150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[21:48]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Varðandi ferðavenjukönnunina var ég að horfa á tölur í Reykjavík og hef mögulega talað um höfuðborgarsvæðið allt. Í Reykjavík er þetta komið í 6% en á höfuðborgarsvæðinu öllu í 5%, svo ég leiðrétti sjálfan mig, hafi það bögglast rangt út úr mér áðan. Er ég tilbúinn að sjá hvort það dugi ekki? Til hvers? Er ég tilbúinn að sitja og vona að sjá að þetta verði á einhvern hátt — til hvers, herra forseti?

Öll sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu eru búin að ná saman. Hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir fór ágætlega yfir ferlið áðan, hvernig ólíkir flokkar alls staðar á höfuðborgarsvæðinu væru búnir að sitja með ríkisvaldinu og ná saman um lausn. Miðflokkurinn ætti kannski að prófa stundum að vera með í svona, ekki vera alltaf einn á móti. Hann finnur að það veitir ákveðna vellíðan, sérstaklega í því ástandi sem uppi er í dag, þar sem íslenska þjóðin hefur staðið saman í gegnum erfiðleika.

Af hverju ætti ekki að virða það samkomulag? Halda því áfram? Þegar allar rannsóknir alls staðar þar sem farið hefur verið í svipaðar aðgerðir — hér var nú talað áðan eins og borgarlínan í Stafangri væri klúður. Hún er ekki einu sinni komin til starfa. Hún er ekki meira klúður en það. Af hverju ætti ekki að fara þá leið sem hefur sýnt sig að dugir annars staðar, sem fólk hefur náð saman um? Af hverju í ósköpunum ekki, hv. þingmaður?