150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

aðgerðir gegn stafrænu kynferðisofbeldi.

570. mál
[16:57]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka aftur hv. fyrirspyrjanda og þeim hv. þingmönnum sem hafa blandað sér í umræðuna. Það er, held ég, í þessum málum nauðsynlegt að gera hvort tveggja, þ.e. að ráðast í nauðsynlegar lagabreytingar og tryggja að lögin endurspegli að einhverju leyti það umhverfi sem við lifum í, sem þau gera ekki nú. Það er ekki gert ráð fyrir þessum birtingarmyndum kynferðisofbeldis í gegnum nýja tækni. Ég held sömuleiðis að það sé mikilvægt að við innleiðum þetta hugtak, kynferðisleg friðhelgi, í innlendan rétt. Ég held að það muni einmitt verða til þess að breyta aðeins skilningi á því vandamáli sem kynbundið og kynferðislegt ofbeldi er.

Hvernig hafa fjármunir nýst í þeim átaksverkefnum sem hefur verið ráðist í? Ég held að mjög vel hafi verið farið með þá peninga sem ríkið hefur sett í slík átaksverkefni. Þau hafa auðvitað verið allnokkur á undanförnum árum. En hins vegar held ég að stóra málið í þessu sé að við getum ekki tekið á þessu sem átaksverkefni heldur þurfum við að gera það alltaf. Mikilvægt er að nýta þær áherslur sem lagðar eru í forvarnaáætluninni, sem ég ítreka að ég vona að þingið samþykki á þessu þingi, til þess að gera þetta í raun og veru að föstum lið í skólakerfinu þannig að við náum þessari almennu vitundarvakningu og samtali hjá börnum og ungmennum því það mun skipta verulegu máli.

Að lokum vil ég segja, eins og hv. fyrirspyrjandi benti á, að Ísland hefur vakið athygli fyrir góðan árangur í jafnréttismálum á alþjóðavísu. En ef við ætlum að standa undir nafni þá er ekki í boði að setjast núna niður og hvíla sig heldur er það skylda okkar að vinna áfram að aðgerðum til að uppræta kynbundið misrétti. Kynferðislegt og kynbundið ofbeldi er skýrasta birtingarmynd misréttisins og það er í senn bæði orsök og afleiðing. (Forseti hringir.) Þess vegna er svo mikilvægt að við forgangsröðum því að uppræta það í okkar samfélagi.