150. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2020.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

717. mál
[23:02]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Frú forseti. Núgildandi lög um útlendinga voru framfaraskref þegar þau tóku gildi árið 2016, kannski ekki jafn gríðarstórt stökk fram á við í réttindum útlendinga og oft er af látið en voru þó afgerandi skref í rétta átt, m.a. í átt til mannúðlegrar og sanngjarnrar meðferðar hælisleitenda. Umræðan í kringum þetta mál hefur hverfst dálítið mikið um 11. gr. frumvarpsins og skiljanlega, þar var mögulega eitt stærsta framfaraskrefið á sínum tíma. Í eldri útlendingalögum var það nefnilega svo að sérstakar ástæður, eins og það heitir í lögunum, það að vera með sérstök tengsl við landið, kljást við veikindi eða hvaðeina sem það nú er — fólk sem var með vernd í öðru landi féll ekki undir þetta sem ástæðu til að fá efnismeðferð. Það var vitandi vits sem þverpólitísk þingmannanefnd um endurskoðun útlendingalaga bætti þessum hópi inn. Það var vitandi vits sem Ólöf Nordal, sem þá var innanríkisráðherra, lagði frumvarpið svoleiðis fyrir þingið og það var klárað þannig hér. Það var gert vegna þess að þetta er hópur sem þarf að vernda. Þetta er fólk sem hefur þurft að flýja stríðsástand eða aðrar hörmungar í heimalandinu. Það hefur fengið vernd í öðru landi en kemst síðan að því að sú vernd er einskis virði. Þetta er fólk sem verður fyrir ofbeldi á götum Grikklands. Þetta er hópur þar sem börn njóta ekki menntunar, þar sem heilbrigðisþjónusta er ekki veitt. Þetta er fólk sem er að flýja kerfið sem það hélt að myndi vernda sig. Þegar við sjáum þessar sögur í sjónvarpinu, þegar við sjáum framan í börnin sem fá ekki lækningu meina sinna ef við vísum þeim úr landi, þá hugsum við öll: Auðvitað viljum við geta tekið þetta fólk inn, auðvitað, af því að við erum manneskjur. Þetta er ekkert flóknara. Þetta vissi þverpólitíska þingmannanefndin sem samdi lögin sem við tölum um hér í dag.

Hvers vegna ræðum við 11. gr. í frumvarpi hæstv. ráðherra svona mikið? Vegna þess að hún vill spóla þessu aftur. Hún vill taka þennan sérstaklega viðkvæma hóp út fyrir skjólið sem þingið samþykkti, bara fyrir fjórum til fimm árum, að veita þessum hópi. Hún vill taka þetta fólk út fyrir þannig að ekki verði heimild í lögum til að veita því vernd, það verði ekki heimild fyrir Útlendingastofnun eða kærunefnd útlendingamála að taka efnislega afstöðu til þessara mála nema þau falli á tímafresti, það verði ekki heimild fyrir íslensk stjórnvöld að hlusta á þetta fólk. Þetta gríðarstóra skref aftur á bak í mannréttindum flóttafólks er ekki bautasteinn sem ég held að þetta þing vilji skilja eftir sig.

Að 11. gr. sjálfri: Talað hefur verið um að einhver sjálfvirknivæðing eigi sér stað ef hlutar þessa frumvarps nái fram að ganga. Ég er ekki viss um að það nái alveg utan um það sem mun gerast heldur mun allt svigrúm fyrir mannúð í ákveðnum tegundum mála verða þurrkað út. Þetta verður svo sjálfvirkt að ekki má einu sinni líta á málin, það á bara að henda þeim beina leið út í buskann. Oft eru þetta mál þar sem börn eru í spilinu. Þetta eru oft fjölskyldur sem flýja verndarkerfi sem eru brotin í öðrum löndum, oft vegna veikinda barna sinna; koma til okkar og leita til lands sem þær vita að er með gott menntakerfi og gott heilbrigðiskerfi til að börnin þeirra eigi séns í lífinu.

