150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

dómstólar o.fl.

470. mál
[18:44]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég tek undir það að það ferli sem fór í gang á sínum tíma, og ég hef nefnt hér í ræðu — að það sem hv. þingmanni, þá sem hæstv. dómsmálaráðherra, var boðið upp á var listi upp á 15 manns þó að 3‰ hafi verið milli aðila í 15. og 16. sæti. Það var ómálefnalegt sem kom frá dómnefndinni hvað það varðar. En það hæfisferli sem fer í gang — ráðherra getur, ég var að lesa lögin um það hvernig þetta er, með reglugerð lagað það ferli. Ráðherra er í lófa lagið að laga það ferli, fyrir fram og núna þá, ef það er ekki nógu gott. Það er enn ákveðin dreifing á valdi hvað það varðar að ráðherra hefur það vald samkvæmt lögunum að laga þær brotalamir sem hv. þingmaður er að nefna og við ræddum þegar hún var hæstv. dómsmálaráðherra, um þessar skipanir. Varðandi gegnsæi, að upplýsa um eignarhald í fyrirtækjum eða slíkt — við erum hér á þingi með miklu víðtækari skyldur um gegnsæi, miklu víðtækari en þetta. Inn á Alþingi velst alls konar fólk, mjög breiður hópur fólks, úr öllum geirum samfélagsins, lögmenn, ekki lögmenn; efnahagsstaða fólks er mismunandi, menntun mismunandi, en samt erum við meira að segja að upplýsa um skuldir okkar, það er það nýjasta sem er komið inn. Ég sé ekki hvernig það að fólk þurfi að upplýsa um þessa mjög takmörkuðu hluti, um eignarhlut í fyrirtækjum, aukastörf, eigi að þrengja þennan hóp það mikið að það sé eitthvert vandamál. Ég myndi frekar segja að það væri kostur en hitt, en alla vega ekki til trafala. (Forseti hringir.) Hvað segir hv. þingmaður um það í ljósi þess að við þingmenn(Forseti hringir.) þurfum að upplýsa miklu meira um okkar hagi?