150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

fjarskipti.

775. mál
[20:02]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Mig langar að byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta veigamikla frumvarp sem ég hef ekki náð að lesa mig í gegnum enda er það mjög umfangsmikið, eins og ráðherra fór yfir. Ég er kannski á svipuðum slóðum og hv. þm. Rósa Björk Brynjólfsdóttir sem var hér á undan mér og velti sérstaklega fyrir mér þjóðaröryggismálunum. Ég veit að í þessu frumvarpi er margt mjög gott og mikilvægt. Eins og ég segi fagna ég mjög að það sé komið fram.

Ég hef í nokkurn tíma haft ákveðnar áhyggjur af netöryggismálum okkar sem þjóðar. Það er gott að Oxford-háskóli var fenginn til að gera þessa úttekt. Þar voru einar 120 ráðleggingar til úrbóta og eins og ráðherra kom ágætlega inn á í andsvari er auðvitað búið að gera hluta af því með okkar fjarskiptastefnu og með því að taka upp Evrópureglur um þetta.

Ég hef líka haft dálitlar áhyggjur af því, og ráðherra kom reyndar aðeins inn á það, hversu viðamikill málaflokkurinn er og snertir mörg ráðuneyti og margar stjórnsýslueiningar. Þá verður maður alltaf aðeins hræddur af því að einhvern veginn hættir stjórnsýslunni til að festast aðeins í sílóum. Til að mynda í ráðleggingum Oxford-háskóla var sérstaklega talað um menntun og fræðslu á sviði netöryggismála, bæði mikilvægi þess að hér væri til staðar öflugt og gott háskólanám á því sviði en ekki síður endurmenntun og námskeið. Ég ímynda mér að það falli undir hæstv. menntamálaráðherra þannig að það er mikilvægt að sú vinna skili sér inn í viðkomandi ráðuneyti.

Svo eru netöryggismálin og netglæpir nýtt form af glæpastarfsemi sem heyrir þá mikið undir dómsmálaráðuneytið og lögregluna okkar og þess vegna er mjög mikilvægt að netöryggissveit geti einhvern veginn unnið með alla málaflokkana.

Varðandi umræðuna um 5G-háhraðanetið sjáum við — nú hef ég starfað í alþjóðanefndum þingsins og unnið mikið með Færeyingum og Grænlendingum á sviði Vestnorræna ráðsins. Þar eigum við mjög uggvænlegt dæmi um það að færeyskum ráðamönnum hafi hreinlega verið hótað. Á Grænlandi er mjög mikill áhugi á uppbyggingu alls konar innviða. Við erum norðurslóðaríki og fjarskipti á norðurslóðum eru gríðarlega mikið öryggismál, þau eru mikilvæg til að tryggja góða búsetu áfram á norðurslóðum.

Ég vona að hæstv. ráðherra taki því ekki þannig að ég sé hér með að gagnrýna frumvarpið. Ég er í rauninni bara að hvetja okkur í þessum þingsal og þá sérstaklega hv. umhverfis- og samgöngunefnd til að fara mjög ítarlega og vel yfir málið. Ég velti hreinlega fyrir mér hvort ekki séu jafnframt ákveðnir snertifletir við hv. utanríkismálanefnd. Alveg eins og hæstv. ráðherra kom inn á er þetta líka þjóðaröryggismál. Ég ræddi þetta aðeins í umræðum við hæstv. utanríkisráðherra þegar hann flutti skýrslu sína hér í síðustu viku. Það leynist engum hversu stórt og mikilvægt þetta mál er og við heyrum það í kringum okkur. Ég er ánægð með að heyra hæstv. ráðherra tala sérstaklega um að við munum fylgja Norðurlöndunum, okkar helstu nágrannalöndum. Ég heyrði að hæstv. utanríkisráðherra gerði það líka og ég held að það sé gott partí til að vera í, ef ég má orða það með þeim hætti. Við erum í alls konar alþjóðasamstarfi og netöryggismál koma mjög reglulega upp en það er víðfeðmt fjölþjóðasamfélag og þegar um varnar- og öryggishagsmuni þjóðarinnar er að ræða eru alltaf einhver takmörk fyrir því hvernig hægt er að setja það inn í slíkt fjölþjóðlegt samstarf. Mér finnst vettvangur Norðurlanda vera góður vettvangur til að taka þessa umræðu og mikilvægt að fylgjast með því sem þar er að gerast. Þar er það bara þannig, svo maður tali blákalt, sem maður getur séð á fréttamiðlum að þar hafa sérsveitir eða herir, einhverjar slíkar stofnanir á þessum Norðurlöndum, varað sérstaklega við kínverska risanum Huawei og óttast hann. Stjórnvöld hafa eftir því sem ég best veit ekki tekið neina ákvörðun um annað en að þetta sé eðlilegt. Ég veit að þessir aðilar eru hvað fremstir í þróun á slíkum búnaði og þar af leiðandi hafa fjarskiptafyrirtækin valið hugbúnað frá þeim. Eðlilega velur fyrirtæki á markaði það sem er best, en þess vegna held ég að það sé nauðsynlegt að hafa einhver ákvæði og tryggja að lög og reglur okkar gildi ávallt og að fjarskiptakerfi okkar sé ekki hægt að nota í einhverjum annarlegum tilgangi.

Ég vildi bara nefna þetta. Ég held að við þurfum að fara betur yfir þessa umræðu. Mig minnir að farið hafi verið í úttektina hjá Oxford-háskóla um það leyti sem ég kom inn á þing, haustið 2016, kannski 2017. Þá vissum við alveg að við vorum aftarlega á merinni hvað netöryggi varðaði. Við höfum verið framarlega hvað varðar þróun í að nýta okkur fjarskipti en ekki með öryggið. Ég efast ekki um að þær aðgerðir sem við höfum farið í alveg á síðustu misserum séu til mikilla bóta. Vandamálið er hins vegar að þessi heimur þróast svo ofboðslega hratt að við þurfum að gera það líka til að fylgja eftir því sem þarna er að gerast.

Hæstv. ráðherra kom aðeins inn á það, og ég ræddi það líka aðeins við utanríkisráðherra, að það er svo mikilvægt að við tryggjum að hér sé stofnun, það getur verið netöryggissveit, aðilar hjá lögreglunni eða eitthvað slíkt, sem hafi sambærilegar heimildir og sérsveitir erlendis. Ég er auðvitað að vísa í það að við erum herlaus þjóð og ég er alveg stolt af því en innan herdeildanna er þessi þekking og þar eru heimildir til að bregðast við. Þegar kemur að slíku óttast ég að við séum að einhverju leyti á eftir og þess vegna held ég einmitt að það sé mikilvægt að vinna með ágætum vinum okkar á Norðurlöndunum. Við þurfum að hafa sérstaklega í huga að uppbygging okkar og varnarmál eru ekki alveg sambærileg og til að mynda í Noregi, Svíþjóð og Danmörku.

Ég ætla ekki að hafa þetta öllu lengra. Ég þakka fyrir og hygg að hv. umhverfis- og samgöngunefnd hafi í nægu að snúast við að fara yfir þetta mikla og mikilvæga plagg. Ég tek undir mikilvægi þess að það fái afgreiðslu, hvort sem er það allt eða einhver hluti þess, því að þegar kemur að þjóðaröryggismálunum megum við ekki bíða lengi.