150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[16:29]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti meiri hluta hv. fjárlaganefndar um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2020. Það er vissulega sérstakt að standa hér í þeim sporum að mæla fyrir fjárauka á þessum tíma árs og í annað sinn á skömmum tíma. En við lifum jú sérstaka tíma og fordæmalausar aðstæður. Líkt og í fjáraukalögunum sem samþykkt voru í lok mars er í frumvarpinu fyrst og fremst verið að óska eftir fjárheimildum vegna afmarkaðra og tímabundinna ráðstafana til að bregðast við áhrifum faraldursins á íslenskt efnahagslíf og samfélag.

Ég vil þakka öllum þeim fjölmörgu umsagnaraðilum sem brugðust skjótt við erindi nefndarinnar um að skila umsögnum á skömmum tíma og koma á fund nefndarinnar til að ræða þær tillögur sem er að finna í frumvarpinu. Þeir eru taldir hér, allir þessir fjölmörgu aðilar, á fremstu síðu í nefndaráliti meiri hlutans og vísa ég til þeirrar upptalningar. Þetta er kallað álit meiri hluta vegna þess að jafnframt er lagt fram nefndarálit minni hluta. Þó hygg ég að samstaða hafi verið í nefndinni um þær tillögur sem hér koma fram en auðvitað eru fjölmargar aðrar hugmyndir, sem jafnframt eru nefndar í þessu áliti, með fyrirvara. Aðrir munu þá gera grein fyrir þeim í ræðum sínum.

Þær aðgerðir sem er að finna í tillögum þessa fjárauka eru einungis hluti af umfangsmiklum aðgerðum sem stjórnvöld hafa ráðist í til að mæta efnahagslegum afleiðingum af völdum Covid-19 heimsfaraldursins. Um leið og mikilvægt er að bregðast hratt við þá verður það æ ljósara að mikilvægt er að tapa ekki yfirsýn, að við höfum heildarsýn á þær aðgerðir sem við ráðumst í og þau markmið sem aðgerðirnar eiga að skila og nýtast sem viðbrögð við afleiðingum faraldursins. Meðal aðgerða sem Alþingi hefur nú þegar veitt heimildir fyrir eru greiðsla atvinnuleysisbóta samhliða skertu starfshlutfalli, greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví, frestun á skattgreiðslum og veiting ábyrgðar ríkisins á hluta lána til fyrirtækja í greiðsluvanda.

Þá hefur verið ráðist í sérstakt fjárfestingarátak og auknar heimildir veittar fyrir markaðsátaki í ferðaþjónustu, samanber fjáraukalögin sem Alþingi samþykkti 30. mars sl. Þetta er auðvitað ekki tæmandi upptalning en áherslur stjórnvalda hafa beinst að því að verja afkomu heimila og fyrirtækja til að mæta þeirri skyndilegu röskun sem varð á stórum hluta efnahagskerfisins og tryggja þannig eftir mætti áframhaldandi ráðningarsamband launafólks og fyrirtækja.

Tilgangur þessa frumvarps er að útvíkka enn frekar stuðning við hópa sem fyrri ráðstafanir hafa ekki náð til, tengt öðrum ráðstöfunum í ríkisfjármálum á sviði skattamála og fjárstuðningi til rekstraraðila. Því þarf að horfa á það í samhengi við tvö önnur frumvörp, mál nr. 725 og mál nr. 726, sem fjalla um fjárstuðning til minni rekstraraðila og frekari breytingar á skattalögum og stuðningi við nýsköpunarfyrirtæki og einkarekna fjölmiðla auk aðgerða til að bæta fjárhagslega stöðu sveitarfélaga. Um þessi frumvörp hefur hv. efnahags- og viðskiptanefnd fjallað og við ræddum annað þeirra í gær.

Virðulegi forseti. Frumvarpið sem við ræðum hér er að meginefni tvíþætt. Annars vegar er kallað eftir heimild til að veita stuðningslán og hins vegar að afla útgjaldaheimilda fyrir rúmlega 13 milljörðum kr. Eru þær tillögur af þrennum toga. Í fyrsta lagi eru það félagslegar aðgerðir að fjárhæð 8,4 milljarðar kr. Í öðru lagi framlög til nýsköpunar og þróunar að fjárhæð 2,3 milljarðar kr. og í þriðja lagi framlag vegna lokunarstyrkja til rekstraraðila sem áætlaðir eru samtals 2,5 milljarðar kr. og kallast á við það mál sem ég vísaði til og er til umræðu í hv. efnahags- og viðskiptanefnd.

