150. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2020.

frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

726. mál
[18:47]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni andsvarið. Hann ræddi um nýsköpun og stuðning við nýsköpun og það er rétt, eins og þingmaðurinn kom inn á, að bætt er töluvert í miðað við upprunalega frumvarpið. Það er til að mynda farið með hlutfallið af kostnaði við rannsóknir eða þróun úr 25% upp í 35%. Það er umtalsverður munur og mun skipta mjög mörg fyrirtæki miklu máli. Þingmaðurinn spyr hvort það hefði átt að fara enn þá lengra, upp í 45% eins og hv. þm. Smári McCarthy nefnir í fyrirvara sínum við nefndarálitið. Þetta var rætt í nefndinni. Lendingin er hins vegar þessi eins og hún kemur þarna fyrir eftir ítarlegar umræður. Það má segja að fyrst og fremst séum við að ná nokkurs konar millilendingu. Æskilegt hefði verið að geta gert enn meira. En ég vil samt minna hv. þingmann á að við erum að fara til að mynda með þakið úr 600 milljónum alla leið upp í 1.100 milljónir í upphafi þess stuðnings sem fyrirtæki geta sóst eftir. Við tökum í raun í burtu millistrikið í stuðningnum og þannig hækkum við mögulegan stuðning hjá einu fyrirtæki alla leið þarna upp. Það er umtalsverð breyting og fyrir mörg fyrirtæki mun þetta þýða að mjög mörg störf munu annars vegar skapast en ekki síður munum við bjarga mörgum störfum frá því að tapast.