150. löggjafarþing — 101. fundur,  11. maí 2020.

nauðungarsala.

762. mál
[18:01]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég fagna því að fram sé komið frumvarp um að fresta nauðungarsölum á þessum tímum. Ég er þar meðflutningsmaður og er ánægður með það. Við erum að ganga inn í tímabil, að mínu viti, þar sem menn lenda í fjárhagslegum vandræðum, aðallega vegna atvinnuleysis og gjaldþrota og rekstrarstöðvunar og alls kyns annarra afleiðinga af samkomubanni og því að ferðamenn séu hættir að koma til landsins. Við erum á upphafsreit, við erum á algjörum upphafsreit, ef við miðum þetta við fullnustugerðir eins og aðfarargerðir og nauðungarsölur. Þetta er alls ekkert hafið og ég tel mjög mikilvægt að við byrjum strax á að grípa til aðgerða eins og þeirrar að stöðva nauðungarsölur tímabundið. Ég er alls ekki að tala um að stöðva þær alfarið heldur tímabundið nú á meðan við erum að ganga í gegnum þetta og meðan það er að koma í ljós hversu harkalegt þetta verður og hversu víðtækt og langdregið.

Ég tók því fegins hendi þegar mér var boðið að vera með á þessu frumvarpi. Ég tel að þetta muni hefjast í sumar eða haust, að menn lendi í þessum vandræðum með tilheyrandi kostnaði. Og það þarf líka að taka á því. Eftir efnahagshrunið 2008 lentu menn í óheyrilegum kostnaði áður en þeir brugðust við, þ.e. skuldararnir. Og það þarf líka á einhvern hátt að bregðast við því hvernig við sem samfélag ætlum að taka á því þegar kannski tugir þúsunda manna, heimilisfeðra og heimilismæðra, lenda í því að geta ekki greitt skuldir sínar og þær safna vöxtum og dráttarvöxtum og kostnaði. Þetta mun gerast á næstu vikum og mánuðum og við verðum einhvern veginn að bregðast við þessu. Við verðum einhvern veginn að stemma stigu við þessu. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar verða að taka mið af því, næstu vikur og mánuði, hvernig við ætlum að koma í veg fyrir að fólk sé komið í skuldaklafa áður en litið er við. Það gerðist í hruninu. Skuldir jukust og samkvæmt svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá hv. þm. Ólafi Ísleifssyni, sem hann lagði fram á síðasta þingi, þá voru eftir efnahagshrunið 2008, á næstu árum á eftir, seldar hátt í 10.000 eignir einstaklinga, íbúðarhús, íbúðareignir, og náði atvinnuleysi þó ekki þeim hæðum sem við horfum fram á núna. Ég tel því mjög brýnt að ganga strax í þetta, að stöðva nauðungarsölur.

Stjórnarþingmenn sögðu einhvern tímann í ræðu, þegar ég var að tala um þetta í sambandi við annað óskylt mál, að þær skuldir sem nú væri verið að krefja fólk um, og væru orsök þess að þessar gerðir væru í gangi núna, væru gamlar skuldir, eitthvað sem hefði verið komið löngu fyrir þennan tíma. En það er neyðarástand í samfélaginu og við verðum að bregðast við. Þótt þú hafir skuldað eitthvað í vetur ert þú ekkert færari um að borga það núna eftir þessa nýjustu uppákomu hér, þegar atvinnuleysi eykst hraðari skrefum en nokkru sinni áður hefur sést.

Ég ætlaði að fara yfir þessa fyrirspurn hv. þm. Ólafs Ísleifssonar en það eina sem ég vil minnast á er að nauðungarsölur fóru rólega af stað en á einum til tveimur árum náðu þær hámarki. Þetta er því ekki eitthvað sem gerist í einu vetfangi heldur safnar þetta á sig kostnaði um einhvern tíma áður en þetta kemur svo til kasta lögmanna fyrst og síðan sýslumanna og þeirra sem fullnusta þessar kröfur fyrir kröfuhafana. Ég tel því nauðsynlegt að bregðast strax við og taka sérstaklega á því hvað eigi að gera við fólk sem lendir í miklum skuldaklafa.

Viðbrögð stjórnvalda 2008 voru þau að stofna embætti umboðsmanns skuldara. Ég heyrði ekki neitt fagrar sögur af þeirri ráðstöfun. Það var skjól sem virkaði einhvern smátíma og fólk gekk út úr því, langflestir sem ég hef heyrt í og talað við, alls ekki mjög ánægt. Þetta var frestur og sumir segja að frestur sé á illu bestur en í þessu tilviki stóð fólk uppi með það, þrátt fyrir þessa ráðstöfun, að geta ekki staðið í skilum, mjög margir. Þetta gagnaðist einhverjum. Það þarf einhverjar nýjar aðferðir. Við þurfum að upphugsa einhverjar nýjar aðferðir til að stemma stigu við því að fólk fari mjög illa út úr þessu, sérstaklega ef þetta verður langdregið. Ég er ekki með hugmyndir um það núna en það þarf að stemma stigu við vaxtakostnaði, innheimtukostnaði og því sem hleðst á þessar skuldir algjörlega stjórnlaust í svona árferði. Ég held að það væru raunhæfustu aðgerðirnar sem við gætum fundið upp á núna, að reyna að stemma stigu við því að menn maki krókinn í slíku árferði. Það getur vel verið að ég komi með einhverjar frekari hugmyndir um það hér síðar.