150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[21:53]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég held að hv. þingmaður ætti að ræða við formann flokksins. Ég veit ekki betur en að hann fagnaði því sérstaklega að loksins skildi hæstv. fjármálaráðherra þetta. En forseti, fyrirgefið, ég nenni ekki að taka þátt í svona útúrsnúningspólitík, að láta eins og einhver skilji ekki borgarlínuna. Fólkið sem viðurkennir það kinnroðalaust (Gripið fram í.) er að segja: Kæra þjóð. Ég hef ekki lesið gögnin sem búa að baki þessu máli. (Gripið fram í.) En það er þá ágætt að hv. þingmenn Miðflokksins komi hér í röðum og viðurkenni að þeir hafi ekki kynnt sér gögnin sem búa að baki þeim miklu útgjöldum sem hér eru. (Gripið fram í.) Það er fínt.

Hv. þingmaður sagði í svari við andsvari, ég man nú ekki hver röðin var hjá hv. þingmönnum en hann átti orðastað við hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur hér áðan, að auðvitað hefði ekki orðið aukning í almenningssamgöngum af því að umferðin hefði aukist svo mikið annars staðar. Nú talar hann um að verið sé að þrengja svo mikið að einkabílnum. Hvernig varð aukning á notkun einkabíls svona mikil í Reykjavíkurborg ef hv. þingmenn Miðflokksins hafa rétt fyrir sér um að hér hafi yfirvöld handan við götuna legið á því lúalagi að reyna að þrengja að einkabílnum alls staðar?

Er það þess virði, spyr hv. þingmaður, að fara í það? Já. Er það þess virði að búa til kolefnishlutlaust, mannvænlegt borgarsamfélag? Já. Er það þess virði að vinna og stíga stór skref í átt að því að minnka útblástur frá umferð, í átt að orkuskiptum í samgöngum, í átt að því að við náum alþjóðlegum skuldbindingum okkar? Já. Er það þess virði að íbúum höfuðborgarsvæðisins líði betur? Já.