150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

ferðagjöf.

839. mál
[17:13]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Við bindum vonir við að fyrirtæki í ferðaþjónustu kynni mótframlag og ýmiss konar tilboð. Við vonumst til þess að fyrirtæki margfaldi þannig þennan pening, þ.e. að fjárhæðin verði hærri fyrir vikið. Ég veit ekki hvort öll fyrirtæki muni gera það en ég trúi ekki öðru en að einhver fyrirtæki geri það. Það er þá frekar hægt að eiga viðskipti við þau fyrirtæki sem til að mynda geta tvöfaldað upphæðina eða hengt eitthvað aftan við þessa fjárhæð. Þetta er líka gjöf sem er almenn — eða gjöf, þetta eru auðvitað peningar skattgreiðenda sem við erum að setja í þetta — og hún getur farið í hvað sem er. Það er líka hægt að fara á söfn á höfuðborgarsvæðinu fyrir þá sem búa hér, fara á veitingastað og fá sér nasl. Það er hægt að nota þetta í ýmislegt. Það er engin ein ríkisleið í því hvert ferðalagið þurfi að vera, að það þurfi að vera sex klukkustundir frá höfuðborgarsvæðinu, gisting, þriggja rétta máltíð og ferð upp á jökul. Það er ýmislegt annað sem hægt er að gera. En vonandi geta þeir sem hafa minna á milli handanna átt í viðskiptum við þá sem til að mynda tvöfalda upphæðina eða stækka hana með einhverjum hætti.