150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

725. mál
[14:31]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Líkt og kemur fram í nefndaráliti fékk nefndin nokkurn fjölda umsagna og einnig gesta á sinn fund.

Frumvarpið er liður í aðgerðum stjórnvalda vegna þeirra efnahagslegu áfalla sem heimsfaraldur Covid-19 hefur í för með sér og kemur til viðbótar ýmsum lagabreytingum sem Alþingi hefur þegar samþykkt.

Með frumvarpinu er annars vegar lagt til að þeir rekstraraðilar, einstaklingar eða lögaðilar, sem þurftu að loka eða láta af starfsemi vegna sóttvarnaráðstafana á gildistíma auglýsingar nr. 243/2020 um takmörkun á samkomum vegna farsóttar geti sótt um sérstakan lokunarstyrk að nánari skilyrðum uppfylltum. Hins vegar er lagt til að rekstraraðilum sem hafa rekstrartekjur á ársgrundvelli á bilinu 9 til 500 millj. kr. og hafa orðið fyrir a.m.k. 40% tekjufalli standi til boða stuðningslán á hagstæðum kjörum með ríkisábyrgð að uppfylltum nánari skilyrðum.

Í 1. gr. frumvarpsins kemur m.a. fram að lögin gildi um rekstraraðila sem bera ótakmarkaða skattskyldu hér á landi samkvæmt 1. eða 2. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Í nefndinni hefur komið til umræðu hvort með þessari afmörkun gildissviðsins sé komið í veg fyrir að félög, sem notfæra sér svokölluð skattaskjól til að forðast skattgreiðslur sem með réttu ættu að renna til íslenska ríkisins, njóti þeirra fyrirgreiðsluúrræða sem í frumvarpinu felast.

Stuðningsúrræði frumvarpsins takmarkast við þá rekstraraðila sem eru heimilisfastir hér á landi og greiða skatta sína og gjöld hér. Meiri hlutinn telur þetta liggja ljóst fyrir enda felst í skilyrðinu um ótakmarkaða skattskyldu að viðkomandi rekstraraðila beri að meginreglu að greiða tekjuskatt hér á landi af öllum skattskyldum tekjum sínum, hvaðan sem þeirra er aflað. Rekstraraðili sem ber ótakmarkaða skattskyldu hér á landi en flytur tekjur úr landi til að forðast skattgreiðslur hér, eða lætur hjá líða að gera grein fyrir tekjum sínum erlendis, gerir það í trássi við lög. Eðli málsins samkvæmt geta aðilar sem uppvísir hafa orðið að slíkum skattundanskotum ekki notið stuðningsúrræða stjórnvalda og telur meiri hlutinn að nægilega sé fyrir það girt með 4. tölulið 4. gr. og 6. tölulið 10. gr. frumvarpsins.

Meðal breytingartillagna meiri hlutans eru viðbætur við skilyrði til að nýta úrræðin sem kveðið er á um í frumvarpinu. Leggur meiri hlutinn m.a. til að áréttað verði að rekstraraðili hafi staðið skil á svokölluðum CFC-skýrslum þegar það á við og að bætt verði við skilyrði um skil á upplýsingum um raunverulega eigendur. Þessum tillögum er m.a. ætlað að vera til leiðbeiningar um það að hvaða þáttum eftirliti með framkvæmd laganna verði helst beint.

En fyrst að lokunarstyrkjunum: Meiri hlutinn bendir á að síðan þetta frumvarp var lagt fram hefur tekið gildi ný auglýsing um takmörkun á samkomum vegna farsóttar. Með auglýsingunni er lokun tiltekinnar starfsemi framlengd umfram það sem ljóst var þegar frumvarpið var lagt fram. Hlýtur það að kalla á endurskoðun á II. kafla frumvarpsins, einkum þeim hámarksfjárhæðum lokunarstyrks sem standa til boða aðilum sem ljóst er að þurfa áfram að hafa lokað. Þegar þetta mál er afgreitt úr nefndinni liggur hins vegar ekki ljóst fyrir hversu lengi sú viðbótarlokun sem auglýsingin mælir fyrir um varir. Í 2. mgr. 2. gr. auglýsingarinnar kemur fram að stjórnvöld endurmeti þörf á takmörkunum eftir því sem efni standa til, m.a. með tilliti til þess hvort unnt sé að aflétta takmörkunum fyrr en gildistíminn segir til um.

Þegar þessi efni skýrast telur meiri hlutinn ljóst að koma verði til móts við þá aðila sem sæta þurftu lokun umfram gildistíma auglýsingar nr. 243/2020 sem II. kafli þessa frumvarps miðast við. Til greina kemur að það verði gert með breytingu á þessum lögum, verði frumvarpið samþykkt, og væntir meiri hlutinn þess að nefndin eigi samráð við ráðuneytið um slíka breytingu þegar þar að kemur.