Af 8,4 milljörðum eru 5 milljarðar ætlaðir í starfsúrræði fyrir námsmenn og atvinnuleitendur og sumarnám á framhalds- og háskólastigi. 1 milljarður kr. fer til að fjármagna álagsgreiðslur til heilbrigðisstarfsfólks sem staðið hefur í framlínu í baráttunni við Covid-19 faraldurinn.

Ýmsar félagslegar áskoranir fylgja faraldrinum; 895 millj. kr. eru ætlaðar í ýmis félagsleg úrræði til að vinna gegn félagslegri einangrun aldraðra og öryrkja, aðstoð við fjölskyldur fatlaðra barna, stuðning við börn af erlendum uppruna, umönnun langveikra barna og aðgerðir vegna barna af erlendum uppruna og aðgerðir gegn heimilisofbeldi, til að efla félagsþjónustu og barnavernd í dreifðustu byggðum og eflingu samstarfs lögreglu, félagsþjónustu og barnaverndar til að gera þjónustu við börn í viðkvæmri stöðu markvissari.

Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir átaki í geðheilbrigðismálum með 540 millj. kr. fjárheimild til verkefnisins Heilsuefling í heimabyggð, sem samanstendur af fjölda aðgerða. Heilsugæsluþjónusta um land allt verður efld með sérstakri áherslu á geðrækt og andlegt heilbrigði. 600 millj. kr. er ætlað að fara í gegnum sveitarfélögin og veita styrki til tekjulægri heimila til að börnin geti stundað tómstundir sínar og íþróttir. 250 millj. kr. eiga að fara til aðgerða á Suðurnesjum þar sem staðið verður fyrir átaki í að efla félagslega þátttöku og virkni íbúa með erlendan bakgrunn ásamt því að koma á fót þverfaglegum teymum á sviði félags-, heilbrigðis- og menntamála. Auk þess er fyrirhugað að styrkja og þróa Reykjanes Geopark. Að lokum fara 125 millj. kr. í að efla stafræna tækni og þjónustu á vegum sveitarfélaganna og þróun sviðsmyndalíkans.

Þetta er mjög gróf upptalning á þeim félagslegu aðgerðum sem aflað er heimilda fyrir í frumvarpinu. Þá er óskað eftir 2,3 milljörðum til nýsköpunar og þróunar. Má segja í samhengi allra þessara frumvarpa að mjög mikil áhersla sé lögð á nýsköpun og þróun. Þar er um að ræða 1.150 millj. kr. framlag í Kríu, sprota- og nýsköpunarsjóð, sem þarf þó ekki útgjaldaheimild gangi breytingartillaga nefndarinnar eftir, þar sem það mun fara í gegnum efnahags- og sjóðstreymi ríkissjóðs. 500 millj. kr. eru ætlaðar í Matvælasjóð og 300 millj. kr. í Nýsköpunarsjóð námsmanna. Þá fara 250 millj. kr. í launasjóð listamanna og 100 millj. kr. fara í sérstakt kynningarátak til hvatningar viðskipta við innlenda verslun og þjónustu. Að lokum er hér aflað heimildar fyrir 2,5 milljörðum kr. til að fjármagna lokunarstyrki til fyrirtækja, samanber þingmál nr. 725 sem ég vísaði og tel og er enn til umfjöllunar í hv. efnahags- og viðskiptanefnd.

Nefndin fjallaði þó nokkuð um þróun efnahagsmála. Mikil óvissa ríkir um framvindu efnahagsmála hérlendis og í heimshagkerfinu öllu. Fjölmargir aðilar teikna upp sviðsmyndir en hefðbundin spálíkön ná í raun og veru ekki utan um stöðuna og þau breytast hratt. Ég held að almennt megi segja, eins og fram kom hjá flestum þeim aðilum sem nefndin átti samtal við og umsögnum, að myndin hafi dökknað þegar við vorum að ræða hér síðasta fjáraukalagafrumvarp. Það er ekki langt síðan.

