150. löggjafarþing — 104. fundur,  18. maí 2020.

stuðningur úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

811. mál
[16:22]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra og vildi koma aðeins inn á það sem hann sagði. Hæstv. ráðherra sagði í ræðu að erfitt væri að leggja mat á líkurnar á árangri hvað þessa leið varðar og ég vil taka undir það. En mig langar aðeins að beina sjónum að þeim fyrirtækjum sem hafa verið að íhuga aðra leið en uppsagnarleiðina. Það hefur komið gagnrýni úr þeirri átt um að í raun sé verið að hvetja til uppsagna með þessari leið og þegar hún var tilkynnt á einum af blaðamannafundunum varð hrina af uppsögnum í kjölfarið.

Það eru fyrirtæki sem vilja reyna að halda í starfsfólk sitt og myndi gagnast betur að vera með hlutabótaleiðin áfram og halda þannig ráðningarsambandi við starfsmenn sína. Er búið að greina eitthvað, hæstv. ráðherra, hvað það eru mörg fyrirtæki sem gætu hugsanlega viljað halda áfram með hlutabótaleiðina og vilja sjá hana framlengda, jafnvel fram að áramótum, (Forseti hringir.) versus það að fara þessa leið og segja bara upp og rjúfa þar með ráðningarsambandið? Það vantar einhverja greiningu, finnst mér, á þessar tvær leiðir.