150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

varnartengdar framkvæmdir á Suðurnesjum.

[16:28]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Þetta er svolítið sérstök umræða í dag eins og ég bjóst reyndar við. Hérna eru nokkur atriði sem koma mjög einkennilega út. Í fyrsta lagi er margbúið að ítreka að þetta mál snýst alls ekki um frekari hernaðaruppbyggingu eða uppbyggingu á Suðurnesjum. Það er búið að útskýra að um er að ræða viðhald á varnarmannvirkjum. Við þurfum að hafa góða höfn sem getur tekið á móti herskipum og einnig fyrir t.d. flota Landhelgisgæslunnar og önnur borgaraleg not. Við erum með góða höfn í Helguvík og við erum þar í næsta nágrenni við alþjóðlegan flugvöll þannig að mjög eðlilegt er að stjórnvöld horfi til þess að bæta aðstöðuna í Helguvík. Framsóknarflokkurinn styður að sjálfsögðu þá uppbyggingu. Mér finnst orðanotkunin svolítið skrýtin.

Annað er að ég hlustaði á hæstv. ráðherra áðan og hann fór ágætlega yfir að þær framkvæmdir sem nú standa yfir og hljóða upp á milljarða sem og þær framkvæmdir sem eru nú á lokametrunum í útboðsferli hafi verið kynntar í ríkisstjórn 2017 og 2018. Sumir tala eins og þetta hafi farið allt mjög leynilega fram en svo er ekki. Ég ítreka aftur að ég er efnislega sammála því að við uppfyllum samninga okkar og stöndum okkur í varnarsamstarfinu en mér finnst ómakleg aðferðafræðin hjá einstökum þingmönnum í þessu máli og hvernig hefur verið ráðist á sveitarstjórnir á Suðurnesjum og þær sakaðar um áhugaleysi. Ég kann jafn illa við þegar hv. þingmenn benda sveitarstjórnarfólki á Suðurnesjum á að það geti horft til annarra átta í atvinnuuppbyggingu. Sveitarstjórnarfólk gerir það alveg. Mér finnst verið að tala niður til fólks og ég kann ekki við það.