150. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2020.

frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

726. mál
[20:31]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni efnisríka og andríka ræðu. Það er stundum sagt að hitt og þetta sé nú engin geimvísindi og er þá átt við að um sé að ræða frekar einföld sannindi. En þessi ræða hafði einmitt að geyma geimvísindi og ég tel það vel af sér vikið hjá hv. þingmanni, auk þess sem þarna var tæpt á fjölmörgum mjög áhugaverðum umhugsunarefnum sem varða samfélagið í heild og þá sérstaklega borgaralaun.

Mig langar að eiga orðastað við hv. þingmann um það frumvarp sem hér er til umræðu og þá breytingartillögu sem fulltrúi Samfylkingarinnar í efnahags- og viðskiptanefnd, hv. þm. Oddný Harðardóttir, hefur lagt fram um ný bráðabirgðaákvæði um atvinnuleysistryggingar þar sem gert er ráð fyrir að þær séu hækkaðar. Þær eigi að nema 516.000 kr. á tímabilinu frá 1. júní til 31. desember, auk þess sem talað er um að hækka grunnatvinnuleysisbætur vegna framfærsluskyldu með hverju barni upp í 6%. Mig langaði til að heyra hvort hv. þingmaður muni ekki styðja þessa breytingartillögu og hvort við megum ekki vænta þess að hann leggist á árarnar með okkur, og hans fólk, af fullum þunga atvinnulausu fólki til hagsbóta.