Að öðru leyti er lagt til að við 4. tölulið 4. gr., um skilyrði fyrir lokunarstyrkjum, bætist ákvæði um skil á ársreikningum til ársreikningaskrár og um skil á upplýsingum um raunverulega eigendur í þeim tilvikum sem það á við. Sambærilegar breytingar eru lagðar til á 6. tölulið 10. gr. sem lýtur að stuðningslánum. Auk þess að kveðið verði á um skil á ársreikningum og upplýsingum um raunverulega eigendur í ákvæðinu leggur meiri hlutinn til að sérstaklega verði tekið fram að umsækjandi um stuðningslán hafi staðið skil á skýrslum um eignarhald á CFC-félagi ef umsækjandi fellur undir gildissvið reglugerðar nr. 1102/2013, um skattlagningu vegna eignarhalds í lögaðilum á lágskattaríkjum, sem sett er með heimild í 7. mgr. 57. gr. a laga um tekjuskatt. Með því að gera kröfu um skil á upplýsingum um raunverulega eigendur og CFC-skýrslur þegar það á við er ætlun meiri hlutans ekki síst að leggja áherslu á að við eftirlit verði litið til þess að umsækjendur hagi skilum sínum að öllu leyti til samræmis við ótakmarkaða skattskyldu sína hér á landi, samanber gildissviðsákvæði frumvarpsins, sem ég vék að hér áðan, og hagi rekstri sínum og skilum á opinberum gjöldum í samræmi við það.

Auk framangreinds leggur meiri hlutinn til breytingu á 8. tölulið 10. gr. frumvarpsins. Við umfjöllun nefndarinnar var m.a. gagnrýnt að ákvæðið væri opið og gæfi tilefni til matskenndra ákvarðana. Meiri hlutinn leggur til að fram verði tekið að ráðherra skuli í reglugerð gera grein fyrir þeim hlutlægu viðmiðum sem leggja skuli til grundvallar mati á rekstrarhæfi aðila. Væntir meiri hlutinn þess að viðmiðin verði skýrt skilgreind í reglugerð og að þannig verði svigrúm til túlkunar og töku matskenndra ákvarðana um rekstrarhæfi lágmarkað eftir fremsta megni.

Í nefndaráliti meiri hlutans er bent á að lokunarstyrkur og stuðningslán séu eðlisólík úrræði. Lokunarstyrk er sérstaklega ætlað að bæta fyrir skaða afmarkaðs og skýrt skilgreinds hóps sem ætla má að hafi öðrum fremur orðið fyrir mjög miklu tekjufalli á ákveðnu tímabili vegna beinna tilmæla sóttvarnayfirvalda. Stuðningslán eru almenn aðgerð sem ætlað er að koma til aðstoðar minni rekstraraðilum sem hafa orðið fyrir drjúgu tekjufalli samhliða breyttum aðstæðum í efnahagslífinu. Vegna þessa er ekki rétt að tengja fjárhæðamörk þessara úrræða saman með þeim hætti sem lagt er til í frumvarpinu enda gæti það leitt til óréttlátrar niðurstöðu fyrir aðila sem rök mæla með að eigi að geta nýtt bæði úrræðin til fulls. Því er lagt til að lokunarstyrkur skerði ekki mögulegt stuðningslán.

Meiri hlutinn leggur til nokkrar breytingar á skilyrðum og fjárhæðum stuðningslána. Í fyrsta lagi er lagt til að hámarksvelta samkvæmt 2. tölulið 10. gr. hækki úr 500 millj. kr. í 1.200 millj. kr. til samræmis við skilgreiningu á litlum félögum samkvæmt lögum um ársreikninga.

Í öðru lagi leggur meiri hlutinn til að hámarksfjárhæð stuðningslána, samanber 11. gr. verði 40 millj. kr. í stað 6 millj. kr. Við umfjöllun nefndarinnar var bent á að 6 millj. kr. dygðu mörgum rekstraraðilum skammt og að nauðsynlegt væri að hækka fjárhæðina. Meiri hlutinn telur þó æskilegt að lánveitendur, viðskiptabankarnir, beri einhverja áhættu af hærri lánum til að stuðla að varfærum og ábyrgum lánveitingum. Í því skyni leggur meiri hlutinn til að ríkissjóður ábyrgist að fullu stuðningslán að 10 millj. kr. en aðeins 85% af þeirri fjárhæð stuðningsláns sem er umfram 10 millj. kr. Til samræmis við þessa breytingu leggur meiri hlutinn til að í 13. gr. frumvarpsins komi fram að lánastofnunum verði óskylt að veita hærri stuðningslán en sem nemur 10 millj. kr., jafnvel þótt umsækjandi uppfylli skilyrði 10. gr. frumvarpsins og hámarkslán til hans samkvæmt 11. gr. sé hærra en 10 millj. kr. Áætlað umfang ábyrgðar ríkissjóðs á stuðningslánum, nái breytingartillögur meiri hlutans fram að ganga, er um 40 milljarðar kr. En rétt er að vekja athygli á því að þetta er töluverðri óvissu háð.

