150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

varnartengdar framkvæmdir á Suðurnesjum.

[16:21]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Óljósar fréttir sem rekja má til þingmanna Sjálfstæðisflokksins um að NATO hafi óskað eftir að fara í hernaðaruppbyggingu í Helguvík upp á 6,5 milljarða kr. komst á kreik á dögunum. Í umræðunni í framhaldinu hefur ýmsu verið ruglað saman; í fyrsta lagi ósk Reykjanesbæjar um stuðning ríkisins við Helguvíkurhöfn, sem oft hefur komið fram, í öðru lagi hvernig unnt sé að vinna gegn miklu atvinnuleysi á Suðurnesjum og í þriðja lagi hlutverki þjóðaröryggisráðs. Þjóðaröryggisráð leggur mat á ástand og horfur í öryggis- og varnarmálum, stuðlar að hlutlægri og málefnalegri umfjöllun um þjóðaröryggismál, á að efla upplýsingagjöf og vinna með áhættuvísa.

Hæstv. utanríkisráðherra hefur ekki svo ég viti óskað eftir umræðu um þetta mál í þjóðaröryggisráði en nauðsynlegt virðist á þessari umræðu að taka þurfi umræðuna upp í ráðinu og rýna gögn, ef einhver eru yfir höfuð. Það er sannarlega mikilvægt að vinna gegn atvinnuleysi á Suðurnesjum og sveitarstjórnarmenn hafa bent á framkvæmdir sem ráðast má í strax, líkt og tvöföldun Reykjanesbrautar, breytingar á húsnæði heilbrigðisstofnunarinnar og viðbyggingu við fjölbrautaskólann. Það eru framkvæmdir sem skapa atvinnu og nýtast íbúum vel að þeim loknum.

Að kalla eftir hernaðaruppbyggingu einungis til að vinna gegn atvinnuleysi er fráleitt að mínu mati. Meira þarf að koma til. Oft hefur verið talað um Helguvíkurhöfn og hafa margir stjórnmálamenn lofað fjármunum til hennar sem aldrei hafa komið. Með stækkun gæti Helguvíkurhöfn þjónað stærri skipum og breytingum sem gagnast við leit og björgun á norðurslóðum. Með bráðnun jökla, breyttum siglingaleiðum og aukinni umferð um norðurslóðir eykst hættan á alvarlegum slysum. Samstarf við aðrar þjóðir um framkvæmdir sem nýtast við leit og björgun á norðurslóðum er vel þess virði að skoða og Helguvíkurhöfn vel staðsett hvað það varðar í nálægð við alþjóðaflugvöll.