150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[22:04]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var eiginlega alveg kostulegt. Hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé telur sig mest og best lesinn í þessum fræðum öllum og kann skýrslu um ferðavenjur utan bókar, að því er virðist, fyrir utan að hann klikkar um nokkra tugi prósenta þegar hlutfallsaukningin er tilgreind. (Gripið fram í.) Munurinn á því að fara úr 4% í 5% og 4% í 6%, eins og hv. þingmaður sagði, er 25 samanborið við 50% aukningu. En af því að hv. þingmaður kom inn á að það væri eðlilegt að þetta markmið næðist ekki af því það væri svo mikil aukning í einkabílanotkun, þá segir í þessari sömu frétt á heimasíðu Stjórnarráðsins: „Ef litið er til höfuðborgarsvæðisins sérstaklega sést að notkun hlutfalls einkabíls minnkar um 2 prósentustig …“ (Gripið fram í.) Þá hlusta ég betur á mig en þú hlustar á mig.

Það stenst enga skoðun þar sem hv. þingmaður segir hérna. Ég frábið mér það orðaval og þá nálgun sem hann tekur, að tala svolítið ofan úr söðli háa hestsins og telja alla heldur illa lesna og illa að sér og hafi annarleg markmið í þessum efnum, þegar fyrst og fremst er verið að reyna að gæta hagsmuna skattgreiðenda, að tugum milljarða verði ekki hent í verkefni án þess að menn hafi sannfæringu fyrir því að það skili meiru en núverandi nálgun gerir. Ef raunin er sú að hlutfall farinna ferða með Strætó á síðasta ári jókst úr 4% í 5% og markmiðið er 8% þá legg ég til að við gefum þessu bara þrjú ár. Innleiðum ljósastýringarnar og gerum okkar besta í þeim efnum og hleypum ákveðnum stofnbrautaframkvæmdum af stað. En við skulum setja borgarlínuna, það óljósa hugtak, í salt í þrjú ár og sjáum hvort bætist við 1 prósentustig á ári.