150. löggjafarþing — 101. fundur,  11. maí 2020.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

717. mál
[19:46]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Hæstv. ráðherra segir að barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna hafi verið leiðarljós við samningu útlendingalaganna. Samt veit ég að framkvæmdin hefur verið þannig að réttindi barnsins hafa ekki verið í forgangi. Eins og dómsmálaráðherra segir þetta hljómar það miklu betur en ég bara veit þetta, ég er búinn að kynna mér málið, er búinn að tala við þá aðila sem sinna barnaverndarmálum á Íslandi og staðan er ekki þannig. Það er ekki tekin afstaða til barnsins og meira að segja þegar dómstólar eiga að gera það í dómsmálum þá er það ekki heldur gert. Það er ekki tekin sjálfstæð afstaða til réttinda barnsins, hvað sé barni fyrir bestu. Það er brotið á öllum stigum valdsins hérna á Íslandi. Það er þess vegna sem það er sérstaklega mikilvægt að fá skýr svör.

En ef ég afmarka mig við spurningarnar sjálfar. Ég spyr hvort ráðherra meti það ekki sem svo að við framfylgd útlendingalaga og eftirlit og yfirumsjón með þeim málaflokkum sem forseti Íslands hefur skrifað upp á að hún hafi vald yfir í umboði þjóðarinnar, þá beri henni við framkvæmd laganna að hafa 1. mgr. 3. gr. laga um réttindi barnsins til hliðsjónar:

„Það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar félagsmálastofnanir á vegum hins opinbera eða einkaaðila, dómstólar, stjórnvöld eða löggjafarstofnanir gera ráðstafanir sem varða börn.“

Telur hún sig ekki sem ráðherra bundna af þessum lögum þegar kemur að framkvæmd útlendingalaga? Telur hún ekki að þegar verið er að breyta útlendingalögum skuli hún hafa þetta sjónarmið að leiðarljósi, líka sem þingmaður sem fer með löggjafarvald?