150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[21:35]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Ég ætlaði nú að hefja ræðu mína öðruvísi, því að ég nenni ekki að tala hér mikla vitleysu, en ég get ekki látið hjá líða að breyta þeim áformum mínum vegna orða formanns hv. umhverfis- og samgöngunefndar, hv. þm. Bergþórs Ólasonar. Látum vera hve ógeðfelld pólitík það er að tala um að Vegagerðin sé tekin í gíslingu. Erum við í fimm ára bekk að tala saman, forseti? Þetta er samkomulag sem allir ganga að með opin augun en það hentar pólitík Miðflokksins að tala stórkarlalega. Þá skal það gert, skítt með afleiðingarnar. En að formaður hv. umhverfis- og samgöngunefndar sé ekki betur að sér um almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu en svo að hann þekki ekki nýjustu ferðavenjukönnun þykir mér miður og raunar tíðindum sæta. Nóg hafa hv. þingmaður og samflokksmenn hans geipað um að tilraunasamkomulagið hafi engum árangri skilað. Hv. þm. Bergþór Ólason ræddi það hér og hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson að það hefði engu skilað. Hvert var markmiðið með samkomulaginu? Jú, 2022 átti þetta að vera aukið um 8%. Ferðavenjukönnun samgönguráðuneytisins, sem gerð var í lok árs 2019, sýnir að þetta er komið upp í 6%. Er það ekki umtalsverður árangur, forseti? Er það ekki eitthvað til að gleðjast yfir en tala ekki alltaf um eins og eitthvert hundsbit að stór hluti fólks kjósi að fara ferða sinna með almenningssamgöngum? Hvernig sér Miðflokkurinn fyrir sér samgöngur í höfuðborginni þegar hann talar í aðra röndina svona um almenningssamgöngur? Hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir fór yfir fjölgunina 2011–2018, um 2,7 milljónir, hjá Strætó. Hvernig heldur hv. þm. Bergþór Ólason og fleiri í Miðflokknum að væri umhorfs í umferðinni ef allt þetta fólk hefði ekki kosið að fara í strætó?

Svo verð ég að segja, forseti, að það er undarleg nálgun að segja og fullyrða, ranglega reyndar, að vegna þess að ekki hafi öllum markmiðum um að efla núverandi almenningssamgöngukerfi á höfuðborgarsvæðinu, gula strætóa í umferðinni, í umferðarteppum, verið náð þá sé búið að reyna allt með almenningssamgöngur. Er hugmyndaflug Miðflokksins ekki meira en þetta? Hér hafa keyrt gulir strætóar. Þeir ganga ekki. Ergo: Almenningssamgöngur ganga ekki. Hér er verið að bregðast við því að ekki hefur gengið sem skyldi að auka hlutdeildina þó að skref hafi verið stigin í þá átt. Hér er verið að bregðast við því með því að bjóða upp á enn öflugri valkost þegar kemur að almenningssamgöngum. Enginn hv. þingmaður Miðflokksins sem hefur stigið hér í pontu, hvorki í dag né í neinni annarri umræðu sem tengist þessum málum, og hafa þær verið nokkrar, hefur nokkru sinni sagt hvernig eigi að leysa það að koma á áfangastað 70.000 nýjum íbúum, sem munu samkvæmt spám flytja hér á næstu u.þ.b. 20 árum. Það eru sex ár síðan þessar spár voru gerðar og þeir verða fleiri en 70.000 því að, eins og ég fór yfir í andsvari við hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson, hefur fjölgunin orðið meiri en spár.

Ég bíð spenntur eftir þessum tillögum, einhverju öðru en sömu gömlu, stórkarlalegu leiðinlegu pólitíkinni sem snýst um að setja þetta upp í frasa og nota orð eins og gíslingu og Berlín 1960. Guð minn góður, hvað þetta er leiðinleg pólitík. Komið með tillögur, ræðum þær. Hvað kosta öll mislægu gatnamótin sem Miðflokkinn dreymir um að reisa? Hvaða vanda leysa þau? Hvaða áhrif hafa þau á umferðarflæði? Hér er talað um ljósastýringu. Hún er í því samkomulagi sem er hér undir. Þetta er eins og einhver sirkus hér, hæstv. forseti. Nóg um þá vitleysu sem flogið hefur í þessari umræðu þótt ég óttist reyndar að þetta sé ekki það síðasta sem sagt verður um þá vitleysu hér í pontu miðað við mælendaskrá og andsvaralista.

