150. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2020.

frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

726. mál
[18:52]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mikið af þeim tillögum sem eru til umfjöllunar í þessu frumvarpi byggist á ákveðnum hraustleika sem er í íslensku efnahagslífi. Þetta er stuðningur við aðila sem eru aflögufærir um fjármuni til að leggja í fjárfestingar eða nýsköpun eða hvað það er og þá kemur ríkið á móti og ívilnar fólki sem getur stigið þau skref til að styrkja sín fyrirtæki eða byggja upp hjá sínu sveitarfélagi eða koma sem fjárfestir inn í lítil sprotafyrirtæki. Það fyllir mann ákveðinni bjartsýni, það sýnir að þrátt fyrir að illa ári akkúrat núna þá eru enn þá djúpir vasar hér og þar sem geta fjármagnað viðspyrnuna.

Fyrir nokkrum vikum nefndi þingmaðurinn hugmynd sem hann hefur lengi gengið með um skuldabréfaútgáfu ríkisins sem væri hægt að nýta til uppbyggingar á næstu árum og það væri þá hægt að gera almenningi, þeim hluta hans sem er aflögufær, kleift að styðja við þá uppbyggingu umfram það sem við gerum með venjulegum skattgreiðslum. Þá væri hægt að tengja jafnvel þau skuldabréf við græna uppbyggingu sem er augljóslega það sem þarf í framhaldinu. Ég nefni þetta vegna þess að hérna er opnað á rýmri heimild lífeyrissjóða til að fjárfesta í litlum nýsköpunarfyrirtækjum og ég sé ekki betur en að það sé bara skilyrt við stærð fyrirtækjanna en ekki þá starfsemi sem þar fer fram, hvort það hafi komið til umræðu að binda þetta við (Forseti hringir.) græna nýsköpun. Þingmaðurinn getur kannski frætt mig um það hvaða upphæðir (Forseti hringir.) við gætum verið að ræða ef lífeyrissjóðirnir (Forseti hringir.) með sína firnadjúpu vasa kæmu í þetta af fullum krafti. (Forseti hringir.)