150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

ferðagjöf.

839. mál
[17:17]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Spurning númer tvö um persónuverndina, það vantaði að koma inn á það. Það vantar kannski eitthvað í frumvarpið hvað persónuvernd varðar því að þarna er þó nokkur upplýsingasöfnun um hvað fólk er að nota ferðagjöfina í.

Ég velti aftur fyrir mér 3. gr., um hvers konar fyrirtæki geti tekið við þessari ferðagreiðslu. Þarna eru fyrirtæki sem eru í góðum málum og geta þá, eins og ráðherra talaði um áðan, mögulega margfaldað þetta, þessi margfeldisáhrif sem hæstv. ráðherra talaði um, en þau sem eru í meiri erfiðleikum geta það ekki. Það býr kannski til ójafnvægi á ferðamarkaði þegar stöndugri fyrirtæki fá allt í einu tækifæri til að taka til sín þó nokkuð stærri hluta. Ef heildaráhrifin af þessu eiga að vera 1,5 milljarðar eru það kannski 15 fyrirtæki sem geta bara tekið allt til sín, hver veit, alla vega stóran hluta. Það væri því mjög áhugavert að sjá gagnsæisákvæðin hvað þetta varðar, hvaða fyrirtæki munu fá þessar ferðagjafir. Mun fylgja því svipaður listi og var t.d. varðandi hlutabótaleiðina sem við höfum verið að vinna í undanfarið?