150. löggjafarþing — 104. fundur,  18. maí 2020.

stuðningur úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

811. mál
[16:21]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að játa að mér finnst fyrirspurnin ansi ruglingsleg. Vísað er almennt til þess að margir íslenskir aðilar séu búsettir í London sem hafi einhverja atvinnustarfsemi á Íslandi og njóti skattareglna þar enda eru þeir væntanlega með skattalegt lögfesti þar sem einstaklingar. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður vill að íslensk stjórnvöld fari í einhverjar ráðstafanir til að koma í veg fyrir slíkt. En það sem stendur upp úr hér er að fyrirtækin sjálf á Íslandi, íslensku lögaðilarnir sem eru með skattfesti hér, hafa efnahagslega þýðingu á Íslandi og eru með starfsfólk í vinnu hjá sér og hafa orðið fyrir tekjuhruni. Við höfum áhyggjur af launþegunum og erum að tryggja að laun, lífeyrisréttindi og orlof verði greidd allan þann tíma sem kjarasamningar kveða á um, upp að þremur mánuðum. Án þess úrræðis væri staða þeirra launþega mjög slæm. Ef hv. þingmaður (Forseti hringir.) telur að við eigum að fara í breytingar á skattalögum þá þurfum við að ræða það í öðru máli.