150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[20:08]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður fór ágætlega yfir forsendurnar sem þarna eru gefnar í báðum tilfellum og svo oft hef ég tekið þátt í umræðu og hlustað á umræðu í þessum sal þar sem við erum að gera þessar áætlanir, byggja þróun almannatryggingagreiðslna á þessum áætlunum, að þetta hefur ávallt verið umdeilt eins og ég sagði. Ég ætla ekki að fara í gegnum þá umræðu í stuttum andsvörum hvor reglan sé réttari en henni hefur verið fylgt, ég undirstrika það. Það birtist m.a. í því sem hv. þingmaður rekur. Ég var ekki að reyna að segja að það væri eitthvað viðkvæmt að ræða kjör alþingismanna og hv. þingmaður kveinkaði sér undan því að ég væri á einhvern hátt að gera það, nema síður sé. En þetta er hins vegar alltaf þessi íþrótt, þegar laun alþingismanna breytast þá verður ákveðið uppþot. Þess vegna er aldrei rétti tíminn og aldrei rétta stundin til að breyta kjörum þeirra. En sú umræða sem hv. þingmaður leggur upp með á fyllilega rétt á sér. Ég get alveg tekið undir það að þessa þætti, að þegar áætlunin stenst ekki hvort þurfi þá ekki að endurskoða hana síðan í uppgjöri. Það er sjálfsagt bara umræða sem á eftir að tæma. En ég minni á að þeirri aðferð hefur verið fylgt árum saman og enginn hefur svo sem fikrað sig áfram í að breyta þeirri reiknireglu.