Árið 2019 flokkuðust 42 börn undir verndarmál og var vísað úr landi. Tekin voru viðtöl við 18 þeirra. Hvernig mat íslensk stjórnsýsla hagsmuni barnanna, ef hún talaði ekki einu sinni við þau? Þetta er hópur sem stendur höllum fæti í kerfinu í dag en frumvarpið ætlar að kippa gólfinu undan honum í ofanálag.

Greinargerðin með frumvarpinu er á köflum með miklum ólíkindum, samráðskaflinn kannski sérstaklega. Mig langar að lesa útdrátt ráðuneytisins úr umsögn Rauða kross Íslands, samtaka sem íslensk stjórnvöld hrósa gjarnan þegar kemur að viðbúnaði vegna náttúruhamfara, setja upp fjöldahjálparmiðstöðvar og hjálpa okkur að halda sjó sem samfélag. En þegar kemur að því hlutverki sem stjórnvöld hafa falið Rauða krossinum, þ.e. að vera talsmaður hælisleitenda, eru samtökin gjarnan gerð tortryggileg. Í samráðskaflanum er sagt, með leyfi forseta:

„Auk þess töldu samtökin markmið fyrirhugaðra breytinga á 1. málsl. 2. mgr. 36. gr. laganna óljós.“

Hvað sögðu samtökin? Hvað sagði Rauði krossinn nákvæmlega? Hvað var það sem var svona óljóst?

Í umsögninni segir:

„Þá er Rauða krossinum með öllu óljóst hvaða ástæður liggja að baki breytingartillögunni þar sem að frumvarpshöfundar láta liggja á milli hluta að fjalla um rökin á bak við jafn umfangsmikla breytingartillögu sem felur í sér gríðarlega skerðingu á réttarvernd fólks á flótta.“

Það sem Rauða krossinum finnst óljóst er hvað vaki fyrir ráðuneytinu og ráðherranum að leggja þessa dellu til. Það er ekkert óljóst við greinina sem leysa þarf, eins og ráðuneytið segir, með því að gera greinargerð skýrari. Nei, það stendur einmitt í sömu setningu, með leyfi forseta:

„Rauði krossinn leggst alfarið gegn þessari breytingartillögu.“

Þetta er ekki óljóst. Af hverju má ekki hlusta á Rauða krossinn? Það á kannski ekki að hlusta á hann frekar en á börnin sem er vísað úr landi.

Forseti. Þó að við leyfum umræðunni að hverfast um þessa einu 11. gr. skulum við ekki horfa fram hjá því að frumvarpið er allt meingallað og stórhættulegt. Gleymum því ekki. Það er vandinn við regluverkið sem sett hefur verið upp og síðan þrengt ár frá ári. Við erum með bastarða í lagasafninu eins og „bersýnilega tilhæfulausar umsóknir“ og „örugg upprunaríki“, hugtök sem eru ekki skilgreind eftir skýrum viðmiðum eins og tíðkast í mörgum löndum, og eins og kemur einmitt fram í umsögn annars aðila sem á nú að vera hægt að taka mark á, Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Íslensk stjórnvöld eru gagnrýnd fyrir að sinna þessu ekki nógu vel. Það er afskrifað í greinargerð frumvarpsins. En kannski er það versta við frumvarpið ekki einhver ein lagagrein heldur sá rauði þráður sem vefur sig í gegnum greinargerðina, að Dyflinnarreglugerðinni skuli beitt þegar kostur er eða að frumvarpinu sé ætlað að styrkja stoð Dyflinnarreglugerðarinnar og árétta að henni skuli beitt þegar þess er nokkur kostur. Höfundum þessa frumvarps er svo mikið kappsmál að festa þetta í lögskýringargögnum að það kemur fjórum sinnum fyrir í greinargerðinni og þegar við erum að tala um að beita Dyflinnarreglugerðinni erum við ekki að meina í íslenskri praxís að senda flugvél til Grikklands og sækja fylgdarlaus börn eins og finnsk stjórnvöld gerðu, eins og þýsk stjórnvöld gerðu, eins og ýmis ríki gerðu í kjölfarið á Covid. Nei, við erum að tala um að íslensk stjórnvöld vilji festa í sessi að þeirri aðferð skuli beitt að endursenda, að brottvísa, að reka burt eins marga hælisleitendur og við frekast getum. Fjórum sinnum þarf að negla þetta inn í greinargerð til að Alþingi sé örugglega samsekt með þessari illu meðferð ef þetta frumvarp verður að lögum.