Við þekkjum að gildandi stefna hefur verið tekin úr sambandi og forsendur hennar í raun og veru algerlega brostnar. Ekki er útséð um hvenær raunhæft er að leggja fram drög að nýrri stefnu og áætlun. Í venjulegu árferði værum við í þeim sporum að ræða fjármálaáætlun. Það er því óhætt að segja að sviðsmyndir hafi dökknað eftir því sem liðið hefur á tímabilið. Það speglast vel í því að vægi ferðaþjónustunnar í útflutningstekjum, atvinnu- og verðmætasköpun er meira hér en víða annars staðar. Þess vegna er útlit fyrir að samdrátturinn verði meiri hér en í flestum þeim löndum sem við berum okkur saman við. Kemur það m.a. fram í sviðsmyndum hjá OECD og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og fleiri. Aðilar vinnumarkaðarins hafa teiknað upp sviðsmyndir og í einni slíkri, sviðsmynd Viðskiptaráðs, er dekksta sviðsmyndin sú að spá hér allt að 13% samdrætti. Forsendur framvindunnar munu auðvitað markast af því hvernig til tekst með að koma heimilunum af stað á ný og afléttingu takmarkana sem við höfum sett okkur í baráttunni við veiruna. Auðvitað má segja að eina raunverulega lausnin fyrir til að mynda ferðaþjónustu sé að heimurinn fari að ferðast á ný. Það er eina raunverulega lausnin. En við þurfum að stíga ákveðið inn í til að bregðast við afleiðingunum eins og þær birtast okkur þessar vikurnar.

Umsagnaraðilar voru almennt jákvæðir gagnvart þeim aðgerðum sem boðaðar eru hér. Ég held að ég geti fullyrt það, virðulegi forseti. Þeir bentu á að frekari aðgerðir þyrftu að koma til. Þá kom fram í máli margra að sumar hverjar myndu ekki ganga nógu langt. Athugasemdirnar fjölluðu töluvert um þær aðgerðir sem útfærðar eru í máli nr. 725, frumvarpi um að veita lánastofnunum ábyrgð ríkissjóðs að fullu og höfuðstólslána, og máli nr. 726, um frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar faraldursins. Skilyrði lokunarstyrkja koma einnig fram í máli 725 ásamt stuðningslánunum. Ég ætla ekki að ræða það frekar hér. Það var mikið rætt í hv. efnahags- og viðskiptanefnd og í fjölmörgum umsögnum þar, og vissulega kallast þessi mál á.

Í greinargerð frumvarpsins er vísað til frumvarps um ráðstafanir í ríkisfjármálum, máli nr. 726, sem ég hef vísað til og er um frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum. Í 9. gr. þess er fjallað um rekstrarstuðning til einkarekinna fjölmiðla. Hv. efnahags- og viðskiptanefnd hefur lagt til breytingar á þeirri grein í því skyni að afmarka stuðninginn, leiðbeinandi afmörkun fyrir ráðherra til að útfæra í reglugerð. Við þurfum þá að gera ráðstafanir í fjáraukalagafrumvarpinu og leggjum hér til breytingar sem heimila að nýta þá fjárheimild sem er til staðar í gildandi fjárlögum, allt að 400 millj. kr. Af þeim sökum er ekki gerð tillaga um sérstaka gjaldaheimild í frumvarpi til fjáraukalaga.

Nokkrir umsagnaraðilar fögnuðu tillögu um álagsauka en töldu að fleiri ættu slíkar greiðslur skilið en lagt er til hér, til að mynda fjölmörg hjúkrunarheimili. Þetta er auðvitað vandmeðfarið og augljóst að mikið álag hefur hvílt á mjög mörgum. Árangurinn er ekki síst vegna góðrar frammistöðu fjölmargra og markvissra aðgerða þar. Hjúkrunarheimili hafa með aðgerðum sínum almennt náð góðum árangri, ég held að við getum fullyrt það. Ég hef heyrt sóttvarnalækni og fleiri tala um að sá árangur sé hluti af athyglisverðum árangri sem við höfum náð í baráttu við veiruna. Meiri hlutinn beinir því til hæstv. heilbrigðisráðherra að láta kanna kostnað sem ráðstafanir þeirra hafa valdið. Rekstrarform á eignarhaldi starfseminnar er mismunandi á milli heilmila, en mikilvægt er að endurspegla álag og viðbótarkostnað með einhverjum hætti í samningum við heimilin. Nefndin ræddi þetta þó nokkuð og þetta er alltaf vandmeðfarið og sanngirnismál. Ég held að það sé mjög erfitt að draga línu um hverjir fá og hverjir ekki. Ég held að þetta verði að skoða áfram en lagður er til 1 milljarður í þessi mál að sinni.

