150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[19:39]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Frú forseti. Við ræðum hér fjáraukalagafrumvarp tvö. Við erum nýbúin að afgreiða fjáraukalagafrumvarp eitt, sem er ákaflega sérstakt og ég þarf ekki að rekja ástæður fyrir því í ræðustóli Alþingis á þessum degi. Ég held að það sé mikilvægt í þessari umræðu nú að við reynum að átta okkur á heildarmyndinni sem við stöndum frammi fyrir þegar við erum að fjalla um og halda utan um ríkisfjármálin. Í mínum huga er heildarmyndin einfaldlega sú að við höfum hér í gildi fjárlög sem samþykkt voru tímanlega fyrir síðustu áramót sem gerðu reyndar ráð fyrir halla á rekstri ríkissjóðs. Frá þeim tíma, með því sem við breyttum í fjáraukalagafrumvarpi eitt, eru t.d. komnir 18 milljarðar kr. í auknar fjárfestingar á árinu 2020 sem þýðir að við erum komin í 100 milljarða fjárfestingu af ríkisins hálfu. Í því fjáraukalagafrumvarpi vorum við líka með hækkuð framlög til ýmissa verkefna. Hér hefur mikið verið rætt um nýsköpun og tækniþróun og þar vorum við að auka verulega fjármuni. Við létum líka aukna fjármuni til sóknaráætlana, í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða og svo mætti lengi telja, allt til að örva, allt til þess að koma af stað fjárfestingu, allt til að skapa störf.

Við erum í óvæntum aðstæðum, heimsfaraldri sem ríður yfir heimsbyggðina og skapar þau óvæntu vandræði sem við stöndum frammi fyrir. Það er ekki einfalt að glíma við þetta og það er ekki eins og einföld ráð við því séu gripin upp úr hattinum heldur eru samfélög og þjóðir að þreifa fyrir sér hvernig þau geti best varið atvinnulíf, gert fyrirtækjum kleift að hafa enn þá traustar stoðir til að standa á þegar losnar aftur um og við getum aftur farið að búa til verðmæti og skapa aftur það samfélag sem við þekktum.

Ég held að þetta sé myndin af því verkefni sem við stöndum frammi fyrir. Það hefur verið boðað í það minnsta eitt fjáraukalagafrumvarp í viðbót áður en langt um líður og það fæðist í raun og veru eftir að aðgerðir sem tilheyra þessu fjárlagafrumvarpi eru kynntar og við nánari útfærslu á því. Þess vegna langar mig á þessum stað í umræðu um fjáraukalagafrumvarp tvö að taka sérstaklega fram, af því að þau orð féllu hér fyrr í umræðunni að allir hafi orðið fyrir vonbrigðum með þetta fjáraukalagafrumvarp og þessar ráðstafanir, að svo er einmitt ekki. Það hafa einfaldlega fleiri en færri, og það kom skýrt fram í umsögnunum sem hv. fjárlaganefnd bárust, fagnað almennt þeim aðgerðum sem gripið var til þó svo að menn greini eðlilega á um leiðir og aðferðir o.s.frv.

Ég held að það sé mikilvægt að við förum fram með þeim hætti sem við gerum hér, nokkuð varlega eða af ábyrgð. Þess vegna langar mig til að vitna, virðulegi forseti, í nefndarálit meiri hluta fjárlaganefndar þar sem við vorum í okkar vinnu að reyna að átta okkur á efnahagsstöðunni og stöðu ríkissjóðs í því ástandi sem við erum í. Það er alls ekki einfalt verkefni en samt mikilvægt á hverjum tíma að við reynum að draga upp sem heildstæðasta mynd af því við hvað er að fást. Ég leyfi mér, virðulegur forseti, að lesa upp úr nefndaráliti meiri hlutans en þar stendur um efnahagshorfur og þróun og sviðsmyndir:

„Mikil óvissa ríkir um framvindu efnahagsmála bæði hérlendis og ekki síður í heimshagkerfinu. Að öllu jöfnu væri fjármálaáætlun til næstu fimm ára nú til umfjöllunar í þinginu en óvissa gerir spáaðilum erfitt um vik. Gildandi stefna hefur verið tekin úr sambandi og ný uppfærð áætlun liggur ekki fyrir og ekki víst hvenær raunhæft er að leggja fram drög að nýrri fjármálastefnu og áætlun.