Í 2. mgr. 12. gr. frumvarpsins er lagt til að rekstraraðili skuli staðfesta við umsókn sína um stuðningslán að hann uppfylli skilyrði 10. gr., eftir atvikum eins og þau kunna að verða útfærð í reglugerð ráðherra, að upplýsingar sem hann skilar og liggja til grundvallar ákvörðun fjárhæðar samkvæmt 11. gr. séu réttar og að honum sé kunnugt um að það geti varðað álagi, sektum eða fangelsi að veita rangar eða ófullnægjandi upplýsingar.

Meiri hlutinn telur nauðsynlegt til að tryggja skilvirka framkvæmd og takmarka flækjustig að ákvörðun um lánveitingu geti byggst á staðfestingu rekstraraðila samkvæmt 2. mgr. 12. gr. Ríkisábyrgð á stuðningsláni falli þar með ekki niður gagnvart lánveitanda þótt síðar komi í ljós að umsækjandi hafi veitt rangar upplýsingar nema lánastofnun hafi bersýnilega mátt vera ljóst að umsókn byggði á annarlegum forsendum. Vegna þessa leggur meiri hlutinn til breytingu á 12. gr.

Ráðuneytið benti nefndinni á að Skatturinn byggi yfir upplýsingum sem nauðsynlegt gæti verið að hafa hliðsjón af vegna afgreiðslu lánastofnunar á umsókn um stuðningslán. Í 5. mgr. 7. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir því að Skatturinn miðli til lánastofnunar afmörkuðum upplýsingum um ákvarðaða fjárhæð lokunarstyrks. Ljóst þykir að frekari upplýsinga er þörf til grundvallar mati á veitingu stuðningsláns svo sem um hvort umsækjandi hafi verið á launagreiðendaskrá, skattskyldar tekjur hans og launagreiðslur á árinu 2019. Að auki er þörf fyrir að mælt sé fyrir um að Skattinum sé heimilt að miðla samkvæmt beiðni upplýsingunum til umsjónaraðila miðlægrar þjónustugáttar. Ráðgert er að koma á fót umsóknargátt á vefnum Ísland.is, en umsjónaraðili hans er fjármála- og efnahagsráðuneytið.

Með tilliti til ábendinga ráðuneytisins leggur meiri hlutinn til að Skattinum verði heimilað samkvæmt beiðni að miðla til umsjónaraðila miðlægu þjónustugáttarinnar og viðkomandi lánastofnunar, sem samið hefur við Seðlabanka Íslands, upplýsingum sem eru tiltækar í gagnagrunnum Skattsins og nauðsynlegar teljast til að meta hvort umsækjandi um stuðningslán uppfylli skilyrði fyrir lánveitingunni og hver fjárhæð hennar eigi að vera.

Í 2. málslið 13. gr. kemur fram að lánstími stuðningslána skuli vera 30 mánuðir. Í 16. gr. kemur fram að lán ásamt vöxtum skuli endurgreiðast með 12 jöfnum afborgunum á síðustu 12 mánuðum lánstímans.

Í ljósi óvissunnar um hversu langvarandi sú efnahagslægð verður, sem liggur að baki frumvarpinu, telur meiri hlutinn æskilegra að nákvæmar reglur um lánstíma komi fram í reglugerð ráðherra fremur en í lagatexta. Við mótun slíkrar reglu í reglugerð telur meiri hlutinn m.a. rétt að til skoðunar komi hvort veitt verði svigrúm við ákvörðun lánstíma og hvort undir vissum kringumstæðum megi framlengja lánstímann ef gild rök mæla með því.

Meiri hlutinn leggur til orðalagsbreytingu á 13. gr. frumvarpsins þannig að þar komi fram að lánstími stuðningslána skuli ekki vera skemmri en 30 mánuðir og að nánar skuli kveðið á um lánstímann í reglugerð.

Með þeim breytingum sem meiri hlutinn leggur til, annars vegar um fjárhæð stuðningslána og hins vegar fyrirkomulag ríkisábyrgðar, sem eykur fjárhagslega áhættu lánveitenda, telur meiri hlutinn sanngjarnt að á lánsfjárhæð sem er umfram fulla ríkisábyrgð verði lánveitanda heimilt að reikna hóflegt álag. Meiri hlutinn leggur til að við 15. gr. frumvarpsins bætist ný málsgrein þar sem fram komi að samið skuli um álagið, sem endurspegla skuli fjárhagslega áhættu lánveitanda og kostnað hans við fjármögnun, í samningum Seðlabanka og viðkomandi lánveitanda.