Hér var mikið rætt um rannsóknir, þróun og nýsköpun og menntamál. Nefndin leggur sérstaka áherslu á nægjanlegt framboð á námsplássum í háskólum landsins, ekki síst í verk- og starfsnám og tækninám á háskólastigi. Það var almenn ánægja, held ég að ég geti fullyrt, með þær vinnumarkaðsaðgerðir og menntaúrræði sem boðuð eru, en meiri hlutinn bendir á að þau úrræði þurfi að henta fjölbreyttum hópi fólks, þar með talið fötluðu fólki og fólki með skerta starfsgetu á vinnumarkaði og innan skólakerfisins. Sömu viðhorf gilda um áherslur á öflugri heilsugæslu og geðrækt og stuðning um tómstundastyrki í gegnum sveitarfélögin. Meiri hlutinn leggur áherslu á að þar verði haft samráð í millum þeirra aðila sem hafa með þá úthlutun að gera hjá sveitarfélögunum og/eða að taka við þeim. Þar nefnum við fulltrúa sveitarfélaganna, Íþrótta- og tómstundaráð, íþrótta- og æskulýðsfélögin sjálf og alla þá fulltrúa tómstunda sem falla undir þetta úrræði.

Hætt er við því á þessum tímum að neyslu- og fíknivandi aukist í samfélaginu vegna áhrifa Covid-19. Skimun og fjölbreytt meðferðarúrræði eru því mikilvæg. Því er lagt til að Sjúkratryggingum Íslands verði gert að semja um styrkingu á göngudeildarþjónustu og vinna á biðlistum hjá SÁÁ eftir áfengismeðferð sem myndast hafa vegna faraldursins. Til þessa verkefnis verði bætt við 30 millj. kr.

Þá vil ég minnast á hlutverk heilsugæslunnar í þessum efnum og geðheilsuteymin. Það er mikilvægt, en áherslan hér er á fjölbreytt meðferðarúrræði og eftir samtal við fulltrúa SÁÁ kom í ljós að áhrifa Covid-19 hefur gætt þannig að þeir hafa orðið fyrir tekjufalli og þurfa þar af leiðandi, ef ekki verður neitt að gert, að skerða grunnþjónustuna sem er hluti af heilbrigðiskerfinu. Við því bregst nefndin og er mikilvægt að þeir peningar skili sér hratt þannig að ekki komi til skerðingar á þjónustunni.

Ein af afleiðingum faraldursins er hætta á aukinni einangrun fatlaðs fólks sem þurfti að sæta skertri þjónustu eða halda sig til hlés vegna eigin aðstæðna eða aðstæðna í samfélaginu. Fjölmargir staðir á landinu bjóða upp á starfsendurhæfingu eða vinnu og virkni fyrir fatlað fólk og eiga sumir þeirra, t.d. þeir sem byggja rekstur sinn að hluta á sölu varnings eða vinnu, í erfiðleikum með að halda uppi starfsemi vegna afleiðinga Covid-19. Nefndin telur mikilvægt í ljósi þessa að sett verði fjármagn og lögð áhersla á að tryggja að möguleikar fatlaðs fólks á endurhæfingu, starfsþjálfun og verndaðri vinnu verði ekki skertir sökum faraldursins og afleiðinga hans. Meiri hlutinn gerir því tillögu um 100 millj. kr. fjárveitingu til að tryggja sérstakan tímabundinn viðbótarstuðning við aðila sem slíkri þjónustu sinna.

Ítarleg umsögn barst frá sveitarfélögunum, að venju vil ég segja, virðulegur forseti. Þau eru misjafnlega stödd og um leið og þau eru að bregðast við eiga þau mikið undir í þessum aðgerðum ríkisins. Fjölmargar aðgerðir, bæði á borði sveitarfélaganna og ríkisins, kalla á aukið samráð á milli sveitarfélaga og ríkis. Hér eru möguleikar á að styrkir úr fasteignasjóði jöfnunarsjóðs muni hafa jákvæð áhrif til að fara í framkvæmdir og beinir nefndin því til sveitarfélaganna að gera gangskör í því að nýta það til að bæta aðgengismál fatlaðs fólks.

Eins og ég sagði áðan er mikil áhersla á nýsköpun og þróun í aðgerðum stjórnarinnar. Þær fjárheimildir sem aflað er hér og þær sem lagðar eru til í skattalegum ráðstöfunum í bandormi á endurgreiðsluhlutfalli rannsókna- og þróunarkostnaðar — það er verið að lyfta þakinu á þeim greiðslum og hækka hlutfallið verulega — munu gagnast mjög hagnýtum rannsóknum. Sama má segja um þær fjárheimildir sem við leggjum til í til að mynda Matvælasjóð og einnig þær fjárfestingar sem fyrir eru í Kríu, sprota- og nýsköpunarsjóði.

