150. löggjafarþing — 104. fundur,  18. maí 2020.

stuðningur úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

811. mál
[16:57]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við ræðum frumvarp til laga um stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti. Ég verð að segja eins og er að bara fyrirsögn frumvarpsins er alveg stórfurðuleg, að greiða hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti. Þetta er hálfgerð niðurgreiðsla launa í uppsagnarfresti. Maður nær þessu ekki. En því miður, það eru bara stórfurðulegir tímar. Helstu rökin fyrir hlutabótaleiðinni voru þau að það þyrfti að varðveita ráðningarsamninga milli launþega og vinnuveitenda. Hér er hins vegar verið að stíga skref í öfuga átt og stórauka líkurnar á uppsögnum fjölda fólks, 12.500 manns. Í greinargerð með frumvarpinu segir að áætlað sé að ríkið muni greiða laun í uppsagnarfresti hjá 12.500 manns. Þetta eru sláandi tölur og er eiginlega stórfurðulegt.

Í frumvarpinu er það gert að skilyrði að viðkomandi hafi ekki greitt út arð eða keypt eigin hlut eða gert aðrar sambærilegar ráðstafanir frá 15. mars sl., en þeir sem eru forríkir hafa greitt út arð áður, milljarða. Það er staðreynd. Raunin er sú að fjöldi fyrirtækja hefur greitt út ríkulegan arð á liðnum áratug. Þessi fyrirtæki munu geta nýtt sér niðurgreiðslu launa í uppsagnarfresti, en það ætti ekki að eiga sér stað. Við eigum að gera auknar kröfur til eigenda fyrirtækja um að þeir fjárfesti ekki í eigin fyrirtækjum og eigendur arðbærra fyrirtækja eiga ekki að njóta niðurgreiðslna frá ríkissjóði án þess að þurfa að taka áhættu sjálfir. En þarna er hreinlega, finnst mér, verið að setja ákveðin fyrirtæki í samfesting með bæði axlabönd og belti til að tryggja að þau þurfi ekki að standa við eigin skuldbindingar. Við eigum að krefja þá eigendur um endurfjárfestingar áður en við krefjum skattgreiðendur um að niðurgreiða uppsagnir, sem er absúrd að skuli yfir höfuð verið að gera. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar eiga að miða að því að tryggja störf, ekki að leggja þau niður. Hér er ekki verið að tryggja hagsmuni launþega, enda eru laun þeirra í uppsagnarfresti þegar tryggð í Ábyrgðasjóði launa. Hér er aðeins verið að auðvelda fyrirtækjum að segja upp fólki.

Í frumvarpinu er lagt bann við ákveðnum ráðstöfunum þar til niðurgreiðslur hafa verið tekjufærðar eða endurgreiddar. Þar segir:

„Atvinnurekandi hefur eftir 15. mars 2020 ekki ákvarðað úthlutun arðs, lækkað hlutafé með greiðslu til hluthafa, keypt eigin hluti, innt af hendi aðra greiðslu til eiganda á grundvelli eignaraðildar hans, greitt óumsaminn kaupauka, greitt af víkjandi láni fyrir gjalddaga eða veitt eiganda eða aðila nákomnum eiganda lán eða annað fjárframlag sem ekki varðar öflun, tryggingu eða viðhald rekstrartekna. Jafnframt skuldbindur hann sig til að gera enga framangreinda ráðstöfun fyrr en fjárstuðningurinn hefur að fullu verið tekjufærður samkvæmt 8. gr. eða endurgreiddur samkvæmt 9. gr.“

Eftir að búið er að tekjufæra niðurgreiðslurnar getur fyrirtækið gripið til þessara ráðstafana. Í frumvarpi um áframhaldandi hlutabótaleið komu einnig fram skilyrði fyrir ríkisaðstoð. Þau skilyrði eru orðuð á annan veg. Það vekur furðu að sambærilegar ráðstafanir séu ekki með sambærileg skilyrði. Er ríkisstjórnin ekki með samræmdar aðgerðir í svo skyldum málum? Það virðist ekki vera. Í frumvarpinu um áframhaldandi hlutabótaleið koma fram fleiri skilyrði gagnvart fyrirtækjum sem nýta hlutabótaleiðina en hins vegar er orðalagið í nýrri 7. mgr. bráðabirgðaákvæðis XIII ekki nógu skýrt. Það segir í greinargerð um ákvæðið, með leyfi forseta:

„Þá er gert ráð fyrir að vinnuveitandi staðfesti að hann hafi á tímabilinu 1. júní 2020 til 31. maí 2023 ekki í hyggju að greiða út arð, lækka hlutafé með greiðslu til hluthafa, greiða óumsamda kaupauka, kaupa eigin hlutabréf, inna af hendi aðra greiðslu til eigenda á grundvelli eignaraðildar þeirra, greiða af víkjandi láni fyrir gjalddaga, veita eigendum eða nákomnum aðilum lán eða annað fjárframlag sem ekki varðar öflun, tryggingu eða viðhald rekstrartekna eða greiða eigendum sínum eða æðstu stjórnendum mánaðarlaun sem nema hærri fjárhæð en 3.000.000 kr. til hvers og eins, eftir því sem við á.“

3 milljónir í mánaðarlaun. Þetta er eiginlega með ólíkindum. Aðeins er lögð sú skylda á vinnuveitenda að staðfesta á því augnabliki þegar hann sækir um hlutabætur að hann hafi ekki í hyggju að framkvæma eitthvað af upptalningunni hér að ofan. Ekki er lögð skylda á hann að gera ekkert af þessu á tímabilinu. Þarna þyrfti að standa að á tímabilinu skuli vinnuveitandanum vera óheimilt að gera eftirfarandi á tímabilinu.

Eins og ég benti á fyrr í þessari umræðu eru alltaf einhverjir sem finna leiðir til þess að svindla á svona kerfi. Fyrir nokkrum árum fór sú umræða á flot að fólk væri að svindla sig inn á örorkukerfið í stórum stíl, þarna væri milljarðar undir. Það var brugðist við með skjótum hætti, settur upp svikahnappur og það mátti senda inn tilkynningar um svikara nafnlaust og eiginlega gefið skotleyfi á öryrkja á þeim tíma. Við vitum að einhverjir svindla sér alltaf inn og þeir sem voru kannski að svindla sig inn á örorkubótakerfið voru fárveikir einstaklingar sem áttu alveg fullan rétt á að vera þar inni vegna þess að ég held að öðrum myndi ekki detta í hug að reyna að svindla sér þangað inn. En hér erum við að tala um margfalt hærri upphæðir og engin spurning um að það væri örugglega freistandi fyrir einhverja að svindla sér inn á þetta kerfi. Ekki margir, ég myndi segja að 99% væru heiðarleg en það getur alltaf verið 1% manna sem er tilbúið að svíkja. Þess vegna sagði ég að það væri tilvalið að setja upp hnapp á heimasíðu fjármálaráðuneytisins, hjá fjármálaráðherra þess vegna, þar sem væri hægt að benda á þá aðila, ef einhverjir áttuðu sig á því að það væri verið að svíkja almannafé úr ríkissjóði. Það er mun betra og auðveldara að gera þetta núna vegna þess að við erum búin að vera að fjalla um lög um vernd uppljóstrara og eins og lögum er háttað þá ber almenningi, ef hann verður var við það, að upplýsa um stórfellt svindl.

Við vitum líka að það eru fyrirtæki sem eru í þeirri aðstöðu að geta svindlað á kerfinu og hafa sýnt það á undanförnum árum. Þau geta komið peningum undan, sloppið við að borga skatt, sloppið við að borga fjármagnstekjuskatt, komið fjármunum fyrir í aflandsfélögum. Þetta eru ekki einstök fyrirtæki, fjöldi fyrirtækja hefur nýtt sér þessar leiðir. Við vitum líka að þau eiga möguleika á að nýta sér þá leið sem við fjöllum um hér, sem er auðvitað ömurlegt og verður að sjá til þess með öllum tiltækum ráðum að þau geti það ekki.

Það er annað sem við hljótum líka að horfa á í þessu samhengi og það eru tölurnar sem eru gefnar hérna upp. Það eru rúmar 600.000 kr. í hámarksgreiðslu launa og jafnvel 85.000 kr. sem varða lífeyrissjóð og launatengd gjöld, þannig að þetta eru um 700.000 kr. Og við erum með að hámarkslaun fari ekki yfir 3 milljónir. Þarna er sennilega um 30 milljarða að ræða. Við getum sett það í samhengi við það að hér var felld tillaga í meðferð þingsins þar sem við í stjórnarandstöðunni báðum um 100.000 kr. eingreiðslu fyrir almannatryggingaþega, öryrkja og eldri borgara, og í það samhengi að það eina sem öryrkjar hafa fengið er 20.000 kr. eingreiðsla sem kemur um næstu mánaðamót, skattlaus. En við höfum ekki séð eitt einasta orð um það hvað eigi að gera fyrir eldri borgara. Þetta er dæmalaust í því ástandi sem er í dag. Ég hef fengið upplýsingar um og mér hefur verið bent á að fólk er að taka út lyf á raðgreiðslum, jafnvel að reyna að ná sér í smálán til þess að geta staðið undir kostnaði við lyf eða mat. Það er ömurlegt til þess að vita að það virðast vera til ótakmarkaðir fjármunir, ekki 30 milljarðar heldur allt að 300 milljarðar, í allt nema félagslega kerfið, almannatryggingakerfið. Menn voru að hæla sér af 8 milljörðum sem hafa verið settir inn í það, sem dreifast á mjög stór og víðfeðm mál og skila þar af leiðandi litlu í sjálfu sér. Því er alveg með ólíkindum að sú staða skuli vera uppi að það virðast vera til peningar í ríkissjóði fyrir launakostnaði í uppsagnarfresti, en það eru ekki til peningar í ríkissjóði fyrir lyfjum eða mat handa þeim sem þurfa virkilega á því að halda.

Við verðum líka að spyrja okkur að því að ef þetta fer eins og útlit er fyrir, kostnaður upp á 200–300 milljarða í þessum Covid-málum, hvernig verður þá ástandið eftir Covid? Hvernig verður ástandið á næsta ári? Hvar verða þá breiðu bökin fundin? Eins og það hefur hingað til verið, hjá ríkisstjórn eftir ríkisstjórn, mun þessi ríkisstjórn finna breiðu bökin hjá eldri borgurum, öryrkjum, láglaunafólki, atvinnulausum og námsmönnum. Þar er sú furðulega staða uppi að á sama tíma og maður horfir á greiðslur vegna launakostnaðar í uppsagnarfresti hafa námsmenn sem hafa jafnvel verið í 80% vinnu engan rétt á atvinnuleysisbótum. Samt eru þeir búnir að borga í sjóðinn og ættu samkvæmt því að eiga allan rétt á að fá atvinnuleysisbætur. Nei. En launakostnaður í uppsagnarfresti, já, borgum það. Það er nóg til af peningum í það, en ekki króna handa þeim sem hafa þegar borgað í Atvinnuleysistryggingasjóð. Þetta er alveg stórfurðulegt.

Það verður því miður að segjast alveg eins og er að málið er illa ígrundað og ekki sanngjarnt.