150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[22:44]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Það er full ástæða til að árétta það sem ítrekað hefur komið fram, að það liggur algjörlega fyrir að allur sá kostnaður sem fellur til í heilbrigðiskerfinu vegna Covid-19 verður bættur. Til að tryggja að við séum með nákvæma tölu í þessum efnum hefur öllum heilbrigðisstofnunum verið sett það fyrir að halda þessum kostnaði til haga frá einni viku til annarrar. Honum verður safnað upp í því skyni að bæta stofnunum það sem þar kemur fram.

Það er flókið viðfangsefni sem blasir við stofnununum þegar kúfurinn verður að baki, þ.e. að taka til við verkefni sem hafa beðið en ekki síður að taka til við hefðbundna heilbrigðisþjónustu en tryggja jafnframt að heilbrigðiskerfi okkar geti brugðist hratt og örugglega við þegar og ef faraldurinn lætur aftur á sér kræla.