150. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2020.

frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

726. mál
[19:57]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Gott að heyra að þingmaður hyggst skoða frumvarp okkar Pírata með opnum huga. Við teljum það vera mikilvægt innlegg, mjög mikilvæga varðstöðu um friðhelgi einkalífs fólks og friðhelgi heimilisins, að fólk missi ekki heimili sín út af faraldrinum, eins og hv. þingmaður kom svo vel inn á.

Mig langar í síðara andsvari að beina sjónum mínum að stefnu og stefnuleysi ríkisstjórnarinnar þegar kemur að þessu aðgerðum öllum og því sem okkur hefur fundist vera svolítið mótsagnakennt, þ.e. að koma annars vegar með hlutabótaleiðina til að tryggja það sem ríkisstjórnin kallar ráðningarsamband á milli fólks og fyrirtækja, en síðan stendur til, eins og hv. þm. Birgir Þórarinsson kom inn á í ræðu sinni, að ríkisstyrkja uppsagnir. Ég velti fyrir mér hvaða skilaboð ríkisstjórnin sé að senda með um margt mjög góðum aðgerðum sem við ræðum núna í þessari umferð, en á sama tíma koma þessi skilaboð: Við ætlum að hjálpa ykkur að segja upp fólki.

Í öllu hinu er stefnt að því að halda uppi atvinnustigi, halda ráðningarsambandi, en í þessu erum við að búa til fjárhagslegan hvata fyrir fyrirtæki til þess að segja upp fólki. Ég velti því fyrir mér hvað það segi um heildarsýn ríkisstjórnarinnar á aðgerðir sínar og hvort hún hugsi um hvað ein hreyfing á taflborðinu geri gagnvart öllum hinum leikmönnunum. Finnst hv. þingmanni nógu góðar greiningar og djúp hugsun liggja að baki eða nógu skýr stefna um hvert við erum að fara?