En Dyflinnarreglugerðin er ekki upphaf og endir alls. Ísland er ekkert eitt á báti í þessu. Það sem þetta snýst um er vandamál sem heimurinn allur stendur frammi fyrir. Fólki á flótta hefur fjölgað ár frá ári og það mun halda áfram að gera um fyrirsjáanlega framtíð. Ísland getur ekki reist virkisveggi í kringum landið og haldið áfram að henda fólki úr landi eins skilvirkt og hægt er, en samt sagt að það taki þátt í alþjóðastarfi með samstöðu að leiðarljósi. Í þessum efnum hefur stefna Íslands kannski sjaldan birst jafn skýrt og fyrir þremur árum þegar þáverandi dómsmálaráðherra, Sigríður Á. Andersen, tók þátt í fundi evrópskra dómsmálaráðherra. Þar var til umræðu, eins og svo oft áður, ákall ríkja sunnarlega í álfunni um að við sem búum norðar öxlum byrðarnar með þeim og hjálpum þeim að sinna flóttafólkinu sem tekur land syðst í álfunni og yfirlestar allt velferðarkerfi Grikklands og Ítalíu og annarra ríkja norðan Miðjarðarhafs. Viðbrögð Íslands á þeim fundi voru, með leyfi forseta:

„Ráðherra greindi þar frá áherslum nýrrar ríkisstjórnar Íslands í hælismálum ásamt efasemdum Íslands gagnvart fyrirhuguðum breytingum á Dyflinnarreglugerðinni, þ.e. aukinni samábyrgð vegna afgreiðslu hælisumsókna og áframflutningi hælisleitenda frá þeim ríkjum Evrópu sem taka á móti flestum hælisumsóknum til ríkja sem ekki sæta sambærilegri ásókn hælisleitenda.“

Kaldrifjaðri stefna hefur varla birst í þessum efnum. Þetta var stefna ríkisstjórnar Íslands. Sem betur fer er búið að skipta um ráðherra og það fyllti mann smávon um að vegna Covid-19 hefði verið ákveðið að hætta endursendingu fólks með vernd í öðrum löndum. Þessi ákvörðun núverandi hæstv. ráðherra hefur áhrif á 225 einstaklinga sem fá efnismeðferð á Íslandi sem fá það uppfyllt, sem á náttúrlega ekki að vera einhver lúxus, að einhver hlusti á þá og sjái hvað bjáti á. Er þetta varanleg breyting? Er Ísland að fara að sækja fylgdarlaus börn til Grikklands eins og ríki sem við viljum gjarnan bera okkur saman við? Það myndi ég ekki halda miðað við frumvarpið sem við erum með í höndunum. Endursendingum var bara hætt vegna þess að flugferðum var hætt og ríkið hætti að taka á móti börnum og flóttamönnum.

Frumvarpið sem við höfum hér til umfjöllunar sýnir það svart á hvítu að samstaða með flóttafólki er ekki á dagskrá, að samstaða með ríkjum sem fá flest flóttafólk til sín og bera ábyrgð á því að veita því mannúðlega meðferð er ekki í boði. Það er ekki samstaða í þessu frumvarpi heldur mannvonska.