150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

varnartengdar framkvæmdir á Suðurnesjum.

[16:33]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég held að við séum komin að niðurstöðu um það að við erum að tala um sérstakt mál, mjög sérstaka umræðu á mjög sérstakan og furðulegan hátt. Niðurstaðan er að ég held að við séum að tala um allt þetta mál á kolröngum forsendum og ættum eiginlega að vera að tala um einfalt mál, 28% atvinnuleysi á Suðurnesjum og hvað sé til ráða. Ef það er til ráða að dýpka höfnina og gera stærri höfn gerum við það bara. Ef það er til bóta og skapar vinnu að laga eitthvert húsnæði á vellinum gerum við það.

Við þurfum samt að gera miklu meira. Við þurfum líka að hugsa um hvernig við ætlum að tækla það þegar ferðamenn koma aftur. Hvað ætlum við að gera? Hvernig ætlum við að opna flugvöllinn? Ætlum við að vera með rándýrar prófanir á hverjum einasta ferðamanni? Þarna er lausnin sem við þurfum að finna. Þetta þurfum við að fara að gera. Þetta eigum við að tala um. Við ættum að vera að tala um hér 28% atvinnuleysi á Suðurnesjum og hvernig við ætlum að leysa það mál. Hins vegar erum við að tala um stórfurðulegt mál á sama tíma og við erum í miðju Covid, hugsið ykkur. Hvað erum við þar að berjast við? Við erum í stríði við veiru sem við sjáum ekki og vitum ekki af en á sama tíma höfum við áhyggjur af einhverri hernaðaruppbyggingu.

Ég segi fyrir mitt leyti að ég held að við séum algjörlega á rangri leið. Við eigum að einbeita okkur að því hvað við ætlum að gera í ástandinu sem er í dag og hvernig við ætlum að leysa það. Ef við getum ekki einbeitt okkur að því breytir engu hvort herskip komist að í Helguvík eða ekki. Við vorum að vísu á sínum tíma með herskip í Hvalfirði á stríðsárunum. Ég hugsa að við hefðum ekki viljað vera án þess.

Við verðum að leysa stöðuna eins og hún er í dag, atvinnuleysið á Suðurnesjum. Það er grafalvarlegt.