150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[21:30]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Þetta hefur verið áhugaverð umræða, mikilvæg umræða, því að þau skref sem við erum að taka hér í dag og á eftir í atkvæðagreiðslu eru náttúrlega liður í því að halda áfram að reyna að treysta undirstöðurnar og byggja samfélag okkar upp. Við í Viðreisn höfum nálgast verkefnið þannig að við vildum verða að liði. Við vildum sýna samstöðu, ekki kannski einhliða samstöðu, en við höfum greitt atkvæði með öllum tillögum ríkisstjórnarinnar og erum núna fylgjandi meirihlutaáliti ríkisstjórnarflokkanna. Við höfum að sjálfsögðu komið með okkar tillögur, sumar hafa ratað inn, aðrar ekki. Það er eins og gengur. Þetta er þessi fallega mynd af þinginu, við erum í óformlegu spjalli og maður sér sumt komast inn í tillögugerð, annað ekki. Það er náttúrlega umhugsunarefni þegar tillaga næst ekki inn en kemur síðan korteri inn af því að þá er það ríkisstjórnin sjálf sem er með tillögurnar. En gott og vel, þetta mjakast allt. Við erum að vinna tíma með þessu meðan tekist er á við veiruna.

Ég vil taka undir það sem m.a. fjármálaráðherra og fleiri í ríkisstjórn hafa sagt, m.a. formaður fjárlaganefndar sem kemur hér í salinn, að það er algjört lykilatriði að setja verðmætasköpun í forgang, halda hagkerfinu gangandi. Það er algjört lykilatriði. Vernda störfin, skapa störf og búa til tækifæri. Það gætir ákveðins misskilnings um að með þessu séum við að fara gegn heimilunum í landinu. Það er ekki þannig. Það er órofa þráður á milli atvinnulífs, fyrirtækja og heimila. Ef atvinnulífið er á brauðfótum falla heimilin og fjölskyldurnar líka. Þess vegna styð ég ríkisstjórnina í að huga einmitt að því hvernig við getum tekið utan um atvinnulífið.

Það er líka margt annað sem hefur verið gert vel, ekki nóg alltaf, en það er margt sem er verið að reyna að gera og takast á við, m.a. greiðslu atvinnuleysisbóta, að styrkja skólana, ýmis úrræði sem eru mjög af hinu góða, og rannsókna- og þróunarsjóði. Hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson, fulltrúi okkar í efnahags- og viðskiptanefnd og fjárlaganefnd, fór mjög vel yfir tillögur okkar í Viðreisn í þessum umgangi og nálgun okkar. Hann sagði réttilega að stóra verkefnið er að koma í veg fyrir langtímaatvinnuleysi. Þess vegna verðum við í rauninni að leggja allt annað til hliðar að mínu mati, t.d. umræðu um það hvort við erum með háa eða lága skatta, þaninn ríkissjóð eða ekki. Við þurfum að koma íslensku samfélagi, íslensku atvinnulífi, íslenskum heimilum, íslenskum atvinnugreinum fyrir horn meðan þessi stormur varir. Þá verðum við að fara í ákveðnar fordæmalausar aðgerðir í samhengi við þessa fordæmalausu tíma. Við verðum að gera allt til þess að koma í veg fyrir langtímaatvinnuleysi þannig að samfélagslegu vandamálin og efnahagslegi kostnaðurinn fyrir samfélagið verði ekki of stór.

Hvað þýðir það til lengri tíma fyrir ríkissjóð? Nú hafa menn miklar áhyggjur af því að verið sé að leggja of miklar byrðar á ríkissjóð sem stendur skrambi vel miðað við helstu nágrannaþjóðir okkar hvað varðar skuldastöðu. Við verðum að leggja mjög mikið á okkur til að halda utan um okkar minnstu bræður og systur en líka að koma í veg fyrir að langtímaatvinnuleysi festist í sessi með þeim samfélagslegu afleiðingum sem fylgja, óróa og einnig áhrifum á lýðræðið sjálft. Við vitum að það mun á endanum hafa áhrif á lýðræðið. Ég vil ekki hugsa þá hugsun til enda ef við sjáum þær afleiðingar inn í framtíðina að hér spretti upp einhverjir öfgaflokkar á þessum grunni. Það er upp á lýðræðið gera sem skiptir máli að við hugsum þetta þannig. Þess vegna skiptir verðmætasköpunin miklu og utanumhaldið utan um fyrirtækin þar með.

