150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[16:10]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið. Eins og þingmaðurinn veit kom umsögn Valgerðar Rúnarsdóttur fram við frumvarpið eins og það var lagt fram á 149. þingi, en það tók síðan breytingum. Það er hins vegar rétt að hluti umsagnarinnar er almenns eðlis og snýr m.a. að því sem þingmaðurinn nefnir, í fyrsta lagi hvort möguleikar á að neyta efna aukist og hins vegar hvort samanburður við útlönd geti verið villandi. Fyrst það að það að setja upp neyslurými fyrir fólk sem neytir fíkniefna í æð muni auka á neysluna. Ég held að það sé afskaplega langsótt, a.m.k. er það ekki reynslan í þeim löndum þar sem þessi leið refsiminnkunar eða refsileysis hefur verið farin. Ég hef alla vega fyrir mitt leyti ekki trú á því.

Varðandi það hins vegar hvort íslenskt samfélag sé endilega eins og önnur samfélög þá er það auðvitað ekki þannig. Við erum svo heppin að við rekum hér öflugt velferðarkerfi. Við erum svo heppin að hér er fátækt og félagsleg vandamál á allt öðrum skala en víða annars staðar í heiminum og hluti af því að efla þetta sama velferðarkerfi og gera stöðu þessara borgara betri en hún annars væri er einmitt að við erum að efla velferðarkerfið með þessu frumvarpi. Það er það sem við erum að gera og ég hef ekki áhyggjur af því að við séum að taka áhættu með frumvarpinu, ég held miklu fremur (Forseti hringir.) að við séum að bæta þjónustu við viðkvæma hópa.