150. löggjafarþing — 101. fundur,  11. maí 2020.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

717. mál
[19:36]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Ég þakka dómsmálaráðherra fyrir að vera hér við umræðuna, ég bað um það, mér er sagt að hún hafi gert það, (Gripið fram í.) hún hefur verið allan tímann, segir hún. Mig langar að nota tækifærið og spyrja hæstv. dómsmálaráðherra hvernig hún nálgast þetta út frá réttindum barna, hvort hún telji að við vinnslu frumvarpsins og framlagningu þess á Alþingi, sé hún að setja réttindi barna í forgang eða muni taka ábendingum um ef svo er ekki.

Í 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sem eru lög á Íslandi, segir, með leyfi forseta:

„Það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar félagsmálastofnanir á vegum hins opinbera eða einkaaðila, dómstólar, stjórnvöld eða löggjafarstofnanir gera ráðstafanir sem varða börn.“

Nú hef ég spurt fyrrverandi hæstv. dómsmálaráðherra um þetta, ég hef spurt forsætisráðherra, ég hef spurt félagsmálaráðherra sem kallar sig barnamálaráðherra en er í rauninni bara barnaverndarráðherra, því að mikið af réttindum barna er á sviði hæstv. dómsmálaráðherra. Ég hef farið út og suður, ég hef talað við forseta Íslands og spurt hann um hvernig hann meti þessa stöðu.

Það er skýrslubeiðni hjá dómsmálaráðherra, sem ætti að vera að vinna að, um réttindi barna og hvar þau er að finna. Ég lagði hana fram á síðasta þingi til forsætisráðherra og það kom svar um að það ætti að beina beiðninni til dómsmálaráðherra. Þetta er nefnilega svolítið á reiki. En eitt er þó víst og mig langar að spyrja hvort hæstv. dómsmálaráðherra sé á sama stað, hvort hún meti það ekki sem svo að henni beri að fylgja 1. tölulið 3. gr. laga um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, um að það sem er barni fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar ýmsir aðilar, m.a. stjórnvöld og löggjafarstofnanir, gera ráðstafanir sem varða börn. Á það ekki við um þegar útlendingalögum er framfylgt eins og þau eru í dag eða þegar ráðherra vinnur frumvarp til að leggja fyrir löggjafarþingið og löggjafarþingið á að fylgja því eftir?

Ég hef rannsakað þetta töluvert núna vegna þess að ég er talsmaður barna fyrir þingflokk Pírata. Allir þingflokkar eru með talsmenn barna, sem þýðir að við höfum lofað því að hafa réttindi barna að leiðarljósi í okkar starfi sem þingmenn. Þegar kemur mál sem varðar börn þá vekjum við athygli á því. Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson er talsmaður barna fyrir Miðflokkinn, held ég. Þetta er á vettvangi Barnaheilla, UNICEF og umboðsmanns barna á Íslandi, þessi þrjú samtök og ríkisstofnanir eru með þetta verkefni, að hvetja þingmenn til að skuldbinda sig til þess að hafa réttindi barna að leiðarljósi í starfi sínu. Þess vegna er ég hérna. Það er rosalega mikilvægt að fá það á hreint frá dómsmálaráðherra hvort hún telji sig ekki bundna af lögum um að það sem er barni fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar stjórnvöld og löggjafarstofnanir gera ráðstafanir varðandi börn.

Hvers vegna nefni ég þetta? Stjórnvaldið, sem er Útlendingastofnun sem heyrir undir dómsmálaráðherra, nýtir ekki heimildir í lögum um að veita börnum sérstaklega undanþágur varðandi málsmeðferð þeirra í hinu og þessu. Stofnunin túlkar það mjög þröngt. Ráðherra gæti alveg gefið yfirlýsingu um að það eigi ekki að túlka það þröngt, það eigi að túlka það vítt. Það er það sem ráðherra getur beint til Útlendingastofnunar.

Þegar ákvarðanir eru teknar af Útlendingastofnun um það hvort vísa skuli fólki úr landi þá hef ég orðið þess áskynja að fyrst er tekin ákvörðun um að vísa foreldrunum úr landi. Svo er sagt: Barnið á heima með foreldrum sínum. Þar af leiðandi er það barni fyrir bestu að fylgja foreldrum sínum út í heim, sama hvort það er til Grikklands eða hvert. Ég hef talað við marga um þetta mál og börn hafa endað með foreldrum sínum að lifa úti í skógi í Frakklandi o.s.frv. Ég spurði sérstaklega út í það í fyrirspurn til hæstv. ráðherra hvort hún eða ráðuneytið viti hvað verður um þessi börn eftir að þeim er vísað úr landi. Þau hafa ekki hugmynd um það. Þau vita ekkert hvað verður um börnin. Þau vita ekki hvort ákvörðunin sem var tekin var barninu fyrir bestu. Það er því farið fram hjá því að setja það sem er barni fyrir bestu ávallt í forgang með því að vísa fyrst foreldrum brott og segja svo að það sé barni fyrir bestu að fylgja foreldrunum, í stað þess að horfa fyrst á barnið. Það segir líka í lögum um réttindi barnsins á Íslandi að réttindin eru óháð stöðu foreldranna, réttindi barnsins eru samt til staðar. Það verður að byrja á barninu, ég get ekki lesið það öðruvísi. Ég hef talað við UNICEF, ég hef talað við umboðsmann barna og ég vil vita hvað hæstv. ráðherra finnst um framkvæmd laganna eins og þau eru í dag. Í dag er komist fram hjá því að hugsa um það sem er barni fyrir bestu, sem er vísað út í óvissuna, ég tala nú ekki um í því tilfelli þegar barn hefur fengið stöðu flóttamanns og við vitum að um er að ræða flóttafólk og það á að vísa þeim út í þá hroðalegu stöðu sem er í Grikklandi í dag.

Þetta varðar ráðherra sem handhafa framkvæmdarvaldsins, varðar réttindi barna, sem forseti lýðveldisins hefur afhent ráðherra það vald að fara með, með sinni undirskrift. Forsætisráðherra samþykkti það að sjálfsögðu og svo formaður flokks hæstv. ráðherra, en það er forseti Íslands sem skrifar undir það að fela ráðherra það vald, framkvæmdarvaldið. Það segir í lögunum að það sem barni er fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang, m.a. þegar stjórnvöld og löggjafarstofnanir gera ráðstafanir sem varða börn. Þetta er fyrri spurningin.

Síðari spurningin varðar löggjafarstofnunina. Núna leggur ráðherra fyrir löggjafarstofnun frumvarp sem verður að lögum, ég tel reyndar að þetta verði ekki að lögum, en hér er lagt til að frumvarpið verði að lögum. Þegar kemur að löggjafarstofnuninni er hæstv. ráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, líka hv. þingmaður og kemur líklega til með að greiða málinu atkvæði sitt ef það fer svo langt. Sem þingmaður, hverju telur hv. þingmaður sig vera bundinn sem hluti af löggjafarstofnun sem á að fylgja lögum um réttindi barnsins sem segja að það sem er barni fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar m.a. löggjafarstofnanir gera ráðstafanir sem varða börn? Þegar það er sannarlega flóttabarn sem kemur hingað til landsins, mun þetta frumvarp um vernd flóttabarns setja réttindi þess í forgang? UNICEF er alveg skýrt með það að um leið og barnið er komið inn fyrir landamæri Íslands ná íslensk lög yfir barnið. Er ráðherra og þingmaður sammála því?