150. löggjafarþing — 101. fundur,  11. maí 2020.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

717. mál
[20:38]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir andsvarið. Það er mjög ómálefnalegt að reyna að láta líta svo út hér í þingsal og í fjölmiðlum að við endursendum fólk ekki til Grikklands þegar það liggur alveg ljóst fyrir að við erum að því. Þetta er blekking. Við erum að senda börn og fullorðna til Grikklands, fólk sem hefur fengið þar svokallaða vernd. Hæstv. dómsmálaráðherra er fullkunnugt um ástandið þar og í Búlgaríu og Ungverjalandi. Það er ekki vernd að búa í flóttamannabúðum þar, það er engin vernd. Þó að það kunni að vera að viðkomandi séu komin með stöðu flóttamanns og svo sé metið að viðkomandi hafi fengið vernd þá er þetta ekki vernd.

Í frumvarpinu er verið að koma í veg fyrir að heimilt sé að framkvæma sjálfstæða skoðun á þessum tiltekna hópi sem flokkast sem verndarmál. Það má vel vera að hæstv. dómsmálaráðherra þyki þetta ómálefnaleg umræða. Þá verður bara svo að vera. Þetta eru ekki bara tölur á blaði, hæstv. ráðherra, þetta er fólk sem kemur hingað og leggur allt sitt líf undir. Það leikur sér enginn að því. Við verðum að hætta að fara með þessi mál eins og um excel-skjal sé að ræða, að þetta snúist allt um að fækka vondu málunum, erfiðu málunum. Þetta snýst ekki um það, þetta snýst um að veita fólki vernd sem þarfnast verndar.