Við áttum samtal við Vísindaráð og viljum bregðast við, til að verja vægi grunnrannsókna, með því að leggja til 200 millj. kr. sem fara til Rannsóknasjóðs. Ég vil líka koma því að varðandi rannsóknir og þróun að nefndin beinir því til utanríkisráðuneytisins og eftir atvikum mennta- og menningarmálaráðuneytisins að ljúka aðildarumsókn að Geimvísindastofnun Evrópu í samræmi við samþykkt Alþingis þann 13. október 2016, á þskj. 1827. Fram kom bæði í mjög vandaðri umsögn og samtali að veruleg tækifæri fælust í þeirri aðild, bæði varðandi atvinnusköpun og svo rannsóknir og vísindi. Áherslan á nýsköpun felur í sér aukinn stuðning við rannsóknir og þróun en jafnframt er þar mikilvægt tæki til efnahagslegrar viðspyrnu. Ég held að þetta sé hárréttur tímapunktur, bæði til að bregðast við ástandinu en ekki síður til að horfa inn í framtíðina þar sem það verður ærið verkefni að draga hratt úr því atvinnuleysi sem myndast hefur mjög hratt. Stóra verkefnið er að koma í veg fyrir langtímaatvinnuleysi.

Ég vísa í því tilliti til klasastefnu sem er í mótun og var samþykkt hér á Alþingi fyrir skömmu, ég átti aðild að því að leggja það mál fram, og stafrænna smiðja, sem er mál sem hv. þm. Björn Leví Gunnarsson lagði fram á Alþingi og var samþykkt. Þetta eru hvort tveggja tæki til að efla nýsköpun og umhverfi hennar enn frekar. Meiri hlutinn vill beina því til hæstv. ráðherra að huga að nýsköpunaraðstöðu um allt land og nýta þessi tæki til að sameina opinbera og almenna geirann, skapa samvinnu og aðstöðu, veita viðspyrnu og vinna gegn atvinnuleysi. Hv. þm. Björn Leví Gunnarsson lagði þetta góða mál til vinnu nefndarinnar og ég geri ráð fyrir því að hann taki það frekar upp í ræðu sinni.

Í umfjöllun nefndarinnar var komið inn á fjölmarga þætti; stöðu íþróttahreyfingarinnar, aukinn stuðning við viðkvæma hópa, framkvæmdir um allt land og í því samhengi sóknaráætlanir, Framkvæmdasjóð ferðamannastaða, beina styrki til fyrirtækja, til þeirra sem falla utan afmörkunar lokunarstyrkja, stöðu NPA-samninga og fjölgun starfa, útvíkkun til almenna geirans í þeim efnum og fjölgun samninga listamannalauna. Ekki náðist samstaða um að fara í alla þessa hluti eða leggja fram auknar heimildir á öllum þessum sviðum, en meiri hlutinn leggur til breytingar sem gerð er grein fyrir í sérstöku þingskjali. Um þær breytingar náðist samstaða og um annað ekki. Það birtist í þeim fyrirvörum sem nefndarmenn gera sérstaklega grein fyrir ellegar í séráliti minni hluta og breytingartillögu þar að lútandi.

Virðulegi forseti. Nú fer ég að ljúka þessari yfirferð. Um leið og mikilvægt er að bregðast hratt við og af krafti er hér að teiknast upp að við munum skila ríkissjóði með miklum halla á þessu ári. Því er rétt að minna á að ekki hefur verið dregið úr umfangi gildandi fjárlaga. Það er mikilvægt í allri þessari orrahríð og umræðu og aðgerðum að þær aðgerðir sem hér eru settar til varna og viðspyrnu bætast í raun og veru við 1.000 milljarða umfang gildandi fjárlaga. Þá finnst mér gleymast í umræðunni að ríkissjóður er að verða fyrir miklu tekjufalli, bæði á útgjaldahlið og tekjuhlið, og við erum að gera ráðstafanir til að koma fyrirtækjum og heimilum í gegnum þennan skafl. Verið er að veita frestanir á gjöldum þannig að tekjufallið á þessu ári verður mikið og auðvitað eru umsvifin að minnka í hagkerfinu. Þetta mun leiða til kröftugrar sveiflujöfnunar, sérstaklega í gegnum atvinnuleysistryggingarnar. Það er auðvitað hlutverk ríkissjóðs að hafa styrk til að standa undir grunnvelferðarkerfunum okkar á tímum sem þessum. Við verðum að muna að það kemur dagur eftir þennan dag og það kemur annað ár. Við þurfum að huga að grunngildum laga um opinber fjármál sem eru sjálfbærni og varfærni. Það fer ekki frá okkur. Að því sögðu er mikilvægt að við ráðumst í allar þessar aðgerðir, mætum þessu, verjum afkomu heimila og fyrirtækja.

