150. löggjafarþing — 104. fundur,  18. maí 2020.

stuðningur úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

811. mál
[16:29]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að við vildum taka af skarið með þetta atriði um birtingu upplýsinga um þau fyrirtæki sem nýta sér þetta úrræði. Mér finnst ástæða til að vekja aðeins á því athygli að það er sá munur á þessu úrræði og hlutabótaleiðinni að fjármunir fara eftir ólíkum leiðslum. Í hlutabótaleiðinni er greiðsla beint úr Vinnumálastofnun til launþega á meðan hér er gert ráð fyrir að fyrirtækið þurfi að hafa gert upp við launþegann þær greiðslur sem sótt er um stuðning vegna og svo sé það endurgreitt til fyrirtækisins. Það er m.a. vegna þess að um sum af fjárhagsmálefnum atvinnufyrirtækja hefur Alþingi áður sagt að þurfi að gilda sérstakar reglur. Með það til hliðsjónar þótti rétt að ganga ekki lengra í þessu frumvarpi en að segja að fyrirtækin verði á listanum (Forseti hringir.) en að um fjárhagsupplýsingarnar gildi þær reglur sem Alþingi hefur áður sett.