Hvað er verið að gera? Hvað er það sem liggur hér undir sem fer í fínustu taugar sumra þeirra sem tjá sig um þetta mál og láta eins og hér sé verið að finna upp eitthvað sem er algjörlega fáheyrt í veröldinni og hvernig nokkrum detti í hug önnur eins vitleysa? Jú, það er verið að gera eins og gert hefur verið, ég ætla ekki að segja í öllum, í ótalmörgum borgum um allan heim, mörgum þeirra miklu stærri en Reykjavík, mörgum svipuðum að stærð. Og munum að við erum ekki að tala um Reykjavík, svo að ég leiðrétti sjálfan mig, forseti, heldur höfuðborgarsvæðið allt. Þetta hefur jafnvel verið gert í minni borgum. Og hver er hugmyndin? Jú, það er verið að bjóða upp á háhraðaalmenningssamgöngukerfi. Eðli málsins samkvæmt fer það eftir ákveðinni línu, borgarlínu, því að hv. formaður Miðflokksins virðist ekki enn hafa áttað sig á því hvað borgarlína er þrátt fyrir margra ára umræðu um það mál. Það er nokkuð hugdjörf yfirlýsing að viðurkenna að maður skilji ekki mál á svo löngum tíma, en látum það vera. Svo fer það út í hverfin, já, þar safna einhverjir annars konar farkostir fólki saman í aðalleiðir. Er þetta svo ofboðslega byltingarkennd hugmynd að fólk þurfi að tala um gíslingu og ég veit ekki hvað? Nei, þetta er það sem allar aðrar þjóðir eru að gera. Farið í hverja einustu — jæja, ég ætla ekki að fullyrða hér of mikið, en farið í stórborgir í Bandaríkjunum og bæi, farið til Noregs þar sem andstaðan við þriðja orkupakkann á heima og við höfum sótt mikið þangað. Af hverju eru allir að gera þetta? Hér er látið eins og þetta séu einhverjar stalínískar aðgerðir, það sé verið að taka fólk í gíslingu. Þvílík þrugl, forseti. Þetta eru metnaðarfull markmið um að mæta vaxandi samgönguþörf með fjölbreyttari hætti; einmitt með fjölbreyttari hætti. Þau sem vilja fara á einkabílnum sínum áfram gera það. Vonandi mun þeim fara fækkandi sem kjósa það því að bílar menga, ekki bara hvað varðar útblástur heldur tæta þeir upp malbik o.s.frv., en sumir þurfa bíla. Fínt. Þau sem helst dreymir um að vera bara á einkabíl og fara aldrei upp í almenningssamgöngur ættu að vera helstu stuðningsmenn þess að borgarlínan verði að veruleika því að þá verða færri bílar á götum og það fólk þarf þá bara að bíða aðeins skemur.

Að hverju erum við að stuðla? Sjálfbæru kolefnishlutlausu samfélagi. Er það svo skelfilegt? Er það ekki einnar messu virði þegar allar sveitarstjórnir hér í kringum okkur hafa náð saman með ríkisvaldinu um að þetta sé leið til þess? Er þá ekki ágætt að vinna að því og skoða það? Hér er talað um að sveitarfélögin séu annars vegar með ríkið í gíslingu og hins vegar að ríkið borgi allt. Sveitarfélögin koma með sín framlög á móti. Það er mikilvægt að þetta mál vinnist hratt og örugglega af því að staðan er þannig að beðið er eftir því að komast með framkvæmdir í gang. Sveitarfélögin eru með fjármagn sem bíður þess að þetta opinbera hlutafélag verði að veruleika, svo að það sé hægt að skapa störf. Er það svo slæmt?

Nei, forseti. Það er mikil hringavitleysa sem hefur átt sér stað í umræðum hér. Og ekki er þetta félag utan um borgarlínuna eitthvað sem engum í heiminum hefur dottið í hug að gera og sem sýnir hvað ráðherrar í þessari ríkisstjórn séu miklir amlóðar. Nei, í öllum borgarsamfélögum í Noregi hefur nákvæmlega það sama verið gert af því að þetta er skynsamlegt. Þar er enginn að koma með sögur um Berlín frá 1960 eða tala um ríkið sem gleypi það, eða ég veit ekki hvað og hvað. Nei, fólk lítur á málið og sér: Já, þetta er skynsamleg lending. Hættum einhverjum stóryrðaflaumi til að reyna að pota okkur sjálfum áfram í pólitík. Lítum út fyrir eigin nafla. Horfum á vandamálið sem þarf að leysa. Ef fólk telur þessa lausn ekki skynsamlega sýni það þá döngun að koma með lausn á því hvernig á að leysa fólksflutninga á annan hátt. Menn væru menn að meiri ef þeir gerðu það.

Forseti. Ég held að ég hafi þetta ekki mikið lengra. Það er svo augljóst fyrir mér að þetta er hin rétta leið til að vinna að þeim markmiðum sem við höfum sett okkur, til að vinna að heilbrigðara samfélagi hér á höfuðborgarsvæðinu. Er það eitthvað sem við erum á móti eða hvað?