarhnútum um allnokkra hríð.

Það þarf ekki annað en að rifja upp frétt frá því í gær til að átta sig á sýn þeirra sem stýra Reykjavíkurborg á þessi mál. Bara í gær var sagt frá því að nú væri búið að koma málum þannig fyrir á nýlagfærðri Geirsgötu að Strætó þarf að stoppa úti á miðri götu með tilheyrandi slysahættu. Það er svo greinilegt að þetta gengur allt út á að þrengja að og tefja fyrir för einkabílsins. Ég hefði seint trúað því að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins tæki þátt í slíkum æfingum, en sjáum hverju fram vindur.

Það er auðvitað sérstakt rannsóknaratriði að eftir þá þrautagöngu sem menn hafa verið í undanfarin 10–15 ár varðandi Sundabraut þá skuli rammað inn samkomulag upp á 120 milljarða þar sem Sundabraut er nefnd einu sinni í hálfgerðu framhjáhlaupi og ekki römmuð inn með neinum sérstökum hætti. Það er nýbúið að segja frá því að settur verði á enn einn stýrihópurinn til að reyna að átta sig á hvaða leið sé best, eftir að Reykjavíkurborg tók ákvörðun um að útiloka hagkvæmasta kostinn sem Vegagerðin hafði lagt til alla tíð. Þá sorgarsögu þekkjum við væntanlega flest, ef ekki öll. Samskipti ríkis og Reykjavíkurborgar hafa verið með slíkum endemum undanfarið, í töluvert mörg kjörtímabil, að sporin hræða verulega í þeim efnum. Til að undirstrika þau samskipti þá barst nú síðast frá borgarfulltrúa bréf til stjórnar umhverfis- og samgöngunefndar þar sem því var lýst yfir að forsendur samkomulags samgönguráðherra og borgarstjóra, um rannsóknir í Hvassahrauni, væru fullkomlega brostnar vegna háttalags fulltrúa borgarinnar. Það virðist vera þannig að skrifað er undir samkomulag um eitt og annað og alltaf virðast fulltrúar ríkisstjórnarinnar gefa eftir gagnvart óbilgjörnum kröfum sem fram koma eða túlkun á samningum sem þegar hafa verið undirritaðir. Og þegar menn, og ég leyfi mér í þessu tilviki að nefna sérstaklega hæstv. samgönguráðherra, virðast hafa sérstakt lag á að semja af sér í tengslum við samskipti samgönguráðuneytis og Reykjavíkurborgar, ættu menn frekar að fækka samningunum en fjölga þeim.

Hlutafélag eins og hér er lagt til að stofna getur nýst ágætlega ef það er ætlað til réttra hluta. Við í Miðflokknum lögðum fram í byrjun árs, í tengslum við tillögur sem við kölluðum þrístökk í þágu atvinnulífsins, tillögu um að fara í mjög verulegar framkvæmdir á forsendum lántöku þar sem væru rammaðar inn framkvæmdir í heildina upp á um 150 milljarða á næstu sex árum til að byggja grunn undir atvinnulífið og framkvæmdahluta þess. Fyrirtæki eins og þetta gæti vel haldið utan um slíka framkvæmd, haldið utan um eignirnar sem út úr slíku kæmu og verið lántakinn og borgað af þeim lánum, m.a. með beinum framlögum úr ríkissjóði eða af fjárveitingum samgönguáætlunar og þar fram eftir götunum. Það að til sé hlutafélag til að standa í framkvæmdum þarf ekkert að vera af hinu slæma, í raun alls ekki. En vöggugjöf hlutafélagsins er í fyrsta lagi sú að ef eitthvað bregður út af áætlunum, og eru nú áætlanirnar býsna gagnrýniverðar, þá skuli allir samningar til leiðréttingar á því gerðir með það í forgrunni, eins og segir í lok 3. kafla greinargerðar frumvarpsins, með leyfi forseta:

„Raskist forsendur uppbyggingarinnar þannig að ekki verður unnt að fjármagna verkefni samkvæmt framkvæmda- og fjárstreymisáætlun sem er í viðauka við sáttmálann er gert ráð fyrir að aðilar samkomulagsins taki upp viðræður eins og fljótt og kostur er um hvernig við skuli bregðist þannig að tryggt verði að framkvæmdir verði unnar í samræmi við framkvæmdaáætlun“ — sem er fylgiskjal með þessu máli.

Þannig að það er ekki um neitt að semja. Ef við höfum það í huga að ríkissjóður ber allan kostnaðinn af þessu sem einhverju máli nær þá eru þetta bara skilaboð um að fulltrúar ríkisins, ef eitthvað fer úrskeiðis, hvort sem það er 50% eða 100% framúrkeyrsla eða hvað það kann að vera, skuli bara setjast niður og kyngja því höggi sem verður fjárhagslega og finna leiðir til þess að ríkið borgi brúsann og allar framkvæmdir gangi fram innan þess ramma sem lagður er í frumvarpinu upp á 15 ár.

Hæstv. forseti. Þetta finnst mér ekki bera þess vott að fulltrúar ríkisstjórnarinnar hafi haft hagsmuni skattgreiðenda að leiðarljósi í þessu máli.