150. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2020.

frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

726. mál
[18:39]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir andsvarið. Þingmaðurinn nefndi það að hún teldi að heimilin hefðu að einhverju leyti verið skilin eftir. Ég er bara ekki sammála þingmanninum í því. Það er a.m.k. ekki mitt mat á þeirri stöðu sem er. En hún ræddi sérstaklega atvinnuleysisbæturnar og það er rétt hjá þingmanninum að þær voru hækkaðar í fyrra þannig að þær færðust nær lágmarkslaunum. Síðan hafa lágmarkslaun hækkað í samningum á vinnumarkaði. Ég tel að það sé mikilvægt, sem hluti af þeirri stöðugu skoðun sem er í gangi á ástandinu, að meta það sérstaklega hvort gera þurfi breytingar á atvinnuleysisbótunum. Ég er ekki viss um að það sé tímabært alveg strax. Ég veit eins og hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni áðan að á vissum svæðum á landinu, sérstaklega í kjördæmi hv. þingmanns, hefur atvinnuleysi verið mjög hátt. Það er rétt hjá þingmanninum að líklega eru margir, eða alla vega fleiri, á því svæði smátt og smátt að færast yfir á strípaðar atvinnuleysisbætur. Það er ekki góð staða og þingmaðurinn þarf ekki að halda að mér finnist það vera ásættanleg staða til lengdar.

Ég held að við ættum að skoða það á næstu vikum og mánuðum hvort og þá hvernig við bregðumst við þeim vanda sérstaklega, en ég sé það ekki fyrir mér að það verði hluti af þessum aðgerðapakka.