Þá eru önnur tækifæri sem meiri hlutinn beinir til ríkisstjórnarinnar að vinna markvisst að. Hann nefnir í því sambandi endurskoðun á starfsumhverfi kvikmyndagerðar. Aukinn áhugi er að koma með stór kvikmyndaverkefni til landsins og í því geta falist eftirsóknarverð tækifæri til viðspyrnu. Nefndin hefur kallað eftir frekari upplýsingum um stöðuna á þeim málum og hvetur hæstv. ráðherra til að taka vel utan um þau mál. Við höfum fengið upplýsingar um að komið hafi beiðnir til sóttvarnayfirvalda um hvort hópar sem eru við upptökur við slík verkefni geti komið til landsins.

Nefndin vekur athygli á því að í frumvarpinu er ekki að finna beiðnir um útgjaldaheimildir vegna stóraukinna rekstrar- og tilfærsluútgjalda ríkisins í tengslum við heimsfaraldurinn og munar þar langmest um gjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs og vegna heilbrigðiskerfisins. Nefndin beinir því til stjórnvalda að kalla eftir nauðsynlegum útgjaldaheimildum jafnóðum og þörf er á. Það má gera samhliða frekari aðgerðum vegna efnahagsáfallsins.

Ég hef þegar greint frá nokkrum breytingartillögum sem nefndin náði samstöðu um, í grunnrannsóknir, 200 millj. kr. Og með þeim framlögum sem nefndin stóð að í síðustu atrennu hafa framlög til sjóðsins hækkaði um 31% frá gildandi fjárlögum, einskiptisframlag til SÁÁ 30 millj. kr. til að koma í veg fyrir skerðingu þeirrar mikilvægu þjónustu. Þá leggur nefndin til 157 millj. kr. til að tryggja fulla fjármögnun NPA-samninga á þessu ári. Þá er hér tillaga um 100 millj. kr. einskiptisframlag til að tryggja starfsemi verndaðra vinnustaða. Þá er lagt til 25 millj. kr. framlag til félagasamtaka til að styðja við viðkvæma hópa samfélagsins.

Ég fór yfir tillögur tæknilegs eðlis vegna Kríu, sprota- og nýsköpunarsjóðs, sem fer í gegnum sjóðstreymi ríkissjóðs og bætist við 6. gr. heimild þessa efnis, sem og stuðningslán með vísan í sérstakt frumvarp þess efnis.

Að öðru leyti vísa ég til breytingartillagna í sérstöku þingskjali.

Virðulegi forseti. Ég vil að lokum þakka nefndarmönnum samstarfið og samstöðuna um þetta mál og það sem lagt er til og ber fulla virðingu fyrir því að hér eru aðrar tillögur og um aðra þætti og fjölmargar hugmyndir. Þannig á það auðvitað að vera. En um þetta náðist samstaða og það er gjarnan þannig að ekki fá allir allt sem sem vilji þeirra stendur til. En ég vil þó þakka þá samstöðu um það sem lagt er til hér.

Hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson er áheyrnarfulltrúi í nefndinni og styður þær tillögur sem fram koma. En hann telur þær ekki ganga nógu langt og mun gera grein fyrir því hér, geri ég ráð fyrir. Í sérstökum kafla er greinargerð um fyrirvara þá sem aðrir nefndarmenn gera og rita undir álit meiri hluta. Ég geri jafnframt ráð fyrir að þeir geri frekari grein fyrir þeim.

Að því öllu sögðu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem lagðar eru til á sérstökum þingskjölum.

Undir álitið rita eftirtaldir hv. þingmenn: Willum Þór Þórsson, Haraldur Benediktsson, Inga Sæland, og gerir það með fyrirvara, Birgir Þórarinsson, og gerir það með fyrirvara, Björn Leví Gunnarsson, og gerir það með fyrirvara. Njáll Trausti Friðbertsson, Páll Magnússon og Steinunn Þóra Árnadóttir.