150. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2020.

utanríkisþjónusta Íslands.

716. mál
[21:58]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Það er áhugavert að sjá þegar þingmenn og ráðherrar reyna að mætast hér, þá stíga þeir ákveðinn dans til að halda 2 metra reglunni. (Gripið fram í.) Hæstv. ráðherra fórst þetta mjög vel úr hendi.

Það frumvarp sem við ræðum er svo sem ekki stórt í sniðum, ekki margar greinar, en er fyrir margra hluta sakir mjög áhugavert. Þarna er verið að leggja til ákveðnar breytingar sem hægt er að hafa alls konar skoðanir á, að sjálfsögðu. Ég sé strax að það er ákveðinn tónn sleginn í frumvarpinu sem ég er að sumu leyti sammála, sumu leyti ósammála. Ég er sammála því að það er mjög gott að skýra og uppfæra lög og reglur um utanríkisþjónustuna, færa lögin fram til nútímans, jafnvel velta fyrir sér hvort hlutverkið sé nógu skýrt o.s.frv. Hins vegar hef ég mikinn fyrirvara á því og þarf að láta selja mér aðeins betur að þær breytingar sem koma t.d. fyrir í 4. gr. séu nauðsynlegar.

Ég geri mér grein fyrir því, eftir að hafa komið aðeins nálægt þessu, að það er margt sem er hægt að gagnrýna með réttu í utanríkisþjónustunni og annað sem er byggt á misskilningi, sem er ósköp skiljanlegt því um langan tíma hefur þessi þjónusta, sem er okkur svo mikilvæg, verið býsna lokuð. Það eru ekki allir sem gera sér grein fyrir þeim verkefnum sem þar eru í gangi. Í seinni tíð höfum við reynt að leggja áherslu á það að opna og skýra betur hvaða verkefni eru í gangi og eiga sér stað. Nýverið komu fram upplýsingar frá ráðuneytinu að það hefðu verið nokkur hundruð fyrirspurnir í dag út af þessum Covid-málum öllum sem borgaraþjónustan eða ráðuneytið fékk og leysa þurfti úr. Allt þetta ætti að gera það að verkum að landsmenn átti sig betur á því hversu mikils virði þessi þjónusta er.

Ég hef viðurkennt það að áður en maður fór að pæla mikið í þessu þá hafði maður svolítið ákveðnar skoðanir á utanríkisþjónustunni, skildi hana kannski ekki alveg. Mér finnst í dag að við séum að setja allt of litla peninga í utanríkismál. Mér finnst utanríkisþjónustan okkar þurfa meiri fjármuni, við þurfum að styrkja hana. Við þurfum að styrkja viðveru okkar úti í hinum stóra heimi einmitt vegna þess að við erum svo lítil, einmitt vegna þess að við erum örríki, smáríki sem þarf að geta tekið þátt á hinu alþjóðlega sviði til þess að gæta hagsmuna okkar fyrst og fremst. Ég hef aðeins áhyggjur af því að þetta frumvarp dragi úr þeim möguleikum. Mér finnst eins og þetta búi til pínu losarabrag á utanríkisþjónustunni. Ég hef fyrirvara á þessu af því að það á auðvitað eftir að fara yfir þetta í nefndinni en við að lesa í gegnum þetta kemur sú tilfinning aðeins upp.

Ég er sammála því sem hefur komið fram að utanríkisþjónustan ætti að vera blönduð. Það er ákveðinn kjarni sem þarf að vera skipaður hinum dyggu og góðu embættismönnum sem fá frama innan utanríkisþjónustunnar, frábært fólk, örfáir í rauninni, sem gæta hagsmuna okkar úti um allan heim, í bland við annars konar aðila sem geta verið í viðskiptalífinu, svo dæmi sé tekið, enda höfum við góða reynslu af því. Þannig fáum við hóp sem er samansettur af fólki með ákveðna menntun, hæfileika, tengsl og þess háttar. Ég ætla ekki að fara dýpra í það.