Samkvæmt viðurlagaákvæði frumvarpsins liggur allt að tveggja ára fangelsi við alvarlegum brotum gegn lögunum sem framin eru af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Meiri hlutinn telur rétt að refsirammi slíkra brota verði hækkaður til samræmis við önnur alvarleg brot á sviði fjármunaréttar, svo sem fjárdrátt og fjársvik samkvæmt 247. og 248. gr. almennra hegningarlaga, og innherjasvik samkvæmt 123., samanber 146. gr. laga um verðbréfaviðskipti. Með þessu vill meiri hlutinn undirstrika alvarleika þess að aðilar misnoti, gegn betri vitund, þau úrræði stjórnvalda sem ætluð eru til að hjálpa undir með rekstraraðilum sem hafa orðið fyrir miklu tekjufalli vegna heimsfaraldursins. Leggur meiri hlutinn til að refsiramminn samkvæmt 21. gr. frumvarpsins verði allt að sex ára fangelsi.

Fyrir nefndinni komu fram athugasemdir við að ekki væri mögulegt að skuldabréf vegna stuðningslána gætu verið rafræn. Mikilvægt væri að bjóða upp á þann kost að skuldabréfin yrðu rafræn, ekki hvað síst á meðan kórónuveirufaraldurinn gengi yfir auk þess sem það gæti hraðað mjög afgreiðslu lánastofnana á lánunum. Þess vegna eru lagðar til nokkrar breytingar á frumvarpinu sem er ætlað að tryggja að mögulegt verði að gefa út rafræn skuldabréf við afgreiðslu stuðningslána.

Líkt og að framan greinir leggur meiri hlutinn til breytingu þess efnis að hámarksfjárhæðir stuðningslána verði 40 milljónir í stað 6 og að ríkissjóður ábyrgist 85% af stuðningsfjárhæðinni umfram 10 milljónir. Hvað varðar þau lán sem eru hærri en 10 milljónir er verulegum vafa undirorpið hvort ákvörðun um lánveitingu sé stjórnvaldsákvörðun og hvort um hana gildi stjórnsýslulög. Um þau lán gilda um margt önnur sjónarmið þar sem lánastofnun ber hluta áhættunnar og er því óskylt að veita þau þótt umsækjandi uppfylli skilyrði 10. gr. frumvarpsins.

Meiri hlutinn telur mikilvægt að lánastofnunum verði kleift að taka ákvörðun um lánveitingar þar sem þær bera hluta áhættunnar á eigin forsendum og án þess að vera bundnir af þeim málsmeðferðar- og efnisreglum sem stjórnsýslulög mæla fyrir um. Meiri hlutinn telur því æskilegt að við frumvarpið bætist grein þar sem fram komi að ákvæði stjórnsýslulaga gildi ekki um stuðningslánin, samanber III. kafla frumvarpsins, og leggur til breytingartillögu þess efnis. Með sömu rökum telur meiri hlutinn rétt að undanskilja framangreindar ákvarðanir ákvæðum upplýsingalaga og laga um umboðsmann Alþingis.

Meiri hlutinn bendir á að með því að taka fram að stjórnsýslulög gildi ekki um stuðningslán er einnig skýrt að ákvarðanir um stuðningslán sæti ekki stjórnsýslukæru samkvæmt VII. kafla laganna. Eftir atvikum kunna slíkar ákvarðanir hins vegar að sæta málskoti til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki, samanber 19. gr. a laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002.

Herra forseti. Ég hef farið hér yfir helstu atriði nefndarálitsins sem er nokkuð lengra. Auk nefndarálitsins, sem er á þskj. 1380, fylgja með breytingartillögur á þskj. 1281 sem ég bendi á. Að öðru leyti vísa ég í hið skriflega nefndarálit um það sem ekki hefur komið fram hér.

Undir nefndarálit þetta rita hv. þingmenn Jón Steindór Valdimarsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson með fyrirvara og munu þeir gera sérstaka grein fyrir þeim fyrirvörum í ræðu hér á eftir. Ég bendi á að auk þess er nokkur efnisleg umfjöllun um þá fyrirvara með nefndarálitinu.

Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem lagðar hafa verið fram á því þingskjali sem ég vitnaði til áðan. Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Óli Björn Kárason, Jón Steindór Valdimarsson, með fyrirvara, Brynjar Níelsson, Bryndís Haraldsdóttir, Ólafur Þór Gunnarsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, með fyrirvara, og Willum Þór Þórsson.