150. löggjafarþing — 101. fundur,  11. maí 2020.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

717. mál
[20:40]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Málaflokkurinn snýst um fólk. Þess vegna er hann viðkvæmur og þess vegna er hann líka stór og merkilegur. Við þurfum að taka vel á málaflokknum í heild sinni af því að hann snýst um fólk og getur verið afar viðkvæmur. Og hvernig gerum við það? Við gerum það ekki bara með því að horfa á excel-skjal heldur með því að átta okkur á því hvernig við getum hraðað meðferð mála til að fólk fái fyrr svör, hvort sem þau eru jákvæð eða neikvæð, til þess að það lifi skemur í óvissu og geti flýtt skjótri og árangursríkri aðlögun hér á landi fái það alþjóðlega vernd. Það er mikilvægt að við náum einhverri málefnalegri umræðu um þennan málaflokk.

Ég sagði að það væri ómálefnalegt að senda ráðherra þann tón að hún þyrfti að láta einhvern kenna sér um málaflokkinn. Það var það sem ég sagði að væri ómálefnalegt. Við erum hér með stóran málaflokk sem kostar 4 milljarða. Ég vil nýta þá fjármuni vel fyrir það fólk sem þarf raunverulega og fyrst og fremst á vernd að halda. Ég ítreka að það er alltaf hægt að taka mál í efnismeðferð þrátt fyrir þessar breytingar. Ef fólk á það á hættu að verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð þar sem það er komið með vernd má taka málið til efnismeðferðar. Ég hef aldrei ætlað mér að villa um fyrir fólki, um það hvernig kerfið okkar er, heldur reyni ég að tala um það af skynsemi og skýrleika til þess einmitt að fólk átti sig á því hvernig kerfið okkar er, hvernig það virkar, og hvaða flokka við erum að tala um. Stundum er algerlega óskiljanlegt fyrir venjulegt fólk að skilja hvernig kerfið okkar er en á það er ég að reyna að varpa ljósi. Við erum með eitt kerfi sem á að þjónusta vel þá sem þurfa á raunverulegri vernd að halda og eru að flýja ómannúðlegar aðstæður og þar verðum við að gera betur. Þar er stjórnsýslan orðin allt of þung og svörin allt of sein að koma fram.