150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

störf þingsins.

[13:45]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Já, samráðið mætti að sönnu vera meira og markvissara. Stundum finnst manni eins og orð hæstv. fjármálaráðherra sem hann mælti í byrjun þessarar efnahagsaðgerða, að betra væri að gera meira en minna, séu hálfgerð öfugmæli og ríkisstjórnin hafi það að mottói að gera ævinlega heldur minna en meira.

Atvinnuleysisvofan er að skjóta upp kollinum og hún er komin á kreik og það er skylda okkar sem hér störfum að bregðast við því hratt og vel því að þetta er ógurlegur vágestur. Manni finnst stundum að skilningurinn á þessum vanda mætti jafnvel vera dýpri og meiri. Jafnvel á ólíklegustu og óheppilegustu stöðum verður maður var við ákveðinn misskilning á því hvað atvinnuleysi hefur í för með sér. Maður heyrir jafnvel bollaleggingar óheppilegustu aðila um að hér sé verið að greiða laun fyrir að gera ekki neitt eins og um sé að ræða einhvers konar iðjuleysisbætur frekar en atvinnuleysisbætur.

Ég vil þó nota þetta tækifæri, herra forseti, til að draga fram það sem vel hefur tekist í þessari vinnu og sem ástæða er til að fagna. Það var sem sé samþykkt hér tillaga í gær frá fulltrúa okkar jafnaðarmanna í efnahags- og viðskiptanefnd, Oddnýju G. Harðardóttur, um að fjölskyldur sem þurfa að treysta á grunnatvinnuleysisbætur fái hærri greiðslur með hverju barni, þ.e. þær hækki um 6% í stað 4% af grunnatvinnuleysisbótum. Fyrir vikið fá atvinnulausir 17.370 kr. á mánuði með hverju barni í stað 11.580 kr. Við jafnaðarmenn teljum auðvitað að það (Forseti hringir.) þurfi að gera miklu betur, það þurfi mæta tekjufalli heimilanna miklu betur, en við fögnum því að stjórnarmeirihlutinn skuli hafa (Forseti hringir.) fallist á tillögu okkar í stað þess að svæfa hana og reyna að gera hana að sinni. Þannig eigum við að vinna. Þannig vill almenningur, herra forseti, að við vinnum.