150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

fasteignafélagi Heimavellir.

583. mál
[20:36]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðjón S. Brjánsson) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir skýr og greinargóð svör við þeim spurningum sem ég lagði fyrir hann. Eins og ég nefndi er þetta sorgleg saga, raunasaga af Skaganum, þar sem vélað var með hlutskipti fólks sem stendur höllum fæti á húsnæðismarkaði. Þarna leika markaðsöflin ljótan leik eða þau leika algerlega lausum hala. Mér finnst það umhugsunarefni því að stjórnvöld hafa á síðustu árum haldið þeim viðhorfum á lofti að við þurfum að skapa möguleika fyrir fólk sem getur kannski ekki eða kýs ekki að eignast húsnæði, að það geti leigt tryggt og öruggt húsnæði. Vilji stjórnvalda hefur staðið til þess.

Við erum svo ófullburða í okkar samfélagi að til verða einhver fyrirtæki sem hugsanlega leika að einhverju leyti tveimur skjöldum, telja okkur trú um að þau séu óhagnaðardrifin leigufélög og séu til þess að skapa stöðugleika. En svo er bara ekki. Þau fá jafnvel fyrirgreiðslu stjórnvalda til að fara af stað en breyta svo um kúrs, skipta um klár í miðri á. Þetta er umhugsunarefni. Menn hafa t.d. verið að fá jafnvel lóðir og jafnvel eignir í ákveðnum tilgangi og hætta svo fyrirhugaðri starfsemi og selja jafnvel og gera sér fémæti úr þessum eignum sem alls ekki var ætlunin.

Ég spyr ráðherra: Hvernig er eftirlitið? Erum við með nægilega sterka eftirlitsumgjörð? Getum við kannski upplifað fleiri svona dæmi eins og við kynntumst á Skaganum? Er ekki ástæða til þess að styrkja umgjörðina í heild?