Hagstofan hefur ekki endurmetið þjóðhagsspá eftir að faraldurinn kom upp. Seðlabankinn birti 25. mars sl. tvær sviðsmyndir sem að hluta til byggjast á sviðsmyndum OECD á alþjóðlegum hagvexti. Frá þeirri sviðsmynd má segja að horfur hafi dökknað og flest bendir til þess að efnahagsáfallið verði meira og langvinnara en áður var talið. Af þeim sökum voru sviðsmyndirnar uppfærðar í byrjun apríl. Mildari sviðsmyndin gerir ráð fyrir 4% samdrætti í efnahagslífinu, að útflutningur vöru og þjónustu dragist saman um 18,7%, atvinnuleysi verði að meðaltali 6,1% og einkaneysla dragist saman um 1,7%.

Dekkri sviðsmyndin miðast við enn meiri samdrátt efnahagslífsins í heild eða 6,9%, útflutningur dragist saman um 27,2%, atvinnuleysi verði 7,5% og einkaneyslan lækki um 4%. Bankinn spáir því að verðbólguhorfur breytist lítið þrátt fyrir mikið umrót í efnahagsmálum, eða 1,4% milli ára.

Seðlabankinn mun áfram vinna að því að greina efnahagsleg áhrif faraldursins og nýjar sviðsmyndir verða kynntar 20. maí nk.“

Í nefndarálitinu vitnum við líka til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, með leyfi forseta:

„Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn birti nýlega endurskoðaða efnahagsspá fyrir heimshagkerfið og fyrir einstök ríki sem tekur til yfirstandandi árs og næsta árs. Það er fyrsta spá AGS eftir að Covid-19 faraldurinn braust út. Þar er gert ráð fyrir 3% samdrætti í heimshagkerfinu sem yrði mesti samdráttur síðan í kreppunni miklu á 3. og 4. áratug síðustu aldar. Til samanburðar dróst heimshagvöxtur saman um 0,1% í fjármálakreppunni 2009.

Í grunnsviðsmynd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er gert ráð fyrir að efnahagsleg áhrif faraldursins verði tímabundin og þau fjari út á seinni hluta þessa árs. Á næsta ári er spáð kröftugum hagvexti, eða 5,8% samkvæmt spánni. Lögð er áhersla á að óvissan í spánni sé mun meiri nú en í venjulegu árferði og að mögulega kunni samdrátturinn á yfirstandandi ári að verða meiri.

Í Evrópu er áætlað að í ár verði hagvöxtur neikvæður á bilinu 3–10%, misjafnt eftir löndum.“

Við birtum í nefndaráliti okkar töflu um hagvaxtarspá milli einstakra ríkja, sem ég fer kannski ekki nánar yfir í þessari ræðu, en dreg það einungis fram að við erum að glíma við ótrúlega kröftugan viðsnúning í efnahagsmálum. Það er þess vegna full ástæða til, virðulegi forseti, að við séum ekki að þenja ríkisútgjöldin út hugsunarlaust eða nánast af engri ábyrgð og hraðar en við þó gerum og er nú nóg gert samt. Ég held að það sé ágæt lexía og ágætt að hugleiða það að samkvæmt drögum að spá sem fjármálaráðuneytið hefur unnið um horfur í rekstri ríkissjóðs til næstu fimm ára gætum við einfaldlega lent í þeirri stöðu að hafa aukið skuldir ríkissjóðs svo mikið að þær verði allt að 50% af landsframleiðslu árið 2025. Þetta er verkefnið sem við stöndum frammi fyrir, hvernig við ætlum að standa saman að því að halda utan um þjóðfélag okkar, efnahagslífið, vinnu fólks og verðmætasköpun og þar af leiðandi grunninn að því að við getum rekið samfélag okkar eins og við höfum gert og hvernig við ætlum til lengri tíma að sjá ríkisfjármálin þróast.

