150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

varnartengdar framkvæmdir á Suðurnesjum.

[15:59]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir að efna til þessarar umræðu þótt ég hafi reyndar spurt mig hvort hún væri tímabær. Mér vitanlega hefur ekki komið nein formleg beiðni frá NATO eða samstarfslöndum okkar um þessi verkefni sem hafa mest verið til umræðu hérna. En það er full ástæða til að ræða þann spuna sem er kominn í gang. Hæstv. ráðherra segir hér og staðfestir að það sé ekki komin nein formleg beiðni og þá lítur þetta beinlínis út sem krossferð einstakra þingmanna Sjálfstæðisflokksins í þessu kjördæmi, sem virðast vera að nota sér hörmulegar efnahagsaðstæður svæðisins í kjölfar Covid til að slá sig til riddara. Ég spyr þá hvort ekki sé heppilegra að hæstv. ráðherra rói þingmenn aðeins niður svo gasprið leiði ekki til óraunhæfra væntinga fólks sem býr við mjög mikla erfiðleika á þessu svæði. Það þarf svo sannarlega á inngripi að halda en kannski með raunhæfum hætti.

Það olli mér nokkrum vonbrigðum að hæstv. ráðherra hafi talað um að nú væri einmitt rétti tíminn til þess að knýja á um að það yrði farið í mikla uppbyggingu á svæðinu. Þá minni ég á að í kjölfar heimsóknar varaforseta Bandaríkjanna fullyrti ráðherra, þegar á hann var gengið, að það ætti ekki að blanda saman varnar- og hernaðaruppbyggingu við viðskipti. Það er bara eitruð blanda og ekki samboðin virðingu íslenskrar þjóðar. Hins vegar er full þörf á því að blása til sóknar í atvinnulífi Suðurnesjabæja og auka fjölbreytni í atvinnulífinu. (Forseti hringir.) En það skulum við gera á eigin forsendum þangað til það kemur formleg fyrirspurn frá NATO og þá skulum við ræða málefnalega um það.