150. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2020.

frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

726. mál
[19:29]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er leitt að vera alltaf talsmaður þess að auka á áhyggjur fólks en í samræmi við það sem hv. þingmaður var að tala um hef ég einmitt ákveðnar áhyggjur. Við erum að fresta skattheimtu og fresta ýmsum hlutum og þess háttar núna og þess vegna gerir ríkið, ríkissjóður, ráð fyrir því að fá þessar tekjur þótt seinna verði. Með öðrum orðum er ákveðin bjartsýni. Í aðgerðunum er stólað í raun á það að ástandið lagist og innan fyrirsjáanlegs tímaramma, mánaða kannski, árs eða eitthvað því um líkt. Það er erfitt nefna hversu lengi bjartsýnin gæti varað. En ég hef áhyggjur af því að ef þær forsendur bresta þá fyrst verði ríkissjóður í mjög alvarlegum vanda. Þess vegna hef ég áhyggjur sem koma væntanlega ekki gagnvart skattalækkunum, ekki hætta á of mikilli bjartsýni þegar skattalækkanir eru. Þótt ég átti mig á því að auðvitað þýða þær líka tekjutap og ekkert minna þá búa þær kannski ekki til gildrur fyrir framtíðina upp á væntingarnar að gera.