Við höfum lagt gríðarlega mikla áherslu á það að stór skref yrðu tekin strax, ekki minni skref. Ég get ekki neitað því að sumt af þessu finnst mér vera smáskammtalækningar, en þetta er vel meint. Það er ákveðinn metnaður til staðar þó að ég hefði viljað sjá hann meiri.

Varðandi nýsköpunina hef ég margoft sagt að tekin hafa verið mörg framfaraskref á sviði nýsköpunar, rannsókna og þróunar. En núna er einstakt tækifæri til að gera enn betur. Ég varð þess vegna fyrir miklum vonbrigðum með þau skilaboð sem ríkisstjórnarflokkarnir og meiri hlutinn á þingi sendi út í dag þegar þeir felldu tillögu okkar í Viðreisn um að hafa framlög til nýsköpunar og þróunar ekki tímabundin heldur ótímabundin þannig að við séum að segja: Já, við erum að veðja á nýsköpun, við erum að fjárfesta í nýsköpun til lengri tíma. Það eru mikilvæg skilaboð að við fjárfestum ekki tímabundið í þessum geira því að nýsköpun þarf tíma. Nýsköpun og sprotar þurfa andlegt og efnahagslegt svigrúm til að vaxa og dafna. Mér fannst þetta vond skilaboð, ekki í takti við það sem við erum að tala um, að hér þurfi að vera fleiri egg í körfunni. Við þurfum að byggja upp ferðaþjónustuna aftur, bara þannig að það sé á hreinu. Það er, svo ég sletti, virðulegi forseti, „low-hanging fruit“ fyrir okkur til að komast sem fyrst upp úr þeirri efnahagslægð og krísu sem við stöndum frammi fyrir. En við megum ekki gera þau mistök sem við höfum gert á umliðnum árum að safna ekki í sarpinn, styðja ekki við fjórða geirann; nýsköpunina, þróunina, rannsóknir. Þess vegna leggjum við í Viðreisn mikla áherslu á nákvæmlega þessa þætti og viljum hafa þau skilaboð skýr.

Við megum heldur ekki gleyma því að við erum í samkeppni og var hún mikil fyrir, samkeppni um hugvit, mannauð. Öll ríki í Vestur-Evrópu, bæði fyrir austan, fyrir norðan og sunnan og líka Bandaríkin og við sjáum Kína og önnur ríki Asíu koma sterk inn. Það ætla allir að reyna að gera enn betur varðandi menntun, rannsóknir, vísindi, þróun, nýsköpun. Þá verðum við að gjöra svo vel og sýna ákveðna samkeppnishæfni og aðlögunarhæfni, vera fljót, vera með einfalt regluverk, vera með skýrar boðleiðir og láta kerfið virka. Það er bara ekki að virka nógu hratt og vel núna. Og af hverju viljum við gera meira og af hverju viljum við í Viðreisn setja meira fjármagn inn í sjóðina, bæði hækka endurgreiðsluþakið fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki og bæta enn frekar í rannsókna- og þróunarsjóði? Það er m.a. út af kostnaðinum af krónunni, þeim örlagavaldi sem allt of fáir vilja nefna hér í þessum sal. Það sýnir sig að 75% af nýsköpunarfyrirtækjum segja að ein helsta viðskipta- og samkeppnishindrunin fyrir þau sé krónan. Þá skulum við bara taka það strax inn í breytuna varðandi framlögin. Það er m.a. ástæðan fyrir því að við viljum gera enn betur í nýsköpun og sprotageiranum.

