150. löggjafarþing — 104. fundur,  18. maí 2020.

gjaldþrotaskipti.

815. mál
[18:31]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um gjaldþrotaskipti. Markmið frumvarpsins er að sporna gegn kennitöluflakki og misnotkun hlutafélagaformsins. Frumvarpið grundvallast á sáttmála ríkisstjórnarflokkanna frá nóvember 2017 en þar er meðal annars að finna umfjöllun um stefnu ríkisstjórnarinnar í vinnumarkaðsmálum og er kennitöluflakk þar sérstaklega tilgreint. Að sama skapi er frumvarpið hluti af stuðningi ríkisstjórnarinnar við lífskjarasamninga aðila vinnumarkaðarins frá árinu 2019.

Í þessu sambandi er rétt að rifja upp að á vorþingi 2019 voru gerðar breytingar á 262. gr. almennra hegningarlaga þannig að með dómi í sakamáli megi banna þeim sem gerist brotlegur gegn ákvæðinu að stofna félag með takmarkaðri ábyrgð félagsmanna, sitja í stjórn, starfa sem framkvæmdastjóri eða koma með öðrum hætti að stjórnun eða fara með meiri hluta atkvæðisréttar í slíku félagi í allt að þrjú ár.

Við undirbúning þeirrar löggjafar varð ljóst að sú breyting næði ekki að fullu því markmiði að vernda kröfuhafa og samfélagið í heild fyrir hættu á tapi sem væri líklegt að hlytist af misnotkun á hlutafélagaforminu enda ekki sjálfgefið að öll mál af því tagi komi til kasta dómstóla í formi sakamáls. Töluverðar líkur eru enda á því að flest þau tilvik sem alvarlegust eru, og líklegust til að valda samfélaginu tjóni, verði í tengslum við greiðsluþrot og síðar gjaldþrot félaga. Með þessu frumvarpi er því lagt til að mögulegt verði að úrskurða þann sem ekki telst hæfur til að stýra hlutafélagi vegna skaðlegra eða óverjandi viðskiptahátta í atvinnurekstrarbann og eru þær breytingar nauðsynleg viðbót til fyllingar þeim breytingum sem gerðar voru á almennum hegningarlögum á síðasta ári.

Frumvarpið var unnið í samráði við fjármála- og efnahagsráðuneytið, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins. Þá var frumvarpið til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda. Ein umsögn barst um frumvarpið, sameiginleg umsögn Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins, þar sem efni frumvarpsins er fagnað og þeirri afstöðu lýst að það feli í sér mikilvæga réttarbót.

Í tilviki atvinnurekstrarbanns er nánar tiltekið lagt til það nýmæli að dómara verði heimilt að kröfu skiptastjóra og í sérstöku máli að úrskurða þann sem ekki telst hæfur til að stýra hlutafélagi, einkahlutafélagi og í vissum tilvikum samlagshlutafélagi í atvinnurekstrarbann sem að meginreglu vari í þrjú ár. Í slíku banni felst nánar tiltekið að þeim sem því sætir er óheimilt að stjórna félagi sem rekið er með takmarkaðri ábyrgð, þ.e. félagi þar sem enginn félagsmanna ber persónulega ábyrgð á heildarskuldbindingum félagsins, og fara með prókúru eða annað umboð slíks félags. Rétt er að geta þess að lagt er til að atvinnurekstrarbann geti verið lagt á þann sem „komið hefur að stjórnun félagsins“ en undir það geta fallið svonefndir skuggastjórnendur. Með því er átt við aðila sem starfar í raun sem stjórnarmaður eða framkvæmdastjóri félags í skilningi laga án þess að vera formlega skráður sem slíkur.

