150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

ferðagjöf.

839. mál
[18:21]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er ákveðið vandamál. Um leið og þetta er orðið stafrænt eru tengslin allt í einu orðin til af sjálfu sér, alla vega möguleikinn á þeim. Ég hef í rauninni enga tillögu hvað það varðar því að það verður að vera einhvers konar eldveggur á milli þess hver viðkomandi er og hvaðan gjafabréfið kemur, ef einhvers staðar á að höggva á þann hnút. En einhverjum verður treyst til að hafa þá gjá sem ætti annars að vera í ferlinu til þess að vera viss um að allir fái sitt og að það sé rekjanlegt. Ef þetta er nafnlaust getur einhver sagt: Ég fékk ekki minn kóða, og þá væri ekki hægt að sannreyna það ef þetta væri ekki rekjanlegt.

Þetta er flókið vandamál. Það er ekkert nema nákvæmlega það um málið að segja. Þess vegna spurði ég hv. þingmann af hverju honum fyndist tæknilausnin vera góð, í ljósi orða hæstv. ráðherra sem sagði að engum persónuupplýsingum yrði safnað. Mér finnst þetta vera mjög áhugavert vandamál hvað þetta frumvarp varðar og ég væri til í að nefndin skoðaði það aðeins betur.