Við höfum líka sett fram tillögur varðandi tryggingagjald til að gera það sem hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson sagði fyrr í dag, að verja störfin fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu, til að fólk búi við öryggi og geti farið til vinnu. Í því felst mikið öryggi og það er líka hvati til að halda vélum atvinnulífsins og efnahagslífsins gangandi. Þess vegna höfum við lagt fram ákveðnar tillögur um tryggingagjaldið. Við höfum líka sett fram tillögur varðandi innviðafjárfestingar og þær munu verða fleiri af því að það sem verið er að tala um hér í dag er að mínu mati of lítið. Við þurfum að flýta framkvæmdum, framkvæmdum sem við erum þegar byrjuð að gera ráð fyrir í langtímafjárfestingarplani okkar. Við þurfum líka að fara í nýjar fjárfestingar. Við þurfum að sýna strax á spilin varðandi borgarlínuna og hönnunina, einnig hönnun á Ölfusárbrú og að fara strax af stað og enn frekar með hjúkrunarrými — og vantar þau nú. Þau 100 rými sem voru opnuð núna við Sléttuveg setti fyrrverandi hv. þingmaður Viðreisnar, Þorsteinn Víglundsson, af stað 2016, 2017. Það er bara of langt síðan. Við þurfum að halda áfram þessum byggingum, gera það núna og flýta framkvæmdum. Af hverju segi ég það? Af því að við sáum það á síðasta ári, fyrir Covid, að það var m.a. mikill samdráttur í byggingargeiranum sem er fjölmenn atvinnugrein, 15.000–17.000 manns sem vinna þar, og við sáum fyrir að það yrði a.m.k. 20% samdráttur og hann verður enn meiri eftir Covid. Þess vegna þarf að senda út skýr skilaboð. Þarna finnst mér vanta metnaðinn af því að þetta er hluti af því að fara í endurreisnina, viðspyrnuna fyrir íslenskt atvinnulíf. Þetta þarf því að vera skýrt. Ég vil sjá mun meiri innviðafjárfestingar en verið er að boða og það strax. Þetta er lykilatriði.

Stóra málið er verðmætasköpunin og hvernig við ýtum henni af stað. Ég hef svolítið gaman af því að við erum sem betur fer blessunarlega meira sammála en hitt hér, ekki töluð endilega mikil pólitík í kringum allt og ég er heldur ekkert endilega viss um að það sé akkúrat eftirspurn eftir miklum árekstrum. Ég hef þó orðið vör við ákveðinn núning á milli hægri og vinstri flokkanna hér um gildi opinberra starfa, um verðmætasköpun opinberra starfa og verðmætasköpun starfa í einkageiranum eins og þetta sé einhver svart/hvít veröld, sem hún er ekki. Þetta styður hvort annað. Guð minn góður, erum við ekki búin að upplifa það í dag og núna á síðustu vikum hversu verðmæt störfin eru í opinbera geiranum, heilbrigðisgeiranum? En við sjáum líka að það er lykilatriði, til að við getum haldið áfram að styrkja okkur á sviði velferðar, á sviði mennta og á sviði nýsköpunar, að við getum farið áfram með atvinnulífið þannig að það verði aukin atvinnu- og verðmætasköpun í einkageiranum. Það er algjört lykilatriði. En auðvitað er það kúnstugt að heyra á sama tíma fjármálaráðherra kvarta undan því að það vanti aukinn skilning á mikilvægi einkageirans. Við styðjum hann í því að ýta undir þau störf. Við skulum ekki gleyma því að tímabilið fyrir Covid er svolítið í þoku og það er einhvern veginn gleymda tímabilið, örugglega svolítið heppilegt fyrir ríkisstjórnina. En á síðasta ári, undir forystu þessarar ríkisstjórnar og m.a. Sjálfstæðisflokksins í fjármálaráðuneytinu, þá fækkaði störfum á almenna markaðnum um 6.000, fyrir Covid, vegna of mikilla skatta, of mikilla gjalda á atvinnulífið. Ríkissjóður, undir lok ársins 2019, var ekki lengur sjálfbær. Ríkisstjórnin stóð frammi fyrir því verkefni að þurfa að fara að forgangsraða til að ríkissjóður yrði til lengri tíma sjálfbær. Það var verkefni sem blasti við um síðustu áramót. Það er pínulítið kaldhæðnislegt að tala um að gæta þurfi að mikilvægi starfa á einkamarkaði en hafa á sama tíma staðið fyrir því á síðasta ári að fækka störfum á almennum vinnumarkaði um 6.000.

Við í Viðreisn höfum tekið eindregið undir að huga þurfi vel að atvinnulífinu og fyrirtækjunum en á sama tíma er auðvitað ömurlegt og þyngra en tárum taki að upplifa það að fyrirtæki sem þurfa ekki á ríkisaðstoð að halda í því ástandi sem við búum við núna þurfi að taka smáaukasnúning, aukakrók, til að fara á ríkisjötuna. Það þarf að rökstyðja af hverju það er gert. Ég vil hvetja Samtök atvinnulífsins til þess að gefa einfaldlega út siðareglur í svona málum því þetta skemmir fyrir okkur sem tölum fyrir atvinnulífinu, tölum fyrir því af hverju það þurfi að byggja undir fyrirtækin. Af hverju þurfum við að gera það? Ég er búin að margítreka að það er lykilatriði fyrir fjölskyldurnar og fyrir lífsöryggi og afkomu fólks að hafa hér öflug fyrirtæki. Þess vegna er það óþolandi ef fyrirtæki fara þessa leið þegar þau þurfa ekki á því fjármagni að halda. Við þurfum svo sannarlega á hverri krónu að halda í uppbyggingu og viðspyrnu atvinnulífsins.

Ég gat um það áðan að lítið er talað um pólitíkina. Ég held að það sé rétt. Við eigum ekki núna, tímabundið, að fara að ræða hvort við eigum að hækka eða lækka skatta, skera niður eða ekki hjá ríkissjóði. Við eigum að gera það sama og aðrar þjóðir eru að gera og betur. Bandaríski seðlabankastjórinn sagði ekki alls fyrir löngu að það ætti ekki einu sinni að dvelja við skuldastöðu ríkissjóðs í Bandaríkjunum heldur fyrst og fremst að glíma við þennan skammtímavanda með aðgerðum strax og það stórtækum til að koma í veg fyrir langtímavanda með öllu því samfélagslega óöryggi og óróleika sem fylgir og ég gat um áðan. Þetta segir seðlabankastjóri Bandaríkjanna, þess lands sem við lítum oft til varðandi eitt og annað, kannski ekki akkúrat þessa stundina, en varðandi frelsi og fleira. Þar skuldar ríkissjóður 100% af vergri landsframleiðslu. Hvað skuldum við Íslendingar? Innan við 30%. Þannig að staða íslenska ríkisins og ríkissjóðsins er miklu sterkari en margra annarra. Ég hef bent á það áður hvað Þjóðverjar eru að gera, sem eru aðhaldsamasta þjóðin, með fullri virðingu fyrir öllum öðrum þjóðum, þegar kemur að ríkisfjármálum, mjög íhaldssöm, hvort sem horft er til SPD, sósíaldemókratanna sem stýrðu landinu lengi með Helmut Schmidt og fleiri í forystu, yfir í CDU, kristilega demókrata, sem voru líka mjög íhaldssamir í þessu, hvort sem það var Helmut Kohl og að ég tali nú ekki um þá frábæru fyrirmynd sem Angela Merkel er. Þeir eru að fara með skuldsetningu þýska ríkisins úr 40% upp í hátt í 60% af því að allir gera sér grein fyrir því að nú þýðir ekki að hika, vera með fum eða fát. Það þarf að fara óhefðbundnar leiðir til að atvinnulífið geti farið sem allra fyrst af stað.

Þá er ég komin að því sem ég sakna héðan. Ég vil leyfa mér að gagnrýna ríkisstjórnina. Nú erum við búin að ná tökum á veirunni. Við höfum hlustað á sérfræðingana í almannavarnateyminu. Þau hafa útskýrt hvert þau eru að fara, þau hafa sett markmið í samvinnu við m.a. Háskóla Íslands, og allt hefur þetta staðist, meira og minna. Stóra myndin hefur staðist. Við höfum alltaf getað fylgt þeim af því að þau hafa útskýrt hvert þau eru að fara. Við erum búin að ná tökum á veirunni í þessari lotu. Hún kemur aftur, við vitum það, en í þessari lotu erum við búin að ná tökum á henni. Þá hefði ég haldið að ríkisstjórnin væri tilbúin með sitt plan, ekki bara viðbragðsáætlanir sem eru góðra gjalda verðar. En núna eru komnir hátt í þrír mánuðir. Við erum örhagkerfi. Það er ekki þannig að við séum með flókið hagkerfi, bara alls ekki, en það er eins og við séum ekki tilbúin. Okkur er ekki sagt hvert planið er. Hvenær á að byrja að opna? Hvernig á að opna? Við upplifðum það bara síðast í dag hér í þingsal að hver höndin er upp á móti annarri innan ríkisstjórnarflokkanna um það hvort eigi að opna 15. maí eða hvort það eigi yfir höfuð að opna. Það er af því að ríkisstjórnin er ekki búin að sýna á spilin. Hvar eru sviðsmyndirnar? Hvenær setur hún þær á borðið? Ég veit að fulltrúar Viðreisnar hafa kallað eftir sviðsmyndagreiningu og upplýsingum einmitt um þetta en engin svör fengið af hálfu ríkisstjórnarflokkanna og ráðherra ríkisstjórnarinnar.

Það er umhugsunarefni að við vitum í raun ekkert hvert planið er næstu daga og næstu vikur, næstu mánuði. Við erum jú að reyna að koma ákveðnum aðgerðum í verk. Og vel að merkja, brúarlánin sem voru kynnt fyrir sex eða sjö vikum, eru vart farin af stað. Það voru fréttir í dag um það. Samt er þetta byrjað að virka úti í heimi, til að mynda í 500 milljóna manna hagkerfi sem er Evrópusambandið, sem var gagnrýnt hér í dag harkalega fyrir það hvað það væri þunglamalegt. Já, já, það er fullt að þar, en þessi 27 ríki hafa þó komið sér saman um risaaðgerðapakka og látið hann byrja að vinna. Hér er ekkert tilbúið hvað þetta varðar. Brúarlánin eru að hökta núna af stað. Ég skil ekki af hverju við erum svona svifasein. Það er ofvaxið mínum skilningi þegar við erum í þessu litla hagkerfi þar sem boðleiðir eiga að vera skýrar.

Ég heyrði af samskiptum Íslendings í dag við ferðaþjónustuaðila á Spáni. Sá Íslendingur hafði leigt hús á Spáni fyrir þremur árum. Ferðaþjónustuaðilinn á Spáni klukkaði hann og sagði: Gott og vel, þetta ástand hefur verið, en hér er planið frá ríkisstjórninni um hvernig við ætlum að opna. Við ætlum reyndar ekki að opna í maí en við stefnum að einhverri dagsetningu í júní og hér er planið frá ríkisstjórninni um hvernig á að opna þessa mikilvægu atvinnugrein Spánverja. Fyrir okkur Íslendinga er hún ein af stóru atvinnugreinunum okkar, atvinnugrein sem væri auðvelt að koma af stað aftur ef við sýnum fram á eitthvert plan hvað þetta varðar. Það er það sem ég kalla eftir í dag. Það vilja allir gera sitt besta, ég geri mér grein fyrir því, en það gengur að mínu mati ekki lengur að við fáum engar sviðsmyndir frá ríkisstjórninni. Ég vil hvetja hana til þess að líta til almannavarnaþríeykisins sem hefur einmitt sýnt á spilin dag eftir dag, ekki þannig að þetta hafi verið eitthvert slump inni á milli, heldur sýndu þau dag eftir dag hvernig á að vinna að markmiðinu og fengu almenning til þess að skilja hvað var í gangi. Þetta þarf íslenska ríkisstjórnin að gera líka. Við erum allt of svifasein í dag. (Forseti hringir.) Ef þetta heldur áfram að vera svona óskýrt þá verður endurræsingin (Forseti hringir.) á hagkerfinu erfiðari, tjónið verður meira og það tjón verður í boði ríkisstjórnarinnar ef hún fer ekki að sýna á spilin strax.