Mér finnst rangt að horfa á einhverja tölu í því sambandi því að í mínum huga skiptir engu máli hvort einhver sendiherrahópur er 30 manns, 35, 40 eða 45 eða hvað það er. Ef það eru verkefni fyrir þann hóp þá skiptir ekki máli hversu stór hann er, skiptir engu máli. Ef við erum með mannskap þar sem einhver titill kemur í veg fyrir — sem ég hef reyndar enga reynslu af, ég hef ekki rekið mig á það — að vinna eitthvert verkefni þá þarf vitanlega að leysa það með öðrum hætti því að auðvitað á fólk að vinna það sem því er sagt að vinna. Ég hef enga trú á að sú staða hafi komið upp, en ég segi þetta bara til að undirstrika það að mér finnst engu máli skipta hversu há þessi tala á að vera. Það er enginn rosalegur aukakostnaður af því að hafa titilinn, kostnaðurinn verður fyrst og fremst til þegar menn fara utan og við bætast alls konar hlutir sem því tilheyra. En ég ætla ekkert að útiloka að það náist að útskýra málið í utanríkismálanefnd þannig að þessi skoðun mín breytist eða þá að ég hafi rangt fyrir mér. Ég hef svo sem oft rangt fyrir mér, ég er alveg til í að viðurkenna það.

Sveigjanleikinn sem er núna í kerfinu er ákveðinn kostur, að mér finnst. Það er kostur að geta fært til fólk, það er kostur að geta haft fólk í störfum og jafnvel fært það, segjum að einhver sé búinn að vera á einum stað í þrjú, fjögur ár og svo er hægt að færa hann á annan stað og tryggja sér þá góðan starfsmann í fimm ár í viðbót. Eins og ég skil þetta mál kemur það í veg fyrir slíkt. Mér finnst líka galli að ef þú ert með góðan einstakling sem sótt hefur um starf í þessu tilfelli, svo dæmi sé tekið eða verið skipaður á öðrum forsendum og reynist frábær í starfi, þá sé ekki hægt að framlengja starfið án þess að viðkomandi sæki um á ný. Það eru svona hlutir sem ég á eftir að átta mig betur á. En ég veit að ráðherra gengur gott eitt til og ég er alls ekki að gera lítið úr þessu máli. Það er full ástæða til að skoða utanríkisþjónustuna eins og allt annað sem við erum með í kerfi okkar reglulega. Ráðherra hefur verið duglegur að gera það. Ég ætla ekki að mæla gegn því. En við kunnum að hafa ólíka sýn og skoðanir á hvað er best í því öllu saman.

Svo verð ég að koma inn á eitt atriði. Ég tek sénsinn og vona að ég móðgi engan þegar ég segi að mér finnst greinargerðin og rökstuðningurinn um meginefni frumvarpsins ekki alveg nógu sterkt. Hér kemur fram, þar sem verið er að reyna að útskýra það að sendiherrum hafi fjölgað mikið á síðustu árum, með leyfi forseta:

„Þó verður ekki fram hjá því litið að þessi framkvæmd, og sú tilhögun að auglýsa ekki sendiherraembætti laus til umsóknar í skjóli undanþágu gildandi laga […] hefur leitt til þess að sendiherrum hefur fjölgað nokkuð á síðustu áratugum.“

Ég fæ þetta ekki til að ganga upp. Sendiherrum hefur náttúrlega fjölgað vegna þess að ráðherrarnir sem bera ábyrgð á því að hafa verið að skipa sendiherra og fjölga sendiherrum. Það er ekki nein ástæða fyrir því nema sú að ráðherrann, sá sem hér stendur hefur kannski einhverja reynslu af því, hefur talið þörf á því. Það kann að vera að það þurfi að girða fyrir slíkt og það sé eitt meginefni þessa frumvarps en við förum yfir það í utanríkismálanefnd.

Ég held það sé mjög mikilvægt líka að framgangur starfsfólks í ráðuneytinu sé tryggður. Það er gríðarlega margt fólk sem er í utanríkisþjónustunni líkt og víða í stjórnkerfinu sem getur reynst okkur jafnvel betri starfskraftur annars staðar en það er í dag en þarf að geta átt ákveðinn framgang innan kerfisins. Það er staðreynd, og ég ítreka að það er staðreynd, að í sumum tilfellum skiptir máli hvers konar einstaklingur það er sem er á ákveðnum stað, þ.e. hvaða titil hann ber og slíkt, það skiptir máli í ákveðnum tilvikum, þannig að við þurfum líka að horfa á heildarmyndina. Við eigum að breyta og bæta þegar það þarf og þegar það er nauðsynlegt en stíga varlega til jarðar. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að við þurfum góða og sterka utanríkisþjónustu. Við þurfum blandaðan hóp, við þurfum sveigjanleika. Við verðum að hafa festu, íhaldssemi í utanríkisþjónustunni, það er mikilvægt, og að mínu viti skiptir þessi fjöldi ekki öllu máli. Að lokum hlakka ég bara til að glíma við þetta mál í nefndinni.