150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

flugsamgöngur til og frá landinu.

[15:06]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er okkar áætlun að styðja við alþjóðaflugvöll í Keflavík sem sinnir Norður-Atlantshafsflugi eins og Icelandair hefur verið að gera undanfarin ár og áratugi. Í því liggja verðmætin í Icelandair fyrir okkur Íslendinga. Þetta er félagið sem hefur byggt upp leiðakerfi um flugvöllinn í Keflavík, á Norður-Atlantshafsflugleiðinni. Enginn annar hefur boðið sig fram í gegnum tíðina til að reyna að sinna þessu hlutverki og það er ólíklegt, verð ég að segja fyrir mitt leyti, að einhverjir erlendir aðilar myndu reyna að hlaupa í skarðið. Þess vegna hefur ríkisstjórnin nú þegar brugðist við.

Varðandi það að hafa órofnar flugsamgöngur við landið er það því miður þannig að þær hafa laskast gríðarlega nú þegar. Ríkisstjórnin hefur þurft að gera samninga við félagið um að halda úti lágmarksflugleiðum til Boston, Stokkhólms og London og er í raun og veru sláandi að skoða flugframboðið í dag miðað við það sem var fyrir stuttu síðan. Allar okkar áætlanir miða sem sagt að þessu. Nú er það fyrirtækisins, sem er skráð félag á markaði, að vinna úr stöðunni og greiða úr þeim vanda sem við blasir.

Ég held að öllum sé ljóst að ef þær áætlanir sem kynntar hafa verið ganga ekki eftir þá stefnir fyrirtækið í gjaldþrot. Það er bara staðan og það er engin goðgá að komast að þeirri niðurstöðu á þessum tímapunkti vegna þess að það blasir við að fyrirtækið lifir ekki lengi tekjulaust. Það blasir við. Það er hin alvarlega staða og (Forseti hringir.) þess vegna hefur ríkisstjórnin ákveðið að styðja við þessa áætlun með því að segja að gangi áform félagsins eftir munum við styðja við hana með mögulegri ríkisábyrgð.