150. löggjafarþing — 104. fundur,  18. maí 2020.

stuðningur úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

811. mál
[16:31]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi launagreiðslur til stjórnenda í stórum fyrirtækjum er ég almennt þeirrar skoðunar að það eigi ekki að setja reglur um þau efni hér á þinginu. Hins vegar er vel hægt að taka undir með þeim sem segja að það skjóti skökku við, að þeir sem samið hafa um verulega háar launagreiðslur til sín, en lenda svo í þeirri stöðu að þurfa að sækja í sjóði almennings til þess að standa við skuldbindingar sínar, þurfi ekki að hugsa sig tvisvar um. Í því frumvarpi sem hv. þingmaður vísar til eru engin bein inngrip en mönnum er gefinn kostur á að bæta ráð sitt, myndi ég segja. Það stendur alveg fyrir sínu. Það var ekki hluti af þeirri vinnu sem fór í þetta frumvarp að setja slíkar reglur.