150. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2020.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

717. mál
[22:50]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Já, það er gott að heyra að hæstv. dómsmálaráðherra er með þessar ágætu áætlanir sínar um að taka sérstaklega fyrir málefni barna og að þverpólitísk nefnd, sem varla hefur verið starfhæf allt kjörtímabilið, eigi að einbeita sér að málefnum barna í ríkara mæli núna, enda er tíminn að líða frá okkur. Við erum búin með tvo þriðju hluta kjörtímabilsins og löngu kominn tími til að taka þessi mál fastari tökum með skýrari sýn.

Það er kannski ágætt að nota tækifærið hér og minna á það að ég er með tvö þingmál í allsherjar- og menntamálanefnd sem snúast einmitt um réttindi barna á flótta, annars vegar mál um aldursgreiningar, sem byggist á tilmælum frá Evrópuráðinu um að fella niður aldursgreiningar á tönnum. Það mál hefur ekki fengið framgöngu í hv. allsherjar- og menntamálanefnd og ég hef ekki séð neina tilburði til þess að breyta þeim lögum hjá hæstv. ráðherra. En ég hvet hana að sjálfsögðu til dáða í þeim efnum.

Síðan væri æskilegt að heyra það líka hjá hæstv. ráðherra hvernig á að tryggja hér aðstöðu fyrir fylgdarlaus börn á flótta í þeim móttökumiðstöðvum sem við höfum yfir að ráða því að þar er ekki gert ráð fyrir, og hefur ekki verið gert ráð fyrir hingað til alla vega, sérstökum úrræðum sem snúa að börnum sérstaklega, með því t.d. að skilja að á milli fullorðinna og barna og við höfum margoft séð tilfelli koma upp sem hafa akkúrat snúist um það að fullorðnir og börn hafa ekki verið aðskilin. Þessu hefur löngu mátt breyta. En ég fagna því að heyra hæstv. ráðherra leggja áherslu á málefni barna og hún ætli sér að láta starf þessarar þverpólitísku útlendinganefndar snúast um það, enda kominn tími til og ég hvet hana til dáða í þeim efnum.