Það er algjört grundvallaratriði að tilgangur atvinnurekstrarbanns er ekki refsing heldur að vernda almenning og samfélagið í heild fyrir misnotkun á hlutafélagaforminu. Með öðrum orðum þá eru ákvæði frumvarpsins samin með undirliggjandi almannahagsmuni að leiðarljósi. Engu að síður er ljóst að atvinnurekstrarbann er íþyngjandi úrræði og því mikilvægt að því verði ekki beitt nema ástæða sé til og að ákvörðun þar að lútandi byggist á heildarmati á öllum aðstæðum. Í því sambandi sérstaklega er mikilvægt að árétta að einungis er ráðgert að atvinnurekstrarbanni verði beitt vegna alvarlegri tilvika og að ekki sé þrengt að frumkvöðlastarfsemi eða dregið úr hvata einstaklinga til þess að taka þátt í atvinnurekstri. Er rétt að hafa í huga að flest félög með takmarkaðri ábyrgð eru rekin í góðri trú og tekin til gjaldþrotaskipta af ástæðum sem ekki verður við ráðið. Í slíkum tilvikum stendur ekki ásetningur stjórnenda og annarra þeirra sem hafa stýrt félagi til annars en að standa við lagalegar skuldbindingar eins og hægt er og ráðstafa eignum eða andvirði þeirra til greiðslu skulda eftir reglum gjaldþrotaskiptalaga. Þegar kennitöluflakk á sér stað gegnir öðru máli. Annars vegar getur sá ásetningur verið fyrir hendi frá upphafi að fara á svig við eða gegn lagareglum. Þá eru gjarnan litlar eða engar eignir í félagi frá upphafi og tilgangur fyrst og fremst að misnota hlutafélagaformið. Þetta er alvarlegasta tegund kennitöluflakks. Hins vegar getur verið um það að ræða að félag í greiðsluerfiðleikum sé rekið í þrot og eignir færðar að hluta eða að öllu leyti í nýtt félag á undirverði eða án endurgjalds, en um það finnast dæmi úr íslenskri réttarframkvæmd. Hið nýstofnaða félag er þá gjarnan starfrækt undir sama nafni og eldra félagið líkt og engin breyting hafi orðið. Þannig heldur reksturinn áfram í nýju félagi með sama eða svipuðu nafni, en skuldir eldra félagsins eru skildar eftir í eldra félaginu sem síðar er tekið til gjaldþrotaskipta og kröfuhafar sitja uppi með tjónið. Það eru síðastnefndu tilvikin sem nauðsynlegt er að tryggja almannahagsmuni fyrir og miða ákvæði frumvarpsins að því.

Skilyrði þess að úrskurða megi einstakling í atvinnurekstrarbann er að viðkomandi einstaklingur teljist ekki hæfur til að stýra hlutafélagi vegna skaðlegra eða óverjandi viðskiptahátta við stjórnun félags. Um matskennd skilyrði er að ræða en sem dæmi um háttsemi sem undir það gæti fallið eru umfangsmikil vörukaup án þess að líkur séu á greiðslu, viðvarandi brot gegn bókhaldslögum eða tilfærsla eigna úr hinu gjaldþrota félagi á undirverði eða án endurgjalds. Þá er jafnframt rétt að líta til þess hvaða hlutverki viðkomandi gegndi við stjórnun félags en líta verður svo á að því meiri ábyrgð sem viðkomandi bar við stjórnun félags þeim mun meiri ástæða kunni að vera til að úrskurða hann til að sæta atvinnurekstrarbanni. Þá er rétt að líta til þess hvort viðkomandi hafi gripið til ráðstafana til að varna tjóni, svo sem með því að semja um vanskil eða grípa til annarra aðgerða í því augnamiði að koma rekstri félagsins á réttan kjöl. Slíkt kann að mæla gegn því að atvinnurekstrarbann verði lagt á.

Með öðrum orðum verður mat á því hvort atvinnurekstrarbann verður lagt á sem fyrr segir að grundvallast á heildarmati á öllum aðstæðum og vera til þess fallið að ná markmiði sínu, og líkt og fyrr segir aðeins beitt vegna alvarlegri tilvika.

Hæstv. forseti. Ég hef hér vikið að mikilvægustu efnisatriðum frumvarpsins en önnur ákvæði þess fjalla að mestu málsmeðferð fyrir dómi en miðað er að því að hún gangi sem greiðast og hraðast fyrir sig. Ég legg því til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.