150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

fjarskipti.

775. mál
[20:12]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir andsvarið. Ég er glöð og ánægð að heyra þetta. Ég tek undir síðustu orð hæstv. ráðherra, það er svo ofboðslega mikið í gangi að jafnvel þó að við höfum verið að gera fullt á síðustu misserum þurfum við stöðugt að hafa augun á málinu. Þetta er þáttur sem við höfum leyft okkur í of langan tíma að líta fram hjá. Það er kannski bara eðlilegt, okkur líður stundum þannig að við séum svo örugg á litlu, fallegu eyjunni okkar úti í Atlantshafi, en það er ekki þannig. Glæpir í gegnum netið flæða alveg jafnt til Íslands og annað. Það er mikilvægt að hafa augað stöðugt á boltanum. Ég er ánægð að heyra þetta hjá hæstv. ráðherra og held að það sé mikið til einmitt að byggja upp þessa faglegu þekkingu og eftirspurn eftir henni sem og áhuga sem er gott að heyra að sé til staðar.

Mig minnir að ég hafi líka lesið um það í þessum punktum að sérstaklega hafi verið vísað í klasasamstarf þegar kemur að netöryggismálum. Þá er gott að eiga góða vini, hvort sem er í Noregi eða Bandaríkjunum, til að hjálpa okkur við slíkt. Maður finnur það líka á fyrirtækjum, sérstaklega þeim stærri, að þau átta sig núna á því hvað þetta er mikilvægt. Þarna eru gríðarlegir fjármunir í húfi og ég held að fyrirtæki á Íslandi hafi tekið sig verulega á þegar kemur að því að gæta að netöryggi.

Það má ekki láta deigan síga og ég er ánægð með að heyra það sem ráðherra hefur fram að færa og hvet okkur öll til að halda þessari umræðu á lofti því að hún er gríðarlega mikilvæg og hún er á harðahlaupum. Það er svo mikið að gerast í þessum heimi.