Það er ekki bjart fram undan ef við náum ekki þeim viðsnúningi sem við þurfum á að halda, samkvæmt þeim sviðsmyndum sem spáaðilar hafa verið að birta okkur. Fleiri aðilar, sem sendu hv. fjárlaganefnd umsagnir og fylgdu þeim eftir, hafa líka gert sviðsmyndir út frá sínum forsendum. Það eru sviðsmyndir allt frá því að hingað komi enginn ferðamaður á þessu ári og spáð allt að 13% efnahagssamdrætti yfir í sviðsmyndir þar sem gert er ráð fyrir að losni um komur ferðamanna og heimsbúskapinn þegar líða tekur á árið. Þetta er stóra verkefnið. Þess vegna getum við aldrei lagt nægjanlega áherslu á það í umfjöllun um þau fjáraukalagafrumvörp sem eru viðbragðsmál eða mál sem ríkisstjórn og meiri hluti Alþingis og Alþingi eru að fást við til að reyna að bregðast við stöðunni nánast frá degi til dags.

Ég held hins vegar, virðulegur forseti, þegar tekin eru saman viðbrögð okkar í fjáraukalagafrumvarpi eitt og í því fjáraukalagafrumvarpi sem núna er til umfjöllunar, að við séum á margan hátt að nálgast þetta verkefni með mjög ábyrgum hætti. Ég ætla aðeins að vísa í eitt til viðbótar því sem ég rakti hér um aukna fjármuni til opinberrar fjárfestingar sem er fyrst og fremst í þeim þáttum samfélagsins sem geta staðið til lengri tíma og við getum haft ágætan ávinning af og undirbyggja framtíð okkar og vöxt og viðgang okkar samfélags, en það er sú áhersla sem við leggjum hér á nýsköpunarmál og rannsóknir. Ég trúi því að hún sé gríðarlega mikilvæg á þessari stundu. Meiri hluti hv. fjárlaganefndar gerir raunar sáralitlar breytingar á framlögðu fjáraukalagafrumvarpi en gerir þó t.d. þá breytingu að auka fjármuni enn til Rannsóknasjóðs og bæta þannig í grunnrannsóknir. Sama hvaða áföngum við munum ná í nýsköpun og til að bæta starfsumhverfi nýsköpunar og sóknar á því sviði þá skiptir okkur máli að halda vel utan um grunnrannsóknir á sem flestum sviðum. Þess vegna leggur meiri hluti fjárlaganefndar til breytingartillögu til að bæta þar betur í.

Ég held, virðulegur forseti, að á þessu stigi í umræðunni geti ég ekki varpað skýrari mynd á hvað við erum að fást við með þeim þingmálum sem við ræðum þessa dagana og við alþingismenn erum að vinna í. En í ljósi þeirrar áherslu sem við erum að leggja á nýsköpun og sókn í rannsóknum langar mig að við hugleiðum rétt sisvona í lokin að þau viðbrögð sem allt samfélagið hefur gripið til á undanförnum dögum og vikum og þær miklu breytingar sem fólk hefur verið að glíma við, hvort sem það er í atvinnulífinu, í menntakerfinu eða í heilbrigðismálum eða hvar sem við berum niður í okkar samfélagi, t.d. hvernig þingmenn hafa breytt sínum starfsháttum, ganga ekki að öllu leyti til baka. Við erum á ótrúlega stuttum tíma, held ég, að búa til miklar samfélagslegar breytingar. Þess vegna vildi ég bara draga það fram, virðulegur forseti, hér undir lokin, að það skiptir máli í hverju hið opinbera er að fjárfesta til lengri tíma. Hið opinbera hefur t.d. borið gæfu til þess að styðja við og örva fjárfestingu í fjarskiptainnviðum og ég trúi því, þegar ég stend í ræðustólnum hér á þessu maíkvöldi, að hefðu ekki komið til þeir fjármunir sem varið var til að efla fjarskiptakerfið í landinu hefði kreppan mögulega orðið enn þá dýpri.

Virðulegi forseti. Okkur getur greint á um leiðir, við getum verið sammála eða ósammála um að það geti þurft að gera meira hér og þar, en að öllu samanlögðu held ég að við eigum í þessu landi bjarta framtíð sem áður, en það skiptir máli hvernig á er haldið.