150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[21:25]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. ræðuna en mér finnst mikilvægt, sérstaklega í ljósi þess að hv. þm. Bergþór Ólason er nú formaður umhverfis- og samgöngunefndar þingsins, að fara yfir ákveðna hluti. Mér fannst hv. þingmaður tala með þeim hætti að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu væru með einhverjum hætti með ríkisvaldið í vasanum. Það er stór misskilningur og þegar kemur að umræðunni um samgöngur og almenningssamgöngur þá er svolítið mikilvægt að halda ýmsum hlutum til haga.

Mig langar að byrja á því að segja að á árinu 2019 borguðu sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu 3,8 milljarða í almenningssamgöngur. Ríkið, sem gerði samning sem alltaf hefur verið talað um sem einhvern milljarð á ári, borgaði 887 milljónir þannig að við skulum alveg halda því til haga að milljarðarnir, sem sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu var lofað í almenningssamgöngur, hafa aldrei skilað sér. Þetta hefur verið á bilinu 800–900 millj. kr. á ári hverju, þannig að ég held að það sé rétt hjá mér að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu séu einu sveitarfélögin sem séu að greiða með almenningssamgöngum. Ég veit að Akureyri rekur sitt eigið strætisvagnakerfi en annars hafa sveitarfélögin í landinu verið að skila almenningssamgöngunum vegna þess að ríkisframlagið hefur ekki dugað til að reka þær. Ég ætla bara að ítreka að inni í þessum tölum sem ég var að nefna áðan er ekki ferðaþjónusta fatlaðra sem stundum er inni í sambærilegum tölum hjá öðrum sveitarfélögum.

Svo er líka mikilvægt að halda því til haga að á tíu ára tímabili hefur fé til nýframkvæmda á höfuðborgarsvæðinu, þar sem eru 70% íbúa, verið um 16% af öllu nýframkvæmdafé. Og svo eitt í viðbót því hv. þingmaður kom inn á hlutfall þeirra sem nýta sér almenningssamgöngur. Það er alveg rétt. Við höfum ekki náð þeim markmiðum sem við höfum sett okkur í þeim efnum en (Forseti hringir.) það þýðir samt ekki að farþegum í Strætó hafi ekki fjölgað. Þeim hefur verið að fjölga á bilinu 5, 6, 7 og 8% milli ára. Umferðin hefur bara aukist svo mikið á höfuðborgarsvæðinu en ég vildi óska að við hefðum líka náð árangri (Forseti hringir.) þegar